Útivist í fjallasölum Alpanna

Hreint fjallaloft, ferskt lindarvatn og safaríkar, grænar fjallshlíðar. Tíról er sannkallaður draumur til fjölbreyttrar útivistar. Zillertal-Alparnir er háfjallaþjóðgarður og stærsta náttúruverndarsvæði Alpanna. Þegar ekið er til áfangastaðar okkar, Lanersbach í Tuxertal, er ekið eftir Zillertal og áfram til Tuxertal sem er um 8 km langur og umvafinn Tuxer-Ölpunum. Hann er oft sagður einn af fallegustu og eftirsóttustu dölum Alpanna! Jafnt sumar sem vetur er opið í flestar skíðalyftur og kláfa sem dregur gönguhópa að þessu svæði. Svæðið sem gengið er um er einstaklega spennandi, leiðirnar liggja um dali og fjöll og fegurðin er ólýsanleg! Það er stutt að skreppa til næstu bæja en þeirra þekktastur er Mayrhofen í Zillertal sem margir Íslendingar þekkja sem skíðastað. 

Verð á mann í tvíbýli 199.900 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 14.400 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir milli flugvallarins í München og hótelsins í Lanersbach.
 • Gisting í 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð.
 • 4 rétta kvöldverður öll kvöld ásamt salat hlaðborði.
 • Grill- og Fonduekvöldverður.
 • Aðgangur að sundlaug og heilsulind hótelsins.
 • Afnot af baðslopp og inniskóm á meðan á dvöl stendur.
 • Leiga á hjóli og hjálmi í einn dag.
 • Göngudagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Leigubílaakstur, strætó eða lestarferðir.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Fjallaklifur með búnaði í fylgd með leiðsögumanni ca € 50.
 • Jöklaganga á Olperer með búnaði í fylgd með leiðsögumanni ca € 310.
 • Leiga á rafhjóli og hjálmi í einn dag 3.800 kr.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flogið til München 18. ágúst

Flogið verður með Icelandair til München þann 18. ágúst. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Lanersbach í Tuxertal sem er í 1.300 m hæð í Tíról, Austurríki og verður gist á glæsilegu 4* fjallahóteli í 7 nætur. Til hótelsins í Tuxertal eru um 200 km og má því gera ráð fyrir a.m.k. 2,5 klst. rútuferð þangað. Á heimleið 25. ágúst leggjum við snemma af stað út á flugvöll og flogið verður heim kl. 14:05 frá München. Lending í Keflavík kl. 16:00 að íslenskum tíma. 

Útivist á svæðinu Tuxertal

Í Tuxertal eru fimm þorp, Tux-Vorderlanersbach, Tux-Lanersbach, Juns, Madseit og Hintertux. Við gistum í Tux-Lanersbach. Þjóðgarðurinn er í 1.000 –3.509 m hæð yfir sjó og er 379 km² að stærð. Garðurinn er þekktur fyrir fjölbreytt dýra- og plöntulíf, djúpar gjár, fossa og fjölbreytt landslag.

Tillögur að dagleiðum

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða farnar og fer það eftir veðri og aðstæðum. Þá er einn hjóladagur og einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu og notið aðstöðunnar.

Opna allt

Dagleið 1 | Zemmtal - Ginzling – Maxhütte skálinn

Hefjum daginn á því að fara með skutlu frá hótelinu til Ginzling þar sem ganga dagsins hefst. Göngum í gegnum skógi vaxið svæði inn í Gunggl dalinn, einn fallegasta dal innan Zemmtal dalsins. Þar stendur sérstæður skáli, Maxhütte í 1450 m hæð. Við fáum okkur hressingu og njótum náttúrunnar og fjallaloftsins. Ef vill er hægt að lengja gönguna dálítið og ganga inn að enda dalsins Gunggl. Göngum síðan til baka til Ginzling.

 • Vegalengd: ca 6 km
 • Göngutími: ca 3,5 klst.
 • Hækkun/lækkun: +460/-460 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungs

Dagleið 2 | Hintertux – Schleier fossinn – Weitental – Tuxerjochhaus – Sommerberg

Í dag förum við með göngurútunni í áttina að Hintertux, þaðan sem við hefjum göngu dagsins til Tuxerjoch hússins. Göngum mjóa fjallastíga upp að mjög fallegum fossi en vegurinn leiðir okkur fram hjá fossinum og þannig getum við bæði virt hann fyrir okkur að neðan og ofan. Síðan komum við í Weitental dalinn þar sem miklar líkur eru á því að sjá múrmeldýr. Við Tuxerjoch húsið getum við svo fengið okkur góða hressingu og síðan göngum við niður að Sommerberg. Þaðan getum við tekið fjallalest niður til Hintertux en að sjálfsögðu er líka hægt að ganga niður fyrir þá sem það vilja.

 • Vegalengd: ca 8 km
 • Göngutími: ca 4,5 klst.
 • Hækkun/lækkun: +820/-200 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 3 | Stoankasern – Grübelspitze – Eggalm – Lanersbach

Dagurinn hefst á ferð frá hótelinu með göngurútu í ostagerðina Bergkäserei Stoankasern en hún liggur í 1984 m hæð fyrir ofan Tuxer dalinn í Tíról. Á sumrin eru hér yfir 100 kýr á beit ásamt kálfum. Unnið er smjör og ostur á staðnum úr ferskri mjólkinni. Héðan göngum við í áttina að Grübelspitze sem er í 2395 m hæð, fram hjá hinum áhrifamikla kletti Kalkwand og fallegum engjum. Frá Grübelspitze göngum við niður til Eggalm, þaðan sem hægt væri að taka kláf niður til Lanersbach en það tekur u.þ.b. 1 klst. að ganga niður fyrir þá sem vilja.

 • Vegalengd: ca 9 km
 • Göngutími: ca 3,5 klst.
 • Hækkun: +400/-450 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið, að hluta brattir fjallsstígar.

Dagleið 4 | Torsee yndisganga

Tökum kláfinn frá Lanersbach að Eggalm (ca 2000 m). Göngum þægilega leið á frábærri útsýnisleið að Grüblspitze (2395 m). Þaðan yfir Ramsjoch (ca 3600 m) að hinum dásamlega fallegu vötnum Torseen. Löng en stórbrotin leið niður til Lanersbach.

 • Vegalengd: ca 12 km
 • Göngutími: ca 5 klst.
 • Hækkun: +691/-1274 m
 • Erfiðleikastig: létt

Dagleið 5 | Hjóladagur – hjólað og gengið að Tettensjoch

Förum á hjólum beint frá hótelinu upp til Lanersbach. Þaðan hjólum við að skálanum Höllensteinhütte og áfram í áttina að Kreuzjoch. Rétt áður en þangað er komið stígum við af hjólunum og göngum á þægilegum hraða að krossinum á toppi Tettensjoch. Þar njótum við stórkostlegs útsýnis yfir Tuxer dalinn og eftir stutta viðdvöl göngum við aftur að hjólunum og rúllum okkur niður að Höllsteinhütte. Þar getum við fengið okkur góða hressingu áður en við höldum áfram til Lanersbach.

 • Vegalengd: ca 19 km
 • Hækkun/lækkun: +740 á hjóli, +200 gangandi/-940 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Frídagur

Á frídeginum er tilvalið að kynna sér fleiri útivistarmöguleika á svæðinu eins og t.d. fjallaklifur eða jöklagöngu á Olperer 3476m.

Eins er hægt að taka því rólega á hótelinu og nýta aðstöðuna, fara í finnska sánu, tyrkneskt eimbað eða saltvatnssánu. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalsteinn Jónsson

Ég heiti Aðalsteinn Jónsson, kvæntur og þriggja sona faðir sem allir eru á kafi í fótbolta og fleiri íþróttum. Ég er lærður íþróttakennari og starfa við það í dag.

Ég starfaði í 10 ár sem fararstjóri, m.a. í Kempervennen Hollandi þar sem stílað var inn fjölbreytta afþreyingu fyrir barnafjölskyldur. Mikið var lagt upp úr alhliða hreyfingu - göngu- og hjólaferðir fyrir alla aldurshópa.

Hótel

Hotel Tirolerhof í Tux

Hópurinn gistir á glæsilegu 4* fjallahóteli, Tirolerhof, sem er í um 10 mínútna göngufjarlægð frá þorpinu Tux. Hótelið er á fögrum stað í fjallasal með stórkostlegt útsýni til fjallanna. Herbergin eru með baði/sturtu, hárþurrku, baðsloppi, síma, sjónvarpi, öryggishólfi og svölum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir