Kvennaganga á Tenerife

Í þessari kvennagönguferð ætlum við að njóta þess að dvelja á Tenerife þar sem við upplifum fjölbreyttar gönguleiðir í notalegri sólinni. Tenerife er stærst Kanaríeyjanna og jafnframt fjölmennasta eyja Spánar með tæplega 900.000 íbúa. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyrir þessi eldfjallaeyja Afríku enda liggur hún aðeins 300 km frá Marokkó. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir eyjuna ákjósanlegan áfangastað fyrir bæði göngugarpa sem og afslappaða sóldýrkendur. Við göngum stórbrotna leið um Masca gljúfrið sem hefst við friðsæla Masca þorpið á norðvestur hluta eyjunnar og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Atlantshafið. Förum í þægilega göngu upp á Montaña Cheyofita, skellum okkur í kayak siglingu og heimsækjum áhugaverðan vínframleiðanda ásamt því að skoða borgina La Laguna en elsti hluti miðbæjar þessarar gömlu höfuðborgar Kanaríeyja er á heimsminjaskrá UNESCO. Við ætlum að sjálfsögðu að ganga á eldfjallið Pico del Teide sem er þriðja hæsta eyjaeldfjall í heimi og bíður upp á mikilfenglegt gljúfralandslag og tilkomumikið sjónarspil lita og forma. Það er engu líkt að fá sumarauka á þessum tíma árs og kynnast um leið nýjum hliðum þessarar fallegu eyju.

Verð á mann 314.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 48.000 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
 • Rútuferðir til og frá flugvelli og samkvæmt dagskrá.
 • Gisting í 7 nætur á góðu 4* hóteli í tveggja manna herbergi með baði. 
 • Morgunverður allan tímann á hóteli.
 • Kvöldverðir öll kvöldin á hóteli.
 • Vínsmökkun og tapas hjá vínbónda. 
 • Gönguleyfi og ferð með kláfi upp/niður Pico del Teide.
 • Göngudagskrá.
 • Innlend leiðsögn í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. 
 • Kostnaður, annar en sá sem talinn er upp undir innifalið.
 • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
 • Þjórfé. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. upp að Steini í Esjunni vikulega í u.þ.b. 6-8 vikur fyrir ferð. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eiginvegum.

19. október │ Flug til Tenerife

Brottför frá Keflavík kl. 10:00 og mæting í Leifstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending á Tenerife kl. 16:10. Ekið á Hotel Tigotan á Playa de las Americas eða Amerísku ströndinni.

20. október │ Teide þjóðgarðurinn

Þennan fyrsta dag ferðarinnar ætlum við að ganga á eldfjallið Pico del Teide. Teide þjóðgarðurinn, sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 2007, er sá stærsti á Kanaríeyjum og er eldfjallið þriðja hæsta eyjaeldfjall í heimi, 3715 m. Gígur garðsins, kallaður Las Cañadas, er um 17 km í þvermál og hraunið í kringum meginkeilu eldfjallsins á rætur að rekja til síðasta eldgosins sem talið er að hafi átti sér stað á milli 7. og 10. aldar. Við förum með kláf áleiðis upp á Teide og göngum svo á tindinn. Mikilfenglegt gljúfralandslag Teno fjallgarðsins og einstakt landslag gíga og hraunstrauma myndar tilkomumikið sjónarspil lita og forma. Á norðurhluta eyjunnar, Mirador Piedra La Rosa, er sérstaklega fallegur útsýnisstaður yfir svæði bergmyndana sem líkja má við rósir myndaðar úr hrauni. Á eftir förum við einnig í stutta göngu um Teide þjóðgarðinn.

 • Erfiðleikastig: miðlungs
 • Göngutími: u.þ.b. 4,5 - 5 klst.
Opna allt

21. október │ Montaña Cheyofita & kayak sigling

Gönguleið dagsins er létt og þægileg en við munum ganga upp á Montaña Cheyofita þaðan sem er töfrandi útsýni yfir strandlengjuna og inn í landið, m.a. yfir á tindinn Roque del Conde. Seinni part dags stendur til boða að fara í kayak siglingu eða eiga frjálsan eftirmiðdag.

 • Erfiðleikastig: létt
 • Göngutími: u.þ.b. 2 klst.

22. október │ Masca gljúfrið

Masca gljúfrið er ein af stórbrotnari gönguleiðum Tenerife en um leið ein sú erfiðasta. Eftir að gönguhópar höfðu ítrekað lent í vandræðum var gönguleiðinni lokað árið 2018. Stjórnvöld tóku sig á og kostuðu meira en milljón evra í gagngerar endurbætur á þessari vinsælu gönguleið. Merkingar voru uppfærðar og tröppum og köðlum bætt við. Gönguleið dagsins byrjar við litla friðsæla Masca þorpið á norðvestur hluta eyjunnar en íbúafjöldi þess telur eingöngu um 100 manns. Þorpið er fagurlega staðsett í 650-800 m hæð og vel fram á sjöunda áratug síðustu aldar var eingöngu hægt að komast fótgangandi eða með asna að þorpinu. Gönguleiðin liggur frá fjallaþorpinu í gegnum gilið niður að Atlantshafinu. Á leiðinni opnast á stórkostlegt útsýni og því dýpra sem leiðin liggur inn í gilið því áhrifameiri eru háir klettaveggirnir en þeir eru allt að 600 m á hæð. Sum staðar eru gilið aðeins um 30 m breitt. Blómlegan gróður mórberja-, möndlu- og fíkjutrjáa má finna á leiðinni ásamt döðlupálma, kaktusum og agave plöntum en gljúfrið er heimili margra innlendra plantna í útrýmingarhættu. Hér búa líka villtar fjallageitur og guincho sem er sérstaklega athyglisverður æðarfugl sem er í mikilli útrýmingarhættu á Spáni. Þessi hlykkjótta gönguleið frá Masca þorpinu niður gljúfrið heillar marga.

 • Erfiðleikastig: erfitt
 • Göngutími: u.þ.b. 5 - 6 klst.

23. október │ Frídagur

Í dag slökum við á og njótum þess sem hótelið og nágrenni þess hefur upp á að bjóða. Hugguleg verönd er á þaki hótelsins og notalegt að slappa af á sundlaugarbakkanum og láta gönguþreytu liðinna daga líða úr sér

24. október │ Macizo de Teno

Macizo de Teno er útivistarsvæði staðsett á norðvesturhluta Tenerife. Stórkostleg náttúra svæðisins geymir nokkur af bestu leyndarmálum eyjunnar og gönguleiðin okkar er eitt þeirra. Frá Plaza de Los Remedios í Buenavista del Norte munum við ferðast til smáþorpsins Teno Alto þar sem menningarleg einkenni og siðir forfeðra blómstra. Þaðan heldur leið okkar áfram niður á við í gegnum falleg gil í átt að Punta de Teno, nálægt stórbrotnu klettum Los Gigantes. Gamli vitinn í Punta de Teno hefur verið ljós og leiðarvísir fyrir skip í meira en heila öld og í skjólsælli víkinni er hressandi að taka dýfu í kristaltæru vatninu.

 • Erfiðleikastig: miðlungs
 • Göngutími: u.þ.b. 5 klst.

25. október │ La Laguna, Anaga fjöllin & heimsókn til vínframleiðanda

Við ætlum að fara í dag til einnar af áhugaverðustu borgum Tenerife, San Cristóbal de la Laguna. Þessi fyrrum höfuðborg eyjunnar er á heimsminjaskrá UNESCO enda rík af sögulegum byggingum og minnisvörðum og þröngum sjarmerandi götum með litríkum húsum. Við gefum okkur góðan tíma til að skoða okkur um í borginni en það er sérstaklega þess virði að skoða Plaza del Adelantado torgið og listunnendur ættu ekki heldur að missa af dómkirkjunni. Því næst keyrum við til Anaga fjallaþjóðgarðsins sem staðsettur er í norðausturhluta Tenerife og varð til fyrir um 9 milljónum ára við eldgos í Teide. Hæsti punktur fjallsins er Cruz de Taborno sem er í 1024 m hæð. Vegna hæðar eru Anaga fjöllin oft hulin skýjum en þoka og rigning gera þetta að einu blautasta svæði eyjunnar og kjöraðstæðum fyrir lárviðarskóga sem sumir eiga rætur sínar að rekja aftur til tertíertímabilsins. Eftir göngu um svæðið ætlum við að heimsækja lítinn vínframleiðanda, fræðast um víngerðina og að sjálfsögðu fá að smakka á afurðinni.

 • Erfiðleikastig: miðlungs
 • Göngutími: u.þ.b. 3 klst.

26. október │ Heimferð

Síðasta morguninn er upplagt að nýta í rólegheit, rölta um bæinn og njóta sólarinnar. Brottför með Icelandair frá Tenerife kl. 17:10. Lent er í Keflavík kl. 21:25.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Vala Húnbogadóttir

Valgerður fékk útivistaráhugann með móðurmjólkinni og var tveggja ára kennt á skíði af móður sinni sem var skíðakennari. Æskunni var varið í fjalllendi og láglendi Ísafjarðar, Akureyrar og Noregs. Skíðaferðir og vetrarútilegur eru í miklu uppáhaldi en göngu- og skíðagleði barna eru hennar helsta rannsóknarefni. Því þó að hátindar og jöklar heilli eiga örævintýri í náttúrunni með börnunum hennar þremur stærstan sess. Þá er prímusinn ávallt með í för og fátt áhugaverðara en tilraunastarfsemi í náttúrueldhúsinu.

Hótel

Hotel Tigotan

Gist verður á 4* hótelinu Hotel Tigotan á Playa de las Americas. Hótelið er vel staðsett á Amerísku ströndinni og í aðeins 5 mínútna fjarlægð frá ströndinni. Herbergin eru með svölum, loftkælingu, sjónvarpi, hárþurrku og þráðlausu interneti. Á þaki hótelsins er sundlaug, líkams- og afslöppunaraðstaða og útsýnisbar. Á hótelinu eru tvær útisundlaugar og verönd með sólbekkjum ásamt veitingastað og börum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00