Vesen í Chamonix

Hátt í Ölpunum er hið heimsþekkta skíða- og útivistarsvæði Chamonix, við tindana Aiguilles Rouges og Aiguille du Midi. Svæðið er eitt elsta skíðasvæði Frakklands en þar voru fyrstu vetrarólympíuleikarnir haldnir árið 1924. Þó svæðið laði til sín fjölda skíðaiðkenda að vetri til er það líka paradís útivistarmannsins á sumrin en hér er hægt að finna fjölda gönguleiða við allra hæfi. Mont Blanc, hæsta fjall Evrópu er stöðugt í augsýn, ásamt fjölda tignarlegustu tinda Alpanna. Í ferðinni verður dvalið á góðu hóteli og gengnar verða dagleiðir skipulagðar af fararstjóra ferðarinnar í samráði við innlendan leiðsögumann. Í ferðinni fer saman dásamleg útivist og afslöppun í skemmtilegum félagsskap.

Verð á mann í tvíbýli 279.900 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 75.900 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir milli flugvallarins í Genf og hótelsins í Chamonix.
 • Gisting í 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Fjórir þriggja rétta kvöldverðir á hótelinu.
 • Aðgangur að sundlaug og heilsulind hótelsins.
 • Göngudagskrá.
 • Innlend leiðsögn í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Leigubílaakstur.
 • Hádegisverðir.
 • Þrír kvöldverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Jökulganga með búnaði ásamt aðgangi að kláfi € 210 (lágmark 6 manns).
 • Fjallahjóla- eða raf-fjallahjólaferð € 76/129 (lágmark 6 manns).

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. tvisvar í viku síðustu sex vikurnar fyrir ferð eða gera eitthvað sambærilegt. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 75 mín. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Genf þann 10. september. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Frá flugvellinum í Genf er rúmlega klukkustundar akstur til Chamonix. Á heimleið 17. september leggjum við af stað út á flugvöll eftir morgunverð og flogið verður heim kl. 14:00 frá Genf. Lendum í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Tillögur að dagleiðum

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fimm göngudaga en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og aðstæðum. Þá er einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu og notið aðstöðunnar.

1. Aiguille du Midi – Mer de Glace

Þessi dagur er blanda af skoðunarferð og gönguferð. Við byrjum á að fara í spennandi ferð með kláfi á topp Aiguille du Midi í 3842 m hæð. Nafnið merkir hádegisnálin því sólin er beint yfir tindinum á hádegi þegar horft er frá Chamonix. Það tekur 20 mín. að komast á toppinn með kláfnum. Á leiðinni áttar maður sig á hversu mikið afrek það hefur verið að ráðast í þessa mannvirkjagerð fyrir meira en öld en það þurfti nokkra áfanga til og toppnum var loks náð árið 1955. Héðan er stórkostlegt útsýni til allra átta og við njótum þess. Þeir huguðustu geta stigið út á glersvalir og horft í hyldýpið niður fyrir fætur sér. Síðan tökum við kláfinn niður í 1900 m hæð og förum út hjá Montenvers Mer de Glace. Gönguferð dagsins verður hér í dalnum sem kenndur er við skriðjökulinn. Gengnir verða u.þ.b. 9 km og áð til að borða nesti á fögrum stað. Í jöklinum er mjög áhugaverður íshellir sem laðar ferðamenn víða að og ekki er lestin sem flytur okkur til baka síður áhugaverð en þetta er tannhjólalest sem klífur hlíðar fjallsins á 20 mínútum.

 • Kostnaður við lyftur/kláfa: ca € 69
 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

2. Alpavötn – Lake Noir & Lake Cornu

Farið verður með Plan Praz kláfnum og stólalyftu upp á topp Index í 2525 m hæð. Þaðan er gengið að fjallavötnunum Noir og Cornu. Það er ótrúlegt að undurfögur stöðuvötn finnist í þessum fjallasölum í 2000 - 2500 m hæð. Þegar veður er stillt og sólin skín þá er dásamlegt að sjá fjallatinda speglast í vatnsfletinum. Þarna er einstakt dýralíf og því er ekki útilokað að við sjáum alpagemsur, fjallageitur eða múrmeldýr.

 • Kostnaður við lyftur/kláfa: ca € 28

3. Selin í Loriaz

Hópurinn verður fluttur til þorpsins Vallorcine þar sem gangan hefst. Gengið verður á gróðursælu beitilandi í áttina til Loriaz. Allt frá 13. öld nýttu bændur beitiland þetta og ráku búpening hingað á sumrin. Selin voru öll á einum stað en þar höfðust bændur við og gerðu osta. Sjá má leifar af upprunalegu byggingunum en núverandi sel voru byggð snemma á 20. öld. Tímarnir breytast og mennirnir með, búskapur dróst saman og smám saman lagðist þessi aldagamli siður af og við tók ferðamennska. Þetta er indæll staður og útsýnið yfir á Mont Blanc fjallgarðinn er kynngimagnað. Við göngum aðra leið til baka, komum niður að Bérard ánni og fylgjum henni til baka til Vallorcine. Þaðan er hópnum ekið á hótel.

 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt
 • Hádegisverður í seli: ca € 35

4. L´Aiguillette des Houches

Hópurinn verður fluttur að rótum fjallsins og gangan hefst upp til l‘Aiguillette des Houches í 2285 m hæð! Gengið verður á hlykkjóttum slóðum gegnum skóginn uns komið er upp yfir skógarlínuna. Við tekur grýttur slóði með tröppum á köflum. Af hlíðum og toppi fjallsins er útsýnið hreint ótrúlegt yfir Chamonix dalinn og maður fær það á tilfinninguna að nánast sé hægt að snerta Mont Blanc.

 • Göngutími: ca 5 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

5. L‘Aiguillette des Posettes

Í dag verður hópnum ekið frá hótelinu stutta leið að austurenda Chamonix dalsins. Leiðin á L‘Aiguillette des Posettes er ein af klassísku gönguleiðunum á þessu svæði og á göngunni má njóta mjög fallegs útsýnis yfir Chamonix og Vallorcine dalina. Stígurinn, sem er vel merktur, byrjar með þægilegri hækkun í gegnum skóglendi en verður brattari og útsýnið víðsýnna þegar lengra er haldið. Gengið er framhjá skíðalyftunum í Charamillon og Les Autannes og eftir það er útsýnið algjörlega óhindrað á Mont Blanc og Aiguilles Rouges. Á toppnum er svo stórkostlegt 360° útsýni yfir bæði Sviss og Frakkland

 • Göngutími: ca 5 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

Frídagur

Frídaginn er tilvalið að kynna sér fleiri útivistarmöguleika á svæðinu eins og t.d. fjallahjólaferð eða í jöklagöngu á Col du Géant.

 • Þriggja klukkustunda fjallahjóla- eða raf-fjallahjólaferð með leiðsögumanni.
  Kostnaður: € 76 fyrir fjallahjól & € 129 fyrir raf-fjallahjól
 • Dagsferð í jöklagöngu á Col du Géant með leiðsögumanni, öllum nauðsynlegum búnaði og aðgangi að kláfi.
  Kostnaður: € 210

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Einar Skúlason

Einar Skúlason er fæddur í Kaupmannahöfn 1971. Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.

Hann hefur unnið við markaðsstörf á nokkrum stöðum, var framkvæmdastjóri Alþjóðahússins og kynningarstjóri Fréttablaðsins en hefur síðustu ár starfrækt gönguklúbbinn Vesen og vergang og gönguappið Wapp-Walking app. Í tengslum við gönguklúbbinn hefur Einar verið leiðsögumaður og fararstjóri í hundruðum ferða innanlands og erlendis.

Einar skrifaði jafnframt tvær bækur um gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur.

Hótel

Hotel Le Refuge Des Aiglons

Hópurinn gistir á útivistarhótelinu Hotel Le Refuge Des Aiglons um 10 mín göngu frá miðbæ Chamonix. Hótelið er á fögrum stað í fjallasal með stórkostlegt útsýni til fjallanna. Herbergin eru mjög nútímaleg, innréttuð með viðar- og steináferð, sem vísar í landslagið á svæðinu. Öll herbergin eru með baði/sturtu, hárþurrku, flatskjá með gervihnattastöðvum og öryggishólfi. Ókeypis þráðlaust net er á hótelinu og gestir fá baðslopp og inniskó til afnota á meðan á dvölinni stendur. Á hótelinu er heilsulind sem býður upp á hitaða útilaug, nuddpott, eimbað og líkamsræktaraðstöðu. Boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Kvöldverðurinn er þriggja rétta og morgunverðurinn er hlaðborð.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir