19. - 26. október 2023 (8 dagar)
Í þessari kvennagönguferð ætlum við að njóta þess að dvelja á Tenerife þar sem við upplifum fjölbreyttar gönguleiðir í notalegri sólinni. Tenerife er stærst Kanaríeyjanna og jafnframt fjölmennasta eyja Spánar með tæplega 900.000 íbúa. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyrir þessi eldfjallaeyja Afríku enda liggur hún aðeins 300 km frá Marokkó. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir eyjuna ákjósanlegan áfangastað fyrir bæði göngugarpa sem og afslappaða sóldýrkendur. Við göngum stórbrotna leið um Masca gljúfrið sem hefst við friðsæla Masca þorpið á norðvestur hluta eyjunnar og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Atlantshafið. Förum í þægilega göngu upp á Montaña Cheyofita, skellum okkur í kayak siglingu og heimsækjum áhugaverðan vínframleiðanda ásamt því að skoða borgina La Laguna en elsti hluti miðbæjar þessarar gömlu höfuðborgar Kanaríeyja er á heimsminjaskrá UNESCO. Við ætlum að sjálfsögðu að ganga á eldfjallið Pico del Teide sem er þriðja hæsta eyjaeldfjall í heimi og bíður upp á mikilfenglegt gljúfralandslag og tilkomumikið sjónarspil lita og forma. Það er engu líkt að fá sumarauka á þessum tíma árs og kynnast um leið nýjum hliðum þessarar fallegu eyju.