Hjólað við Gardavatn 2 - AUKA BROTTFÖR

Gardavatn eða Lago di Garda á móðurmálinu, hefur lengi verið vinsæll áfangastaður á meðal Íslendinga sem og ferðamanna um allan heim. Við bjóðum nú upp á hjólaferð á þessu fallega svæði, um og við hið sægræna Gardavatn, stærsta stöðuvatn Ítalíu. Það er umvafið ægifögrum fjallgörðum í norðri og Pósléttunni í suðri, loftslagið er milt miðjarðarhafsloftslag og því eru t.a.m. ræktaðar ólífur og sítrónur við austur- og suðurbakkann og vín við norðurbakkann. Þetta er einstakur staður þar sem gestir geta notið stórkostlegrar náttúrufegurðar í bland við bæði hreyfingu og afslöppun. Á hjólunum kynnumst við þessu fallega svæði á þægilegum hraða en hjólað verður í gegnum rómantíska bæi og friðsæl þorp á borð við Malcesine, Isera og Rovereto. Á vegi okkar verða frjósamar vínekrur og falleg ólífutré hvert sem litið er. Hjólum einnig um Ledro dalinn, um græn engi og fáum nasaþefinn af lífinu í fjöllunum, með sínum gömlu hefðum eins og tréiðnaði og fjallalandbúnaði. Komum að náttúruverndarsvæði við vatnið Ampola sem er pínulítið og vel falið stöðuvatn. Gist verður á 4* hóteli í bænum Riva del Garda. 

Verð á mann 318.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 46.900 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
 • Ferðir á milli flugvallar í Mílanó og hótelsins við Gardavatn. 
 • Gisting á 4 stjörnu hóteli í tveggja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelinu.
 • Hjóladagskrá í 5 daga.
 • Akstur og hjólaflutningur þar sem við á. 
 • Bátsferð frá Malcesine til Torbole.
 • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra hjóli 29.700 kr. í 6 daga.
 • Leiga á rafhjóli 41.800 kr. í 6 daga.
 • Leiga á hjólatösku 4.900 kr. í 6 daga.
 • Leiga á hjálm 1.900 kr. í 6 daga.
 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Ferða- og forfallatrygging.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 20. maí. Brottför frá Keflavík kl. 08:30 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:45 að staðartíma. Gera má ráð fyrir að rútuferðin frá flugvellinum á gististað taki um 3 klst. Þann 27. maí ferjar rúta okkur til flugvallarins í Mílanó en þaðan verður flogið kl. 15:45. Lending á Íslandi kl. 18:00 að staðartíma.

Svæðið

Gardavatnið er stærsta stöðuvatn Ítalíu eða 370 km² og liggur í skjóli Alpanna fyrir norðan og Pósléttunnar fyrir sunnan. Norðurbakkinn er umlukinn 2000 metra háum fjöllum, líkt og Monte Baldo fjallgarðinum á meðan við suðurbakkann tekur lágsléttan við. Gardavatnið er vinsæll ferðamannastaður og er norðurhlutinn einkar vinsæll á meðal klifur-, hjólreiða- og göngufólks. Í nágrenni vatnsins er ræktun ýmiskonar, m.a. ólífu-, sítrónu- og vínræktun en á meðal þekktra vínhéraða má nefna Bardolino og Valpolicella.

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 35 - 50 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að æfa sig vel fyrir ferðina, fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.
Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Opna allt

Tillögur að dagleiðum

Bjarni Torfi fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt eftir aðstæðum ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

1. Arco og dalurinn Sarca

Hjólaferð dagsins hefst í Riva del Garda. Hjólað verður um vínekrur og ólífulundi, fram hjá miðaldakastalanum Arco og samnefndum klifurkletti og áfram í gegnum tungllandslagið Marocche. Við vínekruna Vino Santo væri hægt að fá sér hádegishressingu. Hjólum í rólegheitum með fram vatninu Cavedine og til baka á hótelið.

 • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
 • Hækkun: 450 m

2. Tenno vatn & miðaldaþorpin

Einn hápunktur þessar ferðar er tvímælalaust smaragðsgræna vatnið Tenno. Hjólum á hjólastígum og hliðargötum eitthvað upp í móti að vatninu Tenno. Stoppum hér til að taka nokkrar myndir af þessu fallega vatni. Höldum áfram með fram vatninu og í gegnum skóg að fallega miðaldaþorpinu Canale di Tenno. Hægt verður að snæða hádegisverð, dæmigerðan fyrir svæðið, áður en við hjólum til baka eftir þröngum stígum með dásamlegt útsýni út á Gardavatn. Hjólum fram hjá Tenno og Frapporta og áfram niður á við þar til við komum aftur niður í gamla miðbæ Riva.

 • Vegalengd: u.þ.b. 35-40 km 
 • Hækkun: 600 m

3. Ledro dalurinn & Ledro vatnið

Hjólaferð dagsins hefst í Prè di Ledro, við rætur Alpanna, fremst í Ledro dalnum. Hér opnast okkur nýr heimur: engi, skógar og pínulítið, vel falið stöðuvatn svo eitthvað sé nefnt. Við hjólum frá Biacesa, fram hjá Prè, til Molina di Ledro og með fram bökkum Ledro vatnsins til Pieve, ofar í dalnum. Hér ríkja enn gamlar hefðir en bæði tréiðnaður og svokallaður fjallalandbúnaður eru enn við lýði á þessu svæði. Höldum upp smá bratta á nýjum hjólastíg, í gegnum græn engi og að pínulitlu náttúruverndarsvæði vatnsins Ampola. Þar er að finna einstakt vistkerfi í 730 m hæð yfir sjávarmáli, votlendi með einstökum plöntu- og dýrategundum. Snæðum hádegisverð hjá einum af fjallabændum svæðisins. Hjólum síðan niður á við til Prè þar sem rúta bíður okkar og flytur okkur heim á hótel.

 • Vegalengd: u.þ.b. 45-50 km 
 • Hækkun: 600 m

4. Loppio vatnið & bæirnir Isera & Rovereto

Í dag höldum við í norðurátt. Hjólum yfir San Giovanni fjallgarðinn og komum að gróskumiklu vistkerfi þar sem var áður vatnið Loppio en það var þurrkað upp árið 1954 þegar Mori-Torbole göngin voru gerð. Núorðið fyllist það afar sjaldan af vatni eða aðeins í miklum rigningum. Á leið okkar sjáum við líka kastalarústir frá fyrri heimsstyrjöldinni. Áfram höldum við til Isera en bærinn er þekktur fyrir vínþrúguna Marzemino og samnefnt rauðvín. Við hjólum áfram til fallegu borgarinnar Rovereto þar sem við röltum um gullfallegan gamla bæinn áðuren hjólað verður til baka á hótelið.

 • Vegalengd: u.þ.b. 55 km 
 • Hækkun: 150 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

5. Malcesine, við rætur Monte Baldo

Við hefjum daginn í dag á stuttri rútuferð með fram strandlengjunni til suðurs, til Malcesine. Stígum á fákinn við fræga kastalann Castello Scaligero og hjólum í hlíðum fjallsins Monte Baldo, um ólífulundi og með dásamlegt útsýni yfir vatnið. Ferðin leiðir okkur inn í dalinn Val di Sogno eða dal draumsins, fallegs og einstaklega hrífandi dals, sunnan við Malcesine. Síðasta spölurinn leiðir okkur síðan með fram vatninu og til baka til gamla bæjar Malcesine. Fram að heimferð til baka til Riva del Garda gefst tími til að spássera í þessum fallega miðaldabæ, virða fyrir sér kastalann eða fá sér hressingu við sjávarsíðuna áður en við siglum til baka heim á hótel.

 • Vegalengd: u.þ.b. 35 km 
 • Hækkun: 400 m 

Frídagur

Þennan dag er tilvalið að láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér og njóta þess sem hótelið hefur upp á að bjóða, slappa af í heilsulindinni eða kynna sér nágrenni Riva del Garda á eigin vegum. Hér liggur ákveðinn Tírólablær í loftinu en borgin varð hluti austurríska keisaradæmisins árið 1815. Áhrifa þess gætir í víða og bjóða veitingastaðir t.a.m. upp á ljúffenga loftþurrkaða skinku, hið svokallaða Carne Salada, saltað nautakjöt, og eins má finna Apfelstrudel og Vínarsnitsel á matseðlum veitingastaðanna. Tilvalið væri að skoða MAG safnið sem er í gömlum kastala eða barokkkirkjuna Santa Maria Inviolata.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00