Þriggja landa útivist

Hátt í Ölpunum liggur huggulegi bærinn Nauders með frábærri aðstöðu til útivistar af öllu tagi. Bærinn stendur í dal á landamærum Austurríkis, Ítalíu og Sviss og á sér aldagamla sögu. Á svæðinu eru 300 km af merktum gönguleiðum fyrir öll erfiðleikastig, í fögru umhverfi með stórkostlegt útsýni. Gist verður 7 nætur á ekta austurrísku 4* alpahóteli með dásamlegri heilsulind. Hótelið er mitt í þorpinu svo stutt er í verslanir og aðra þjónustu. Boðið verður upp á fjórar meðalerfiðar gönguferðir um öll þrjú löndin og einn daginn er hjólaferð á dagskrá. Allir hreyfidagar hefjast á léttum morgunæfingum og er áhersla lögð á góðar teygjur og slökun í heilsulindinni í lok dags. Við eigum einn frjálsan dag í ferðinni, en þá er tilvalið að reyna aðra afþreyingu á svæðinu, eins og klettaklifur, golf, Segway, nú eða bregða sér í sundlaugargarðinn. Í þessari ferð fer saman útivist, hreyfing, afslöppun, góður matur og skemmtilegur félagsskapur í sannkölluðu ævintýralandslagi!

Verð á mann í tvíbýli 169.600 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 26.900 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir milli flugvallarins í München og hótelsins í Nauders.
 • Gisting í 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð.
 • Afnot af baðslopp á meðan á dvöl stendur.
 • Kvöldverður með súpu og salatbar, auk þriggja rétta valmatseðils (fastur matseðill á komudegi).
 • Aðgangur að sundlaug og heilsulind hótelsins.
 • Frítt Nauders sumarkort sem veitir frían aðgang að ýmsum samgöngum, söfnum, sundlaugargarði og fleira.
 • Leiga á hjóli og hjálmi í einn dag.
 • Göngudagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Leigubílaakstur.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.
 • Internet á hóteli.
 • Klifurgarður í 2,5 tíma ca. € 25.
 • Segway hjólaferð í 2 tíma ca. € 40.
 • Tírólakvöld ca. € 10.

Svæðið Nauders

Nauders liggur í dal hátt í Alpafjöllum Austurríkis, aðeins steinsnar frá landamærum Sviss og Ítalíu. Á ferð okkar um fjöllin munum við fara yfir landamærin víðast hvar, sem þykir sjálfsagt á þessum slóðum. Í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar notfærðu stríðsglæpamenn frá Þýskalandi sér það grimmt og flúðu margir hér í gegn. Saga bæjarins nær aftur til ársins 50 en þá lögðu Rómverjar fyrst veg hér yfir Reschen skarðið. Í bænum búa nú um 1.500 íbúar og er hann enn umlukinn gömlum virkisveggjum sem skapa einstaka stemningu. Hér er að finna Neuderberg kastalann frá árinu 1200, sem hýsir í dag safn og veitingastað. Einnig er fjöldi verslana og öldurhúsa í bænum. Í nágrenninu var þorpi sökkt í Reschen vatnið, það eina sem stendur upp úr vatninu er kirkjuturninn, sem þykir merkileg sjón. Á veturna er þetta einn besti skíðastaður sem um getur, en allt árið er svæðið kjörið til útivistar. Í nánasta umhverfi eru 300 km af merktum gönguleiðum fyrir öll erfiðleikastig.

Útivist og undirbúningur

Gönguleiðir svæðisins hafa löngum verið vinsælar af ferðamönnum því umhverfið er einstaklega fallegt. Stórkostleg fjallasýn, barrskógar, blómaengi og fjallasel verða á vegi okkar á göngunum sem verða skipulagðar eftir veðri, aðstæðum og áhuga fólks hvern dag. Við hefjum daginn á því að koma okkur á göngusvæðið, oft með kláfi eða í rútu og munum því ganga víða í þremur löndum og upplifa margt. Fjóra daga göngum við um fjallasali, en einn dag þeysum við um á fjallahjólum og upplifum svæðið á nýjan máta. Við höfum einn frjálsan dag, þar sem færi gefst á að fá kennslu í fjallaklifri, fara í ferð með Segway, nú eða jafnvel leita að gulli. Alltaf er í boði að taka sér frídag og njóta þess sem heilsulind hótelsins hefur upp á að bjóða eða kanna umhverfið í rólegheitum.


Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis hjóla- og gönguformi, en besti undirbúningurinn fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er að ganga upp að Steini í Esjunni einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Sé undirbúningurinn góður og nýttur sem hvatning í hreyfingu áður en farið er í ferðina, bæði að ganga á fjöll sem og hjóla mun ferðin verða leikur einn!

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 3. september. Brottför frá Keflavík kl. 7:20, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 240 km til Nauders svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki rúmlega 3 klst. Á heimleið 10. september leggjum við snemma af stað út á flugvöll og flogið verður heim kl. 14:05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16:00 að staðartíma

Tillaga að dagleiðum 4. - 9. september

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fimm göngudaga og einn hjóladag, en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og aðstæðum. Að auki er einn frídagur er í ferðinni, en auðvitað geta þáttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu og njóta aðstöðunnar.

Dagleið 1 | Sellesköfpen

Við göngum yfir tún og engi í skógarjaðri Nauders og höldum svo upp í gegnum lerkiskóga á fjallið Sellesköpfen. Frá toppi fjallsins er útsýni í djúpu gjárnar Finstermünz og Hochfinstermünz. Við gerum hádegishlé hjá rústum Zettler sels, en þar í nágrenninu má finna stríðsminjar frá fyrri heimstyrjöldinni. Á leið okkar til baka njótum við útsýnis frá Schöpfwarte og Innblick.

 • Göngutími: ca 4,5 klst
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

Dagleið 2 | Gengið til Weisskugelhütte í Suður-Tíról á Ítalíu

Ekið verður yfir til Ítalíu og við hefjum gönguna í hliðardal Etschtal dalsins. Þar göngum við yfir háslettuna að Melager seli. Leiðin liggur meðfram jökulröndinni að fjallastöðinni Weisskugelhütte, en þaðan er stórkostleg sýn yfir jökulinn. Eftir hádegishlé göngum við aftur til baka og tökum leigubíl aftur á hótelið. Kostnaður við akstur er ca. € 18 á mann þennan dag.

 • Ferðalengd með akstri ca: 8 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

Dagleið 3 | Gengið í Uina gili (Sviss og yfir til Ítalíu)

Leið dagsins liggur til Suren í Sviss og þar hefst ævintýraleg ganga í Uina gili í einstöku landslagi. Þegar komið er að selinu Uina Dadaint liggur stígurinn meðal annars um einstígi hoggið í klettavegginn. Við njótum kyrrðarinnar í Sesvennaseli og göngum svo að Schlinig, en þaðan er okkur ekið aftur til Nauders á hótelið. Kostnaður við akstur er ca. € 18 á mann þennan dag.

 • Ferðalengd með akstri ca: 9 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

Dagleið 4 | Fjallganga á Mataunkopf í Nauders og Suður Tíról

Í dag förum við upp á fjall með kláfinum Bergkastelseilbahn, sem kostar um € 11 á mann. Við hefjum gönguna yfir grýtta slóð upp að fjallavötnunum Goldseen sem eru vatnsforðabúr Nauders. Eftir nokkuð bratta göngu komum við á tindinn Mataunkopf. Hér hvílum við um stund en höldum svo áfram eftir Saleztal dalnum að fjallastöðinni Bergkastel, þaðan sem við förum aftur niður með kláf.

 • Ferðalengd með kláfferð: ca 8 klst.
 • Erfiðleikastig: erfitt

Dagleið 5 | Hjólaferð Nauders – Suður-Tíról

Í dag förum við örlítið hraðar yfir en undanfarna daga, ætlunin er að skella okkur í nokkuð létta hjólaferð. Við hjólum nokkurn veginn á jafnsléttu framhjá Naudersberghöll í suðurátt á hliðargötum Reschensee vatns, þar sem kirkjuturninn einn stendur upp úr af þorpinu sem sökkt var í vatninu. Við komum að fyrrum landamærastöð Austurríkis og Ítalíu og hjólum svo eftir Vinschgauer hjólastígnum að ítölsku vötnunum Reschensee og Haidersee.

 • Tímalengd hjólaferðar: ca. 4,5 klst.
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfitt

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Steinunn H. Hannesdóttir

Steinunn H. Hannesdóttir er M.Sc. íþróttafræðingur að mennt. Hún kenndi íþróttir í skólum í nokkur ár en síðan var áherslan lögð á almenningsíþróttir, m.a. á líkamsræktarstöðvum og hjá öldruðum. Steinunn sá einnig um hlaupaþjálfun hjá Trimmklúbbi Seltjarnarness í 14 ár. Steinunn hefur starfað við heilsuþjálfun fólks í endurhæfingu á Reykjalundi síðan 2010.

Hótel

Hotel Post

Hópurinn gistir í 3* sérbyggingu við hið 4* heilsuhótelsins Hotel Post. Hotelið er mitt í Nauders, svo stutt er í verslanir og kaffihús. Dásamlegt útsýni er frá hótelinu á fjallstindana allt um kring. Öll herbergin eru hlýlega innréttuð í alpastíl og eru með svölum eða verönd. Herbergin eru með sturtu/baði, nettengingu, kapalsjónvarpi, útvarpi og síma.  Í aðalbyggingunni í einungis 30 m fjarlægð er dásamlegur veitingastaður og frábær heilsulind með sundlaug, ýmsum tegundum gufubaða og innrauðum ljósaklefa. Gestir fá baðslopp til afnota á meðan á dvölinni stendur. Í heilsulindinni er boðið upp á snyrtimeðferðir og nudd gegn gjaldi. Á hótelinu er ennfremur aðstaða fyrir billjard og borðtennis. Allar máltíðir eru bornar fram í aðalbyggingunni, bar er í arinstofunni og svo er stór sólarverönd.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir