Vesen í Færeyjum

Í þessari gönguferð um nágrannaland okkar Færeyjar munum við fá góða yfirsýn yfir eyjarnar og allt það helsta sem þar er að sjá. Gist verður í Þórshöfn á hóteli í miðbænum. Við göngum á sveitastígum, á fjallstinda og um fallegar eyjar á borð við lundaeyjuna Mykines og Kalsey þar sem við sjáum bæði minningarstein um sjálfan James Bond og njótum útsýnis yfir grænar fjallshlíðar, lóðrétta kletta, freyðandi brim og tilkomumikið Atlantshafið. Á hæsta tindi Færeyja, Slættaratindi, bíður okkar töfrandi útsýni yfir eyjarnar, ef skyggnið verður okkur hliðhollt. Einnig förum við til Kirkjubæjar, helsta sögustaðar Færeyja, með sínum fornfrægu kirkjum og húsum. Við dáumst að náttúrufegurð Gásardals sem lengi vel var eitt einangraðasta þorp Færeyja  og er umkringt grænum engjum og rammað inn af háum, tignarlegum fjöllum. Þar sjáum við einnig Múlafoss sem er mest ljósmyndaði foss Færeyja og ekki að ástæðulausu. Síðast en ekki síst göngum við frá Hvalvík til Vestmanna en á leiðinni sjáum við yfir Saksunardal, lengsta dal landsins. Spennandi útivist, áhugaverð saga frænda okkar í Færeyjum og hreyfing í skemmtilegum félagsskap gera þessa ferð ógleymanlega upplifun.

Verð á mann 368.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 37.400 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Atlantic Airways og flugvallarskattar.
 • Ferðir milli flugvallarins í Þórshöfn og hótelsins.
 • Gisting á 3* hóteli í miðbænum í 2ja manna herbergi með baði. 
 • Morgunverður á hótelinu.
 • Hádegisverðir eða nestispakkar í fimm gönguferðum.
 • Akstur í gönguferðum samkvæmt ferðalýsingu.
 • Bátsferð yfir til Mykines.
 • Innlend leiðsögn í gönguferðum í fimm daga.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverður 6. júní. 
 • Kvöldverðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. upp að Steini í Esjunni vikulega í u.þ.b. 6-8 vikur fyrir ferð. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Sambærilegt væri að fara þrjár ferðir á Úlfarsfell í hverri viku. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.
Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

2. júní | Flug til Færeyja & ekið til Þórshafnar

Brottför frá Keflavíkurflugvelli kl. 09:00. Mæting u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Vágum kl. 11:25 að staðartíma. Höldum til Þórshafnar þar sem gist verður í sjö nætur á hóteli í miðbænum. Þegar við erum búin að koma okkur fyrir verður farið í stutta göngu um Þórshöfn þar sem við heimsækjum gamla hluta bæjarins og fræðumst um sögu hans.

3. júní | Mykines

Við ökum í gegnum byggðirnar þrjár í Vogum og stígum um borð í bát í Sörvogi. Þaðan siglum við í klukkutíma og stefnum á vestustu eyjuna, Mykines. Frá höfninni göngum við í gegnum byggðina og um eyjuna en þarna er mikið fuglalíf og eyjan þekkt sem lundaeyja. Síðdegis verður siglt til baka til Sörvogs.

Opna allt

4. júní | Kalsey

Dagurinn hefst á akstri til Klakksvíkur en þar verður farið um borð í ferju sem siglir til Kalseyjar. Þar bíður okkar aftur rúta sem ekur til þorpsins Trøllanes þar sem ganga dagsins hefst. Við stefnum að vitanum en á leiðinni förum við fram hjá minningarsteini um engan annan en sjálfan James Bond en í síðustu mynd hans, No Time to Die, lést hann á þessum stað. Við komuna að vitanum hljótum við ríkuleg laun fyrir gönguna, ógleymanlegt útsýni yfir grænar fjallshlíðar, lóðrétta kletta, freyðandi brim og tilkomumikið Atlantshafið. Förum sömu leið til baka, frá Trøllanesi með ferju til Klakksvíkur.

 • Miðlungs til erfið ganga
 • Vegalengd: 6-10 km
 • Tími: u.þ.b. 3 klst.

5. júní | Slættaratindur

Í dag er hæsta fjall Færeyja á dagskrá. Slættaratindur, sem er 882 m á hæð, er á norðurhluta Eystureyjar á milli þorpanna Eiðis, Funnings og Gjógvar. Nafnið Slættaratindur þýðir flatur tindur. Á toppi fjallsins gæti verið töfrandi útsýni yfir eyjarnar en þar sem þú ert í Færeyjum fer þetta alltaf eftir veðri og vindum. Þetta þekkjum við Íslendingar og skiljum vel. Eftir gönguna verður haldið til litla þorpsins Gjógv þar sem hægt verður að rölta um bæinn og skoða sig um áður en haldið verður aftur á hótel í Þórhöfn.

 • Miðlungs ganga
 • Vegalengd: 4-5 km
 • Tími: u.þ.b. 2,5 klst.

6. júní | Gengið frá Þórhöfn til Kirkjubæjar

Í dag göngum við frá hótelinu okkar í Þórhöfn og yfir til bæjarins Kirkjubæjar. Á hæsta toppi leiðarinnar njótum við útsýnis yfir Þórhöfn og út á Nólsoy. Þegar áfram er haldið er farið um Reynsmúla og að Reynsmúlalág þar sem eru tvö vötn og yfir sumartímann er mögulegt að sjá fuglinn ritu baða sig eftir fæðisleit í sjónum. Leiðin heldur áfram suður á bóginn þar sem frábært útsýni er yfir eyjarnar Sandey, Hest, Kolt og Vágey. Við komuna til Kirkjubæjar kemur til greina að fá sér hádegishressingu á 900 ára gamla veitingastaðnum Roykstovan (ekki innifalið). Í Kirkjubæ, þessum sögufrægasta stað Færeyja, má finna rústir dómkirkju heilags Magnúsar og Ólavskirkju sem eru frá árinu 1111. Eftir að hafa tekið góða stund í að svipast um þá tökum við strætó aftur til Þórshafnar.

 • Auðveld ganga
 • Vegalengd: u.þ.b. 7 km
 • Tími: u.þ.b. 2 klst.

7. júní | Gásadalur

Við höldum til eyjunnar Vága í dag og göngum þar eftir gömlum sveitastígum að fallega þorpinu Gásadal. Gásadalur var lengi vel eitt einangraðasta þorp Færeyja eða allt til ársins 2004 þegar jarðgöng voru grafin. Erfitt er að komast að þorpinu sjóleiðis og voru íbúar Gásadals því vanir að ganga þessa leið þegar þeir þurftu að komast í verslun eða til að sinna öðrum erindum. Fyrsti hluti stígsins er brattur og liggur nærri fjallsbrúninni. Það er því mikilvægt að fara varlega en þó ekki gleyma að njóta útsýnisins yfir Sørvágsfjörð, Tindhólma, Gáshólma og Mykines. Þegar komið er að Skarði liggur leiðin niður fjallshlíðina og að þorpinu og þarna blasir við eitt fallegasta útsýni Færeyja. Litla, fallega þorpið er umkringt grænum engjum og rammað inn af háum, tignarlegum fjöllum. Eitt þeirra er Árnafjall sem með sínum 722 metrum er hæsta fjall Vága. Við komuna í Gásadal er nauðsynlegt að ganga að Múlafossi sem er mest ljósmyndaði foss Færeyja og ekki að ástæðulausu.

 • Miðlungs erfið ganga
 • Vegalengd: u.þ.b. 4 km
 • Tími: u.þ.b. 2 klst.

8. júní | Gengið frá Hvalvík til Vestmanna

Nú förum við með rútu til Hvalvíkur en á gönguleið dagsins munum við sjá stórkostleg fjöll og vötn ásamt því að fá innsýn í færeyska raforkuþróun. Gengið verður frá Hvalvík og þegar komið er fram hjá Eggjarmúla er gott útsýni um Saksunardal, lengsta dal landsins. Ofan á Hvalvíksskarði sjáum við yfir Mýrarnar og eina af fyrstu stíflunum sem SEV (færeyska rafmagnsveita ríkisins) byggði snemma á sjöunda áratugnum. Rúta mun flytja okkur til baka til Þórshafnar.

 • Miðlungs erfið ganga
 • Vegalengd: u.þ.b. 10 km
 • Tími: u.þ.b. 3 klst.

9. júní | Heimferð

Nú er komið að leiðarlokum en snemma dags kveðjum við Færeyjar og höldum út á flugvöll. Brottför er með flugi kl. 07:45 og er áætluð lending í Keflavík kl. 08:15 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Einar Skúlason

Einar Skúlason er fæddur í Kaupmannahöfn 1971. Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.

Hann hefur unnið við markaðsstörf á nokkrum stöðum, var framkvæmdastjóri Alþjóðahússins og kynningarstjóri Fréttablaðsins en hefur síðustu ár starfrækt gönguklúbbinn Vesen og vergang og gönguappið Wapp-Walking app. Í tengslum við gönguklúbbinn hefur Einar verið leiðsögumaður og fararstjóri í hundruðum ferða innanlands og erlendis.

Einar skrifaði jafnframt tvær bækur um gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00