Svigskíðaferð til Gerlos

Líflegi skíðabærinn Gerlos í austurrísku Ölpunum býður skíðafólki á öllum aldri upp á úrvals aðstæður í frábærri fjallastemningu. Gerlos liggur í 1.300 m hæð og er eitt af fjórum skíðasvæðum í Zillertal Arena. Zillertal skíðasvæðið liggur í allt að 2.500 m hæð yfir sjávarmáli og er því talið einstaklega snjóöruggt svæði. Snjóhvítar skíðabrekkurnar eru um 147 km að heildarlengd og eru af ýmsum erfiðleikastigum sem eflaust eiga eftir að vera vönu skíðafólki til mikillar ánægju. Flogið er með Icelandair til München og haldið beina leið til Gerlos á hótelið okkar. Gist er á glæsilegu 4* fjölskyldureknu hóteli í austurrískum alpastíl með morgunverðarhlaðborði og fjögurra rétta kvöldverð. Hótelið býður upp á 350 fermetra heilsulind með ýmsum tegundum gufubaða. Í göngufæri frá hótelinu er skíðakláfur sem flytur fólk á öll helstu skíðasvæðin. Fararstjórinn er með hópnum alla ferðina, gistir á sama hóteli og sér um að skipuleggja skíðaferðir fyrir þá sem það vilja. 

Verð á mann 269.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 34.200 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair til München og flugvallarskattar. 
 • Rútuferð á milli flugvallarins í München og beint á hótelið í Gerlos.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli í Gerlos.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Vel útilátinn kvöldverður ásamt salathlaðborði.
 • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin hefur upp á að bjóða. 
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Skíðapassi (6 daga skíðapassi fyrir fullorðinn ca € 287).
 • Aukagjald fyrir skíði í flug, 4.700 kr. á fluglegg.
 • Hádegisverðir.
 • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Skíðasvæðið

Skíðabærinn Gerlos er í hjarta Zillertal Arena, sem samanstendur af 4 tengdum skíðasvæðum, Zell am Ziller, Gerlos, Königsleiten og Hochkrimml. Skíðabrekkur svæðanna eru samtals um 147 km á öllum erfiðleikastigum og ættu því allir að geta fundið brekkur við sitt hæfi. Skíðasvæðið liggur frá 1.300 m upp í 2.500 m yfir sjávarmáli og er þekkt fyrir snjóöryggi og fjölbreytni. Lengsta skíðabrekkan er um 10 km löng og liggur hún alveg niður í dalinn þar sem hægt er að taka lyftu aftur upp á skíðasvæðið. Á svæðinu eru einnig margar skemmtilegar sleðabrekkur og nokkrir snjóbretta- og „freestyle“garðar. Einnig er upplagt að njóta dásamlegs útsýnis yfir Zillertaler fjallgarðinn úr veitingaskála í 2.200 m hæð í Königsleiten og skíða svo þaðan niður. Fararstjóri ferðarinnar mun aðstoða samferðamenn við að leigja skíði, kaupa skíðapassa og fara í skíðakennslu við hæfi. Fyrir þá sem vilja mun hann einnig skipuleggja skíðaferðir um svæðið, þar sem hægt er að fylgja hópnum hluta úr degi eða allan daginn. Hann mun síðan að sjálfsögðu gera eitthvað skemmtilegt með hópnum. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Gerlos svæðisins.

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 5. febrúar. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 200 km til Gerlos svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki rúmar 3 klst. Á brottfarardegi leggjum við snemma af stað út á flugvöll og síðan er flogið heim kl. 13:05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16:00. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sævar Skaptason

Sævar Skaptason hefur alla tíð verið mikið fyrir útivist. Hann byrjaði að starfa við ferðaþjónustu árið 1981 og var þá skálavörður í skála Ferðafélagsins í Langadal, Þórsmörk, til ársins 1986. Yfir sumartímann árin 1989 og 1990 starfaði hann einnig sem skálavörður í Landmannalaugum. Frá árinu 1998 hefur Sævar verið framkvæmdastjóri Hey Iceland - Bændaferða (áður Ferðaþjónusta bænda).

Hótel

Hotel Tirolerhof í Gerlos

Hotel Tirolerhof er huggulegt 4* alpahótel í austurrískum stíl. Hótelið er með 42 hlýleg herbergi sem öll eru með sturtu/baðkeri, sjónvarpi, öryggishólfi, hárþurrku og síma. Einnig eru þau öll með svölum. Á hótelinu er einnig 350 m² heilsulind með ýmsum tegundum af gufuböðum og hvíldarsvæði þar sem gott er að slaka á og fá sér te eða ávaxtasafa eftir góðan dag í fjöllunum. Einnig er notalegur veitingastaður ásamt bar og sólstofu.

Hótelið er staðsett í bænum Gerlos sem liggur í 1.300 m hæð yfir sjávarmáli.
Stutt ganga er í bæjarkjarnann þar sem finna má verslanir, pósthús og fjölmarga aprés-ski bari. Til að komast að helstu skíðalyftunum á svæðinu má annað hvort taka kláf sem er í göngufæri frá hótelinu eða taka fríu skíðarútuna sem gengur frá hótelinu, einungis 5 mín. akstur.

 
Vefsíða hótelsins

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00