Hjólað við Wolfgangsee

Wolfgangsee er stærsta og þekktasta stöðuvatnið á þessu stórbrotna svæði í Salzkammergut í Austurríki. Við kynnumst nánasta umhverfi stöðuvatnsins vel, auk þorpanna við bakka þess. Þau eru St. Wolfgang, St. Gilgen og Strobl, þaðan sem fjallasýnin lætur engan ósnortinn. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við hjólum yfir fjallaskarðið Scharflinger Höhe að vatninu Mondsee en frægð þess hefur borist víða og í samnefndum bæ var brúðkaupsatriðið fræga í kvikmyndinni Sound of Music tekið upp. Við heimsækjum Bad Ischl sem hefur lengi verið frægur fyrir heilsulindir sínar en einnig er hann þekktur sem sumardvalarstaður Franz Josephs I. og Sisi prinsessu. Höldum til Dachstein og förum upp með kláfi að útsýnispalli þar sem er ægifagurt útsýni yfir Hallstatter See. Gist verður stærstan hluta ferðarinnar á 4* hóteli í bænum Strobl við Wolfgangsee sem er með fyrirmyndaraðstöðu til afslöppunar og endurnæringar eftir dásamlegar hjólaferðir í stórbrotinni náttúru. Seinustu tvær nætur ferðarinnar verður gist í tónlistarborginni Salzburg þar sem gaman er að kanna iðandi mannlífið.

Verð á mann 394.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 55.900 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Wolfgangsee og Salzburg.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hótelum. 
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Fimm kvöldverðir á Hotel Bergrose. 
 • Einn kvöldverður á veitingastað í Salzburg.
 • Aðgangur að heilsulind ásamt baðsloppi á Hotel Bergrose. 
 • Rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Hjóladagskrá í 5 daga.
 • Innlend leiðsögn í völdum hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra hjóli 13.500 kr.
 • Leiga á rafhjóli 26.900 kr.
 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar og ferjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 30 - 70 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að æfa sig vel fyrir ferðina, fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum

Tillögur að dagleiðum

Bjarni Torfi fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar en fararstjóri getur skipulagt hjóladagana eftir aðstæðum ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. 

2. maí | Flug til München & ekið til Wolfgangsee

Flogið verður með Icelandair til München. Brottför frá Keflavík kl. 07:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 200 km að bænum Strobl við Wolfgangsee svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki rúma 2,5 klst. Strobl er um 3.500 manna bær við austurenda Wolfgangsee og er þessi hluti vatnsins kallaður Abersee. Wolfgangsee var lengi áfangastaður pílagríma og því er margra alda hefð fyrir móttöku gesta á svæðinu. Hefðarfólk hefur einnig löngum sótt í þetta dásamlega umhverfi og var heilsulindarbærinn Bad Ischl sumardvalarstaður austurrísku keisaranna. Mikið af rómantískum sveitamyndum hafa verið kvikmyndaðar á svæðinu, þar sem það þykir vera dæmigert fyrir sveitasælu og yndislegt landslag Alpanna.

Opna allt

3. maí | Hjólað í kringum Wolfgangsee

Í dag munum við hjóla kringum Wolfgangsee og kynnast nánasta umhverfi þess og bæjunum St. Wolfgang, Strobl og St. Gilgen. Leiðin er afar rómantísk og liggur með fram strandlengjunni þar sem við njótum stórbrotins útsýnis yfir fjallgarðana umhverfis vatnið. Hjólað verður á hjólastígum, malbikuðum vegum eða troðnum malarvegum. Einnig er hægt að fara til baka frá St. Gilgen með báti. 

 • Vegalengd: u.þ.b. 36 km (18 km, fram og til baka)
 • Hækkun: óveruleg
 • Erfiðleikastig: létt

4. maí | Hallstätter See

Í upphafi dags er okkur ekið með hjólin til Dachstein þar sem við fáum tækifæri til að fara með kláfi upp að „five fingers“ útsýnispallinum ofan við Hallsatter See. Ef tími vinnst til förum við einnig í bæinn Hallstatt og skoðum okkur um þar en umhverfi Hallstatter See er allt á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir það hjólum við eftir fallegum hjólastíg í átt að bænum Bad Goisern og svo áfram til Bad Ischl þar sem við tökum gott hlé áður en síðasti áfanginn á heimleið er tekinn.

 • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
 • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 220/255 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

5. maí | Þriggja vatna ferð

Frá Wolfgangsee höldum við að Bad Ischl og áfram þaðan eftir skemmtilegum skógarstígum í átt að Attersee þar sem við tökum stutt stopp áður en við höldum áfram með stefnu að Mondsee. Eftir gott hádegishlé höldum við ferðinni áfram, förum yfir Scharfling skarðið og komum til Sankt Gilgen við enda Wolfgangsee.

 • Vegalengd: u.þ.b. 70 km
 • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 350 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs 

6. maí | Útivistarsvæðið Postalm

Í dag hjólum við frá hótelinu okkar upp fallega hjólaleið að skíða- og útivistarsvæðinu Postalm sem liggur í u.þ.b. 1100 m hæð. Þar tökum við okkur gott hlé, slökum á og njótum útsýnis yfir þetta fallega svæði. Ferðin niður verður létt.

 • Vegalengd: u.þ.b. 30 km
 • Hækkun: u.þ.b. 800 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

7. maí | Krottensee, Mondsee & Salzburg

Í dag kveðjum við Wolfangsee en farangurinn okkar verður fluttur á hótel í Salzburg þar sem við dveljum næstu tvær nætur. Við höldum til St. Gilgen, þaðan sem við hjólum til Mondsee, yfir fjallskarðið Scharflinger Höhe sem er 604 m yfir sjávarmáli, en við hæsta punkt Sharflinger er hið fallega vatn, Krottensee. Áfram hjólum við með fram Mondsee þar til við náum til bæjarins sem ber nafn vatnsins en brúðkaupsatriðið fræga í kvikmyndinni Sound of Music var tekið upp þar í bæ. Eftir góða hvíld í bænum höldum við áfram í gegnum smábæina Thalgau og Eugendorf á leið okkar til Salzburg þar sem við gistum tvær síðustu næturnar. 

 • Vegalengd: u.þ.b. 70 km
 • Hækkun: u.þ.b. 400 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

8. maí | Frídagur í Salzburg

Nú eigum við frjálsan dag í þessari yndislegu borg Salzburg en gaman er að kanna iðandi mannlíf borgarinnar. Hægt er að skoða Mirabell garðinn og ganga eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar. Þar er að finna mjög áhugavert Mozart safn. Tilvalið er að líta á Hohensalzburg kastalann sem setur heillandi svip á borgina.

9. maí | Heimferð frá München

Nú er komið að heimferð en flogið verður kl. 16:55 frá München. Lending á Íslandi kl. 18:50 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Hótel

Hotel Bergrose

Gist verður á Hotel Bergrose sem er 4* hótel sem staðsett er í eins kílómeters fjarlægð frá bökkum vatnsins Wolfgangsee á rólegum stað í útjaðri bæjarins Strobl. Hótelið er með 32 vel búin herbergi sem öll eru með flatskjá, öryggishólfi, síma, útvarpi og hárþurrku. Gestir fá baðslopp til afnota á meðan á dvölinni stendur. Á hótelinu er að finna fyrsta flokks heilsulind þar sem upplagt er að láta líða úr sér eftir hreyfingu dagsins. Gestum stendur til boða að nýta sér sundlaug (28°C), nuddpott, sauna, saltvatnsgufubað og slökunarrými með hituðum bekkjum. Einnig eru sólbekkir í hótelgarðinum. Glæsilegt morgunverðarhlaðborð með heimagerðu góðgæti sem og 4-5 rétta kvöldverður, bíður gesta á þessu huggulega hóteli. Frí nettenging er í andyri hótelsins. Auk veitingasals er notaleg arinstofa á staðnum.

H+ Hotel Salzburg

Gist verður í tvær nætur á H+ Hotel í Salzburg sem er staðsett beint á móti aðallestarstöðinni í Salzburg. Herbergin eru búin loftkælingu, sjónvarpi, hárþurrku, öryggishólfi og nettengingu. Á hótelinu er heilsulind og líkamsræktaraðstaða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790
Póstlisti