Útivist í Ramsau

Landslagið í bænum Ramsau við Dachstein er einstaklega fallegt. Bærinn liggur á Ramsauer hásléttunni í 1000 –1300 m hæð og tignarlegir alpatindar gnæfa yfir til suðurs. Í ferðinni verður boðið upp á fjölbreyttar gönguleiðir sem liggja allar um stórkostlegt landslag, fjöll og dali. Sem dæmi má nefna gönguferðir til fyrrum námubæjarins Schladming og um fjallaskarð yfir til Filzmoos. Einnig göngum við Rittisberg hringinn og komum við á 400 ára gamla bóndabýlinu Halseralm, sem þekkt er fyrir flamberaðar keisarapönnukökur. Dachstein fjöllin bíða okkar og farið verður upp á Dachstein jökulinn, þar sem við skoðum íshelli, lítum á ótrúlegar höggmyndir og njótum þaðan stórkostlegs útsýnis. Einn dag ætlum við líka að skella okkur í hjólaferð um nærliggjandi svæði. Gist verður á ekta austurrísku 4* alpahóteli sem býr yfir glæsilegri heilsulind. Í þessari ferð fer saman útivist, hreyfing og skemmtilegur félagsskapur í sannkölluðu ævintýralandslagi. 

Verð á mann í tvíbýli 249.000 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 19.900 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Ramsau.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð með heilsuhorni.
 • Vel útilátinn 4 rétta kvöldverður með salatbar. 
 • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin hefur upp á að bjóða.
 • Frítt internet á hótelinu.
 • Göngudagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Svæðið

Ramsau er snotur 2.800 íbúa bær sem liggur við rætur Dachstein jökulsins. Bærinn stendur á bjartri og sólríkri hásléttu sem er eins og risastór verönd hátt í fjöllunum.
Þetta svæði er mjög snjóöruggt á veturna og er því vinsælt skíðasvæði. Á sumrin býður svæðið einnig upp á einstaka náttúrufegurð og er því afar vinsælt til útivistar. Á Dachstein jöklinum er útsýnispallur með veitingaskála en þangað er hægt að fara upp með kláfi og njóta stórfenglegs útsýnis til allra átta; það sést til Slóveníu til suðurs og Tékklands til norðurs. Fjölbreyttar gönguleiðir og einstakt fjallaútsýni gerir Ramsau við Dachstein að sérlega skemmtilegum stað sem eftirsóknarvert er að heimsækja.

Gönguferðirnar

Farið verður í skipulagðar gönguferðir en teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta þátttakendur valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða taka það rólega á hótelinu og njóta þess sem nágrennið hefur upp á að bjóða. Suma daga er mögulegt að taka þurfi strætó eða fjallakláf frá göngustaðnum.

Tillögur að dagleiðum

Hér á eftir eru tekin dæmi um 6 mismunandi dagleiðir sem eru líklegar til að vera á dagskránni þessa viku. 

Opna allt

Dagleið 1 | Dachstein jökulinn

Okkar bíður spennandi dagur þegar farið verður upp á Dachsteinfjöllin, sem er vinsælasti ferðamannastaðurinn í Steiermark, enda á heimsminjaskrá UNESCO. Dachsteiner kláfurinn ferjar okkur upp í 2.700 m hæð, þaðan sem fjallasýnin er mögnuð. Fimm útsýnispallar standa til boða og þeirra á meðal er einn með glergólfi. Þeir sem þora að stíga á þann pall munu sjá hvernig klettaveggur Hunerkogelfjallsins er 250 m lóðrétt niður beint undir fótum hans. Við munum einnig virða fyrir okkur víðáttumikinn íshelli en þar hafa, auk náttúrulegra ísmyndana, verið gerðir alls kyns skúlptúrar. Eftir að hafa skoðað okkur um er stefnt á að ganga yfir jökulinn og taka rútu til baka á hótelið.

Dagleið 2 | Rittisberg hringurinn

Gangan í dag er þægileg en genginn verður Rittisberg hringurinn. Við göngum beint frá hótelinu yfir Tannenweg í átt að Rittisberg þar sem við tekur breiður göngustígur sem leiðir okkur meðal annars fram hjá fögrum engjum. Við göngum að 400 ára gamla bóndabýlinu, Halseralm, sem þekkt er fyrir flamberaðar keisarapönnukökur (Kaiserschmarrn) sem mætti kalla þjóðareftirrétt Austurríkis. Við Sonnenalm fáum við notið útsýnisins yfir fjallgarðinn Tauern og höldum því næst niður í móti að Ochsenalm og eftir skógarslóða fram hjá fallegri fiskatjörn aftur að Tannenweg og á hótelið.

Dagleið 3 | Schladming

Í dag göngum við þægilega gönguleið til bæjarins Schladming var eitt sinn námubær en er í dag vinsæll ferðamannastaður. Bærinn er m.a. þekktur fyrir stórt vetraríþróttasvæði og árið 2013 fór þar fram heimsmeistaramótið í alpagreinum. En bærinn er ekki síður þekktur fyrir hina 130 ára gömlu Steiner1888 ullarfabrikku, sem við ætlum einmitt að heimsækja eftir góða göngu.

Dagleið 4 | Gengið gegnum fjallaskarð að Filzmoos

Þennan dag verður gengin leið um fjallskarð að bænum Filzmoos þar sem við njótum leiðsagnar með góðum staðarleiðsögumanni. Bærinn Filzmos liggur rúmlega 1000 metra yfir sjávarmáli og er afar vinsæll dvalarstaður þeirra sem stunda útivist. Eftir gott stop í Filzmoos tökum við strætó til baka.

Dagleið 5 | Kulmberg

Við byrjum daginn á léttum hraðhring umhverfis fjallið Kulmberg. Á leið okkar njótum við frábærs útsýnis yfir bæinn Ramsau og nærumhverfi hans. Eftir hádegi verður farið í bæjarferð til Schladming þar sem við njótum saman þess sem bærinn hefur upp á að bjóða.

Dagleið 6 | Hjóladagur

Við ætlum að upplifa svæðið í kringum okkur aðeins á annan hátt í dag. Ramsau býður upp á fjölmargar heillandi hjólaleiðir í og við bæinn og því skellum við okkur á hjólahnakkinn og njótum fallegrar náttúrunnar.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Marelsdóttir

Íris er sjúkraþjálfari og leiðsögumaður og starfar sem yfirsjúkraþjálfari hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur verið gönguskíðaleiðsögumaður hjá Bændaferðum síðan 2005 og farið fjölmargar gönguskíðaferðir til Ramsau, Toblach og til Seefeld. Íris lauk leiðsögumannsprófi frá MK árið 2015 og hennar aðaláhugamál er útivist af öllu tagi og gönguleiðsögn að sumri sem að vetri. Hún fékk gott veganesti inn í fjallalífið sem björgunarsveitarmaður í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. 

Hótel

Hotel Matschner í gönguferð í Ramsau

Gist verður allar næturnar á fjölskyldu- og gönguhótelinu Matschner sem er hlýlegt fjölskyldurekið 4* hótel í bænum Ramsau. Á hótelinu eru hugguleg herbergi með baði/sturtu, sjónvarpi, síma, útvarpi og öryggishólfi. Öll herbergin eru reyklaus og með svölum. Þráðlaust net er á öllu hótelinu. Á hótelinu er bar og verönd þar sem upplagt er að hittast og eiga notalega stund. Gestir hafa aðgang að stórri heilsulind sem er tengd hótelinu með undirgöngum. Þar er hægt að slaka á eftir góðan göngudag. Í heilsulindinni er m.a. að finna líkamræktarstöð, innisundlaug með ýmsum nuddlaugum og 600m2 sánasvæði með ýmis konar gufuböðum. Enn fremur er hægt að bóka ýmsar tegundir af nuddi gegn gjaldi. 

Vefsíða hótelsins

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir