Hlaupið í Loire dalnum

Að hlaupa maraþon á erlendri grundu er ógleymanleg upplifun og nú er tækifæri til að sækja heillandi Loire dalinn heim og tengja saman hlaup og upplifun nýs áfangastaðar. Running Loire Valley er einn fjölmennasti hlaupaviðburður Frakklands og laðar rúmlega 13.000 hlaupara til borgarinnar Tours í Loire dalnum. Í þessari ferð ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort heldur sem áhugi er á að hlaupa 10, 20 eða 42,2 km eða fara í skoðunarferðir um hina heillandi Tours og Loire dalinn. Loire dalurinn er blómlegt landbúnaðarhérað en hann heitir eftir lengstu á landsins, Loire, sem rennur um dalinn. Þó dalurinn, sem stundum er kallaður garður Frakklands, sé þekktastur fyrir hinar stórkostlegu hallir og kastala sem voru leiksvið konunga, hertoga og franska aðalsins í margar aldir, hefur hann líka upp á að bjóða franska matargerðarlist eins og hún gerist best og framúrskarandi vín af vínekrum svæðisins enda dalurinn rómaður fyrir frjósama jörð og milt veðurfar.

Flogið verður til Parísar þann 25. september ásamt hópstjóra ferðarinnar, Sonju Sif Jóhannsdóttur, og þaðan ekið til Tours. Gist verður í hjarta Tours í 4 nætur. Hlaupahátíðin fer fram sunnudaginn 27. september en daginn fyrir og eftir eru í boði innifaldar skoðunarferðir þannig að allir fái sem mest út úr ferðinni. Á sunnudagskvöldið fer hópurinn saman út að borða og fagnar sigrum helgarinnar. Heimför er þriðjudaginn 29. september en að sjálfsögðu geta áhugasamir framlengt dvöl sína í París.

Verð á mann 159.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 41.200 kr.


Innifalið

 • 5 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Rúta fram til baka milli Parísar og Tours.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði. 
 • Morgunverður.
 • Heilsdags skoðunarferð og hádegismatur í ferðinni.
 • Kvöldverður að loknu hlaupi.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra.

Ekki innifalið

 • Þátttökugjöld í hlaupið.
 • Valkvæð hálfdags skoðunarferð samkv. ferðalýsingu.
 • Hádegis- og kvöldverðir (nema kvöldverður að loknu hlaupi og hádegisverður í heilsdagsskoðunarferð á mánudeginum).
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Innifalið í þátttökugjaldinu

Maraþon 10.300 kr.

Hálfmaraþon 3.400 kr.

10 km hlaup 3.400 kr.

 • Hlaupanúmer og tímaflaga.
 • Verðlaunapeningur.
 • Hlaupabolur.
 • Jakki / treyja (einungis fyrir þátttakendur í maraþoni).
 • Poki/ taska (einungis fyrir þátttakendur í maraþoni).
 • Vínflaska frá Loire. (einungis fyrir þátttakendur í maraþoni).
 • Rafrænt viðurkenningarskjal.
 • Paella hátíðarskemmtun við bakka Loire. (einungis fyrir þátttakendur í maraþoni).
 • Þjónusta við drykkjarstöðvar.
 • Farangursgeymsla.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

25. september | Komudagur

Flug til Parísar kl. 07:45. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í París kl. 13:10 að staðartíma. Frá París er um 4 klst. akstur á hótel okkar í Tours.

26. september | Morgunskokk og hlaupahátíð

Þótt ekki borgi sig að vera of mikið á ferðinni degi fyrir maraþon þá þýðir það ekki að eyða eigi deginum með fætur upp í loft inni á hótelherbergi. Það er því upplagt að hefja morguninn á léttu morgunskokki/göngu með skoðunarferðarívafi með staðarleiðsögumanni um gömlu borgina í Tours sem jafnan er líflegasta hverfi borgarinnar. Mýkja fætur og róa taugarnar, nóg til að vöðvaminnið hrökkvi í gang og upplifa miðaldastræti Tours.
Fljótlega eftir morgunskokkið förum við saman að sækja hlaupagögnin á hlaupahátíðina í Palais des congrès, ráðstefnuhúsi Tours, sem er þekkt fyrir sérstakan arkitektúr. Á hlaupahátíðinni er margt spennandi um að vera og í fyrra sóttu hana um 25.000 manns.
Eftir hádegi gefst áhugasömum, bæði þeim sem ekki taka þátt í maraþoni næsta dags og þeim hlaupurum sem vilja fá sem mest út úr ferðinni, tækifæri til að fara í hálfsdagsskoðunarferð með staðarleiðsögumanni. Skoðuð verður þekktasta og fegursta höll Loire dalsins, Villandry, ásamt tilkomumikla hallargarðinum sem umlykur hana.
Um kvöldið verður hópstjóri ferðarinnar með óformlegt spjall um daginn stóra, auk þess er fundurinn jafnframt kjörinn vettvangur til að hitta aðra hlaupara, skiptast á ráðum og spjalla.

27. september | Hlaupadagur

Frá hótelinu okkar er stuttur gangur að rásmarki og mun fararstjóri fylgja þeim sem vilja mæta tímanlega. Maraþonleiðin er eftir alþjóðlegum stöðlum og er tiltölulega flöt og auðfarin. Meðalhiti á þessum árstíma er 16°.

Styttri hlaupin, 10 og 20 km, eiga sér tæplega 40 ára sögu og leggur borgin mikla áherslu á að varðveita vel arfleið þessara hlaupa en þau teljast til stærstu hlaupaviðburða í Frakklandi. Maraþonið sjálft á sér styttri sögu en það fer fram í sjöunda sinn.

Maraþonið
Maraþonið er ræst kl. 08:30. Hlaupaleiðin er tiltölulega flöt og því kjörin til bætinga. Leiðin er viðurkennd af franska frjálsíþróttasambandinu. Öll umgjörð hlaupsins er eins og best er á kosið í maraþonum þar sem um 800 sjálfboðaliðar tryggja að allt fari vel fram og hvetja hlaupara til dáða. Hin svokallaða Konunglega hlaupaleið, leiðin milli Loire og Cher, hefst í hjarta borgarinnar og leiðir okkur m.a. með fram bökkum Loire árinnar og bæjanna Berthenay og Saint-Genouph. Drykkjarstöðvar og hressandi hvatningarstöðvar með lifandi tónlist eru á 5 km fresti. Við rásmarkið bíður okkar góð aðstaða til að fylla vel á drykkjartankinn sem og sjúkraþjálfarar ef á þarf að halda. Í marki fá hlauparar ekki einungis verðlaunapening heldur jafnframt bol, jakka (treyju), poka, vín frá héraðinu o.fl. Hlauparar geta svo fagnað áfanganum í Paella veislu við bakka Loire með hlaupurum, fjölskyldu og vinum.

10 km
Um 8000 hlauparar taka þátt í 10 km hlaupinu og er það ræst kl. 9:30. Hlaupaleiðin liggur með fram bökkum Loire árinnar og á leiðinni má sjá tólf helstu kennileiti Tours, þar á meðal klaustrið Marmoutier. Þátttakendur fá verðlaunapening, bol og poka merktan hlaupinu í marki.

20 km
20 km hlaupið er ræst kl. 10:30 og liggur leiðin eins og í 10 km hlaupinu um hjarta Tours en fer jafnframt aðeins út fyrir borgina. Að hluta til verður hlaupið á hinni frægu hjólaleið La Loire à Vélo, sem er 900 km hjólaleið og liggur á milli Tours og Angers.

Stuðningsmenn - áhorfendur
Það er gaman að fylgjast með hlaupurunum og er flestum þeirra mikil hvatning í að heyra nafn sitt kallað. Hópstjóri Bændaferða verður á hlaupabrautinni til þess að hvetja til dáða og eru allir stuðningsmenn á vegum Bændaferða velkomnir að slást í för með honum.

Að loknu maraþoni – sigri fagnað
Að loknu maraþoni er upplagt að hitta aðra íslenska hlaupara á einum af fjölmörgum börum borgarinnar og fagna áður en haldið er til baka á hótelið.

Hátíðarkvöldverður
Um kvöldið fögnum við saman á veitingastað og förum yfir afrek dagsins í hóp hlaupara og stuðningsmanna.

Opna allt

28. september | Heilsdags skoðunarferð

Í dag tryggjum við að allir fái sem mest út úr dvöl okkar á bökkum Loire. Við heimsækjum hina stórkostlegu Chambord höll, stærstu höll Loire dalsins, og næststærstu höll Frakklands á eftir Versalahöll. Kastalinn var byggður fyrir Frans I og hófst verkið árið 1519. Flestir konungar Frakklands dvöldu í Chambord og Moliére skrifaði mörg leikrita sinna þar. Frá Chambord er haldið til Amboise þar sem við snæðum á veitingastað sem býður upp á mat að hætti héraðsins. Amboise kastalinn er einn sá fallegasti í Frakklandi, fyrst byggður sem virki árið 1492 en síðar breytt í konungsbústað. Leonardo da Vinci dvaldi í Amboise og þar er safn um hann. Í Amboise eru mörg hús frá 15. - 18. öld. Að loknum hádegismat höldum við til Chenonceaux, kastalans sem allir verða sjá. Hann var byggður yfir ána Cher í kringum árið 1520 af Thomas Bohier, féhirði þriggja konunga. Frá Chenonceaux er haldið til miðaldasmábæjarins Rochecobon þar sem við förum í vínsmökkun í einum af vínkjöllurum bæjarins áður en haldið er til baka á hótelið.

29. september | Heimferðardagur

Við höldum frá Tours árla morguns með rútu til Parísar. Flogið er heim kl. 14:15 og lent í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma. Þeir sem hafa ákveðið að framlengja dvöl sína í París geta tekið lest frá Charles de Gaulle inn í miðborg Parísar.

Tours

Tours er 220 km fyrir sunnan Parísarborg og liggur í 55 m hæð yfir sjávarmáli. Söguleg og menningarleg borg full af heillandi byggingum og arkitektúr sem nær aftur til miðalda. Íbúar eru um 140 þúsund. Í dag er borgin þekkt sem stúdentaborg með gnægt af verslunum, góðum veitingastöðum og börum. Tours er einstaklega vel staðsett til þess að skoða hinn margrómaða Loire dal – dal konunganna.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sonja Sif Jóhannsdóttir

Sonja Sif Jóhannsdóttir er reynslumikill hlaupari hvort heldur utan vega eða á malbiki. Hún hefur verið viðriðin hlaupaþjálfun undanfarin 26 ár. Síðastliðin 10 ár hefur Sonja einkum fengist við þjálfun hlaupahópa og hefur undanfarin ár séð um þjálfun og hlaupanámskeið hjá UFA – Eyrarskokki sem er staðsett á Akureyri. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00