Hjólað við Gardavatn 2 - AUKA BROTTFÖR
20. - 27. maí 2023 (8 dagar)
Gardavatn eða Lago di Garda á móðurmálinu, hefur lengi verið vinsæll áfangastaður á meðal Íslendinga sem og ferðamanna um allan heim. Við bjóðum nú upp á hjólaferð á þessu fallega svæði, um og við hið sægræna Gardavatn, stærsta stöðuvatn Ítalíu. Það er umvafið ægifögrum fjallgörðum í norðri og Pósléttunni í suðri, loftslagið er milt miðjarðarhafsloftslag og því eru t.a.m. ræktaðar ólífur og sítrónur við austur- og suðurbakkann og vín við norðurbakkann. Þetta er einstakur staður þar sem gestir geta notið stórkostlegrar náttúrufegurðar í bland við bæði hreyfingu og afslöppun. Á hjólunum kynnumst við þessu fallega svæði á þægilegum hraða en hjólað verður í gegnum rómantíska bæi og friðsæl þorp á borð við Malcesine, Isera og Rovereto. Á vegi okkar verða frjósamar vínekrur og falleg ólífutré hvert sem litið er. Hjólum einnig um Ledro dalinn, um græn engi og fáum nasaþefinn af lífinu í fjöllunum, með sínum gömlu hefðum eins og tréiðnaði og fjallalandbúnaði. Komum að náttúruverndarsvæði við vatnið Ampola sem er pínulítið og vel falið stöðuvatn. Gist verður á 4* hóteli í bænum Riva del Garda.