Útivist í Mikladal

Göngu- og hjólafólk er hjartanlega velkomið til Großarl eða Mikladals eins og væri hægt að kalla hann á íslensku! Svæðið, sem býður upp á fjölmargar mismunandi göngu- og hjólaleiðir, býr yfir rúmlega 400 km af merktum gönguleiðum. Í þessu fallega umhverfi fáum við notið hins áhrifamikla sjónarsviðs háfjallasvæðisins Hohe Tauern á dagleiðum okkar. Við munum ganga vinsælar og þægilegar leiðir um grösugar og skógi vaxnar hlíðar og fáum okkur hressingu í seljum á leiðinni, m.a. í Karseggalm selinu sem er um 400 ára gamalt og er eitt það elsta í Ölpunum. Í dalnum er líka að finna fjallavötn þar sem kannski væri hægt að kæla göngufæturna. Einn dag í ferðinni förum við í hjólatúr þar sem við njótum frábærs útsýnis yfir allan Großarl dalinn sem spannar um 15 km. Gist verður á 4* hóteli í Großarl en hótelið býr yfir heilsulind þar sem verður hægt að endurnæra sig eftir góða hreyfidaga á þessu dásamlega svæði. 

Verð á mann í tvíbýli 199.900 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 16.600 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir milli flugvallarins í München og hótelsins í Großarl.
 • Gisting í 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð.
 • Fimm rétta kvöldverður ásamt salat hlaðborði.
 • Afnot af baðslopp og inniskóm á meðan á dvöl stendur.
 • Aðgangur að sundlaug og heilsulind hótelsins.
 • Leiga á hjóli og hjálmi í einn dag.
 • Göngudagskrá.
 • Innlend leiðsögn í göngu- og hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Leiga á rafhjóli í einn dag ca 5.200 kr.
 • Leigubílaakstur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Útivist og undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 10. júní. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München til Großarl eru um 245 km og má því reikna með því að ferðin taki rúmar 3 klst. Á heimleið 17. júní leggjum við snemma af stað út á flugvöll og flogið verður heim kl. 14:05 frá München. Lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Tillögur að dagleiðum

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og aðstæðum. Þá er einn hjóladagur og einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu og njóta aðstöðunnar. 

Dagleið 1 | Unterwandalm - Karseggalm – Breitenebenalm

Þessi vinsæla gönguleið hefst með ferð með göngurútu yfir Sonneggweg að Sonnegg brúnni. Komum fyrst í selið Unterwandalm þar sem oft heyrist harmonikkuspil og söngur. Höldum áfram að Karseggalm selinu sem er um 400 ára gamalt en þar er hægt að gæða sér á svokölluðum Knetkäse, osti sem er reyktur yfir opnum eldi, en þessi réttur fæst orðið hvergi nema í þessu seli! Höldum áfram að Breitenebenalm, seli þekktu fyrir sætmeti sem líkist einum af þjóðarréttum Austurríkismanna, Apfelstrudel.

 • Lengd: 10 km
 • Göngutími: 3:45 klst.
 • Hækkun: 596 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs

Dagleið 2 | Mooslehenalm – Igltalalm – Viehhausalm

Förum með göngurútu að upphafsstað gönguleiðar dagsins, Holzlehen. Þaðan verður gengið að Igltalalm selinu, öðru nafni Niggeltalalm, í 1.507 m hæð. Síðan genginn smá spölur til baka og annan afleggjara upp í Viehhausalm sem er í 1.640 m hæð. Á leiðinni til baka göngum við í Mooslehenalm selið sem stendur í 1.449 m hæð. Svæðið er yndislega fallegt og loft fjallanna fyllir öll vit. Hér eru skógar og blómleg engi en hér vaxa bæði brenni- og holtasóleyjar, mörtulykill og lambagras, svo eitthvað sé nefnt en flóran er að mörgu leyti lík flórunni okkar á Íslandi.

 • Lengd: 6 km
 • Göngutími: ca 2,5 klst.
 • Hækkun: 350 m
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

Dagleið 3 | Loosbühelalm – Filzmoosalm - Achtalm

Þessi frábæra útsýnisferð hefst með göngurútunni að Loosbühelalm selinu. Þaðan höldum við upp í áttina að Filzmoossattel. Fyrir neðan Filzmoossattel tökum við afleggjara í áttina að Filzmoosalm selinu en svæðið þar á milli er ríkt af lindifuru og stendur hún beggja vegna leiðarinnar. Við höldum svo áfram yfir Achtalm og aftur til Loosbühelalm sem hefur upp á að bjóða ýmislegt heimatilbúið góðgæti og má þar sérstaklega nefna geitaost og geitamjólk. Þau framleiða líka ýmsar aðrar ostategundir, beikon, pylsur, brauð, smjör og snafs. Við endum því á sama stað og við byrjuðum og tökum svo rútu aftur til baka.

 • Lengd: 7,9 km
 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Hækkun: 541 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs

Dagleið 4 | Hirschgrubenalm

Gönguferð dagsins er þægileg á fallegum slóða frá Hüttschlag að Hirschgrubenalm selinu sem er í 1.564 m hæð. Líkt og í öðrum seljum er hér hægt að gæða sér á framleiðslu heimamanna.

 • Lengd 6,7 km
 • Göngutími 2 klst.
 • Hækkun: 355 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs

Dagleið 5 | Hjóladagur í Großarl dal

Við setjumst í hnakkinn í dag og hjólum þægilega og fallega leið meðfram Großarl ánni, um grösug engi, fram hjá litlum kapellum inn Großarl dalinn. Við endum við Ötzlesee vatnið þar sem hægt er að stinga tánum í ferskt vatnið og fá sér hressingu í Hüttschlager Bauernladenstüberl selinu.

 • Lengd: 39,8 km
 • Hjólatími: 6,5 klst.
 • Hækkun: 340 m
 • Erfiðleikastig: létt

Frídagur

Á frídeginum okkar er hægt að nýta aðstöðuna á hótelinu eða kanna umhverfið á eigin vegum, setjast á kaffihús og fylgjast með mannlífinu í þessum yndislega litla bæ, Großarl. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður Vernharðsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar sem yfirljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans. Hún var á árum áður félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi og var um tíma yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fyrstu hjálp.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hlaup, sund, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.

Hótel

Hotel Alte Post

Hópurinn gistir á 4* hótelinu Hotel Alte Post, staðsettu í hjarta Großarl. Hótelið býður upp á falleg og þægileg herbergi með baði/sturtu , búin gervihnattasjónvarpi, hárþurrku, öryggishólfi, síma, útvarpi og þráðlausu interneti. Á hótelinu er heilsulind þar sem gestir geta látið líða úr sér og er m.a. hægt að velja á milli lífrænnar furusánu, finnskrar sánu eða gufubaðs. Einnig er hægt að bregða sér í keilu í keilusal hótelsins. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir