27. janúar - 3. febrúar 2024 (8 dagar)
Líflegi skíðabærinn Gerlos í austurrísku Ölpunum býður skíðafólki á öllum aldri upp á úrvals aðstæður í frábærri fjallastemningu. Gerlos liggur í 1.300 m hæð og er eitt af fjórum skíðasvæðum í Zillertal Arena. Zillertal skíðasvæðið liggur í allt að 2.500 m hæð yfir sjávarmáli og er því talið einstaklega snjóöruggt svæði. Snjóhvítar skíðabrekkurnar eru um 150 km að heildarlengd og eru af ýmsum erfiðleikastigum sem eflaust eiga eftir að vera skíðafólki til mikillar ánægju. Flogið er með Play til Salzburg og haldið beina leið til Gerlos á hótelið okkar. Gist er á glæsilegu 4* fjölskyldureknu hóteli í austurrískum alpastíl með morgunverðarhlaðborði og fjögurra rétta kvöldverð. Hótelið býður upp á 300 fermetra heilsulind með ýmsum tegundum gufubaða. Í göngufæri frá hótelinu er skíðakláfur sem flytur fólk á öll helstu skíðasvæðin. Fararstjórinn er með hópnum alla ferðina, gistir á sama hóteli og sér um að skipuleggja skíðaferðir fyrir þá sem það vilja.
Ferðin er skipulögð í samvinnu við gönguklúbbinn Vesen og vergang og er opin öllum áhugasömum.