Hjólaævintýri á Kúbu

Hér er boðið upp á magnaða hjólaferð til Kúbu, stærstu eyju Karabíska hafsins. Þessi fyrrum eftirlætisstaður Hemingway býr yfir töfrum, einhverri dulúð sem heillar alla. Það er ekki að ástæðulausu sem eyjan dregur til sín þúsundir ferðamanna ár hvert. Við byrjum og endum ferðina í hinni litríku og heillandi Havana borg þar sem m.a. verður farið í Miramar hverfið og að El Capitolio byggingunni sem svipar mjög til Hvíta hússins í Washington. Haldið verður til Las Terrazas en í þeirri einstöku náttúruperlu má til að mynda finna elstu kaffiakra Kúbu. Við heimsækjum einnig tóbaksbúgarð og njótum sólar og hita á baðströndunum Cayo Jutia og Playa Ancon en sú síðarnefnda er talin ein sú fallegasta á Kúbu. Á vegi okkar verða einstakir bæir á borð við Santa Clara, þar sem við skoðum minnisvarða um Che Guevara, og Trinidad þar sem litríkar götur, steinlögð stræti og iðandi markaðstorg heilla. Gist verður bæði á hótelum og í hefðbundnum kúbverskum heimagistingum þar sem við kynnumst gestrisni heimamanna og smökkum kúbverskan heimilismat. Hver dagur og sérhver leið mun birta okkur hinar ýmsu hliðar þessarar paradísar um leið og við kynnumst mannlífinu, mat, drykk, siðum og venjum heimamanna. 

Verð á mann 749.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 58.900 kr.


Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Icelandair Keflavík – París – Keflavík og flugvallarskattar.
 • Flug með Air France París – Havana – París og flugvallarskattar. 
 • Ferðir til og frá flugvelli í Havana í loftkældri rútu.
 • Gisting í tveggja manna herbergi á hótelum og „casas“ á Kúbu. 
 • Morgunmatur allan tímann á hóteli.
 • 11 hádegisverðir (á veitingastöðum en nestispakki ef enginn veitingastaður er á leiðinni).
 • 3 kvöldverðir.
 • Flutningur á fólki í loftkældri rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Flutningur á hjólum samkvæmt ferðalýsingu.
 • Leiga á trekking hjóli (Trek 8.3 DS) samkvæmt ferðalýsingu.
 • 3 lítrar af vatni á mann, hjóladagana. 
 • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Vegabréfsáritun til Kúbu. 
 • Aðrar máltíðir en þær sem nefndar eru í ferðalýsingu. 
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 25 - 80 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að æfa sig vel fyrir ferðina, fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Athugið að rafmagnshjól eru ekki í boði.

21. október | Flug til Parísar & áfram til Havana

Flug með Icelandair frá Keflavík kl. 07:40. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending á Charles de Gaulle flugvelli í París kl. 13:05 að staðartíma. Flogið áfram með Air France kl. 17:05 og lending í Havana kl. 21:15 að staðartíma.

22. október | Hjólað um Havana

Að loknum morgunverði og þegar hjólin hafa verið afhent og prófuð verður farið í skoðunarferð um ákveðin hverfi í borginni. Við byrjum á nánasta umhverfi hótelsins okkar í Miramar en þar eru nokkrar glæsibyggingar sem hýsa sendiráð ýmissa ríkja. Þaðan liggur leiðin í lítinn og dásamlegan gróinn garð sem kallast Gran Parque Metropolitano. Hingað leggja borgarbúar oft leið sína til afþreyingar og slökunar í heillandi náttúru við bakka Almendares árinnar. Frá garðinum liggur leið okkar í næsta hverfi, Nuevo Vedado, sem er hverfi miðstéttarinnar og þar finnast margir áhugaverðir staðir eins og t.d. uppreisnartorgið. Þaðan hjólum við stuttan spöl niður að strönd við Hotel Nacional de Cuba og að gamla þinghúsinu, el Capitolio sem svipar mjög til Hvíta hússins í Washington. Leið okkar liggur svo áfram að lestarstöðinni og að borgarmúrnum en þaðan er stuttur gangur niður í gömlu Havana þar sem okkar bíður hádegisverður. Að honum loknum verður hjóluð önnur leið til baka á hótel, með fram Malecón strandlengjunni.

 • Vegalengd: u.þ.b. 34 km
 • Hæðarmunur: +243 m /-240 m 
 • Morgun- & hádegisverður
Opna allt

23. október | Havana – Las Terrazas

Í dag verður hópurinn fluttur út fyrir borgina í vesturátt. Þar drögum við fram hjólin og stígum pedalana eftir fallegri leið í átt að Las Terrazas þar sem við gistum í eina nótt. Las Terrazas er einstaklega fallegur staður, sjálfbært samfélag þar sem menn og náttúra lifa í sátt og samlyndi. Hér eru elstu kaffiakrar Kúbu, skógi vaxið svæði, runnar og fögur blóm umhverfis lygnar tjarnir. Í þessari einstöku náttúruperlu eru einnig náttúrulaugar sem upplagt er að njóta eftir hjólaferð dagsins.

 • Vegalengd: u.þ.b. 50 km
 • Hæðarmunur: + 445 m / -280 m
 • Morgun- & hádegisverður

24. október | Las Terrazas – Pinar del Rio

Við borðum morgunmat í þessari náttúruparadís en því næst erum við flutt frá Moka til Soroa. Þar byrjum við dagsferðina á hjólunum og eyðum morgninum í að hjóla eftir Pinar del Rio veginum, milli fallegra þorpa frá nýlendutímunum uns við komum til San Diego de los Baños. Hér er að finna bestu heilsulindir Kúbu en á nýlendutímanum uppgötvuðu menn lækningarmátt vatnsins á svæðinu þegar veikur þræll gekk fram á hver, baðaði sig í honum og læknaðist. Hér snæðum við síðbúinn hádegismat en að honum loknum er hópurinn fluttur til Pinar del Rio þar sem gist verður í eina nótt.

 • Vegalengd: u.þ.b. 77 km
 • Hæðarmunur: u.þ.b. + 1334 m / -1445 m
 • Morgun- & hádegisverður

25. október | Pinar del Rio – Viñales

Nú er stefnan tekin að kanna besta tóbaksræktunarsvæði í heimi. Við hjólum frá Pinar del Rio í gegnum litla þorpið San Luis þar sem meðal annars má sjá glæsilega kirkju frá nýlendutímanum. Höldum því næst að tóbaksbúi Alejandro Robaina sem hefur verið kallaður guðfaðir kúbversks tóbaks m.a. vegna goðsagnakenndra frásagna af uppskeru. Eftir heimsókn á tóbaksbúið hjólum við eftir sveitavegum að nautgripabúgarðinum La Guabina þar sem við njótum dæmigerðrar kúbverskrar máltíðar. Eftir hádegisverð snúum við aftur til Pinar del Rio, annaðhvort hjólandi eða með rútu, og förum þaðan til Viñales dalsins sem margir telja fallegasta dal Kúbu. Gist verður næstu tvær nætur í hefðbundinni kúbverskri heimagistingu (casa particulares) þar sem gestgjafarnir munu útbúa dýrindis heimalagaðan kvöldverð. Þrátt fyrir að við séum nú í rólegri sveit er alls ekki ólíklegt að ef þú röltir út í kvöld munir þú finna stað þar sem heimamenn spila lifandi tónlist.

 • Vegalengd: u.þ.b. 48 km
 • Hækkun: u.þ.b. + 307 m / -298 m
 • Morgun-, hádegis- & kvöldverður

26. október | Viñales – Cayo Jutías – Viñales

Í dag gefst tækifæri til að hjóla hluta dags og njóta svo sólar og hita á baðströnd seinni partinn. Lagt verður af stað að loknum morgunverði og komið á ströndina Cayo Jutia um hádegisbil. Hádegisverður bíður hópsins á ströndinni og síðan er hægt að slaka á. Á staðnum er sitthvað í boði, t.d. geta menn spreytt sig á köfun. Hópurinn verður fluttur til baka á náttstað í Viñales seinni partinn.

 • Vegalengd: u.þ.b. 56 km
 • Hækkun: u.þ.b. + 422 m / -560 m
 • Morgun- & hádegisverður

27. október | Keyrt til Santa Clara

Eftir morgunmat leggjum við akandi af stað til Santa Clara og stefnan er tekin í austur. Það er spennandi að aka þessa leið því hér gefst kærkomið tækifæri til að upplifa landið, mannlífið til sveita og í þorpum. Innlendur fararstjóri fræðir okkur um markverða staði, sýnir myndbönd og leiðir okkur þessa leið. Nesti verður borðað í einhverju þorpinu. Við komum til hins sögufræga staðar, Santa Clara, sem iðar af menningarlífi, sköpunargleði og byltingaranda. Hér gistum við á góðu hóteli eina nótt.

 • Morgun- & hádegisverður

28. október | Santa Clara – Trinidad

Við snæðum morgunmat og síðan er stutt skoðunarferð um borgina þar sem margt er að sjá. Við byrjum á að skoða grafreit og minnisvarða um Che Guevara og 29 liðsmenn hans sem féllu árið 1967. Á leið okkar um borgina sjáum við merkar byggingar sem segja sögu liðins tíma, hér er iðandi mannlíf á strætum, kaupmenn á hverju horni og kaffihús og veitingastaðir víða. Héðan liggur leið okkar til Topes de Collantes sem er einstakur garður, sannkallaður sælureitur. Það er mikil upplifun að ganga La Codina slóðina í garðinum því hér kynnumst við náttúrunni í sinni fegurstu mynd. Eftir hádegisverð verður ekið á náttstað í bænum Trinidad. Hér gistum við í dæmigerðri kúbverskri heimagistingu (casas particulares), kynnumst gestrisni heimamanna og smökkum kúbverskan heimilismat. Um kvöldið er tilvalið að skoða sig um í sjarmerandi Trinidad sem er á heimsminjaskrá UNESCO.

 • Morgun-, hádegis- & kvöldverður

29. október | Trinidad – Playa Ancon

Í dag tökum við fram hjólin. Fram undan er fremur stutt og þægileg leið til Playa Ancon, hvítrar baðstrandar við Karabíska hafið. Þessi undurfagra strönd er ein sú fallegasta á Kúbu og hér er tilvalið að taka sundsprett og njóta sólar um stund áður en við stígum reiðfákana á ný og hjólum aðra leið til baka. Síðdegið er frjálst og upplagt að rölta um og skoða þennan heillandi bæ. Hér eru litríkar götur og steinlögð stræti, söfn af ýmsum toga og iðandi markaðstorg. Trinidad er einstakur bær þar sem yfirbragð spænska nýlendutímans hefur varðveist og það er eins og við stígum inn í nýjan, framandi og spennandi heim.

 • Vegalengd: u.þ.b. 26 km
 • Hæðarmunur: u.þ.b. + 128 m / -127 m
 • Morgunverður

30. október | Trinidad – Cienfuegos

Hjólaleið dagsins er frá Trinidad í dásamlegan skrúðgarð nærri Cienfuegos. Við snæðum hádegismat í þessum unaðsreit þar sem hvers kyns hitabeltisgróður vex við náttúrulegar aðstæður. Héðan er hópurinn fluttur til Cienfuegos og eftir stutta skoðunarferð um bæinn skráum við okkur inn á hótel. Þetta er borg á stærð við Reykjavík sem varðveitir ýmsar merkar byggingar og veitir innsýn í liðna tíð því þegar farið er um sumar götur er eins og tíminn hafi staðið í stað einhverja áratugi. Sjón er sögu ríkari. Hér er um að gera að rölta um nánasta umhverfi hótels, finna sér svo veitingastað og snæða kvöldverð.

 • Vegalengd: u.þ.b. 66 km
 • Hæðarmunur: u.þ.b. + 455 m / -438 m
 • Morgun- & hádegisverður

31. október | Cienfuegos – Playa Larga

Í dag ferðumst við með rútu til þorpsins Navarra þar sem hjólaferð dagsins hefst. Leiðin í dag býður upp á breytilegt landslag. Við hjólum m.a. um stærsta votlendið á Kúbu, stöldrum við á Playa Giron ströndinni og fræðumst um „Bay of Pigs“ innrásina frægu árið 1961. Við hjólum stuttan spöl eftir ströndinni til Caleta Buena þar sem okkar bíður hádegismatur. Caleta Buena er dásamleg friðlýst vík sem iðar af ýmsum tegundum fiska sem aðeins finnast í volgum sjó. Hér er magnað að vera og skoða sig um. Héðan flytur rútan okkur á náttstað (casas particulares) í Playa Larga.

 • Vegalengd: u.þ.b. 71 km
 • Hæðarmunur: u.þ.b. + 167 m / -205 m
 • Morgun-, hádegis- & kvöldverður

1. nóvember | Playa Larga – Matanzas

Rútan flytur hópinn stutta leið í bæinn Jaguey Grande þar sem hjólreið dagsins hefst. Við hjólum í gegnum landbúnaðarhérað, með fram litríkum og ilmandi sítrusökrum þar til við komum til Finca Coincidencia en þar snæðum við hádegisverð að hætti heimamanna. Þetta er búgarður með lífræna ræktun í miðju Matanzas héraði. Héðan er hópurinn fluttur til borgarinnar Matanzas þar sem gist verður.

 • Vegalengd: u.þ.b. 57 km
 • Hæðarmunur: u.þ.b. + 184 m / -122 m 
 • Morgun- & hádegisverður

2. nóvember | Matanzas – Havana

Hjólin bíða okkar við hótelið og við leggjum af stað eftir morgunverð. Umferð kann að reynast erfið fyrst um sinn í borginni en þegar við tökum stefnu á Ceiba Mocha og hjólum upp Picadura dal förum við að njóta útsýnis yfir dalinn og stöku þorpa sem á leið okkar verða. Lokakaflann hjólum við á ströndinni og komum tímanlega í bæinn til að njóta hádegisverðar. Upplagt að gefa sér tíma í sundsprett áður en rútan flytur hópinn á hótelið í Havana.

 • Vegalengd: u.þ.b. 62 km
 • Hæðarmunur: u.þ.b. + 559 m / -533 m
 • Morgun- & hádegisverður

3. nóvember | Frjáls dagur í Havana

Daginn í dag eigum við frjálsan í Havana. Þá er um að gera að ganga um gömlu borgina og njóta töfranna sem yfir henni svífa, skoða mannlífið og njóta þess að vera á þessum framandi og fagra stað. Borgin er uppfull af sögulegum stöðum og byggingum, söfnum og görðum. Við mælum með göngu eftir El Malecón strandlengjunni við miðborgina en frá henni er fínasta útsýni yfir flóann og ekki síður til fjölmargra merkra bygginga. Malecón nær alla leið frá höfninni til elsta borgarhlutans í Vedado. Í Vedado má finna dásamlega garða á borð við Colón kirkjugarðinn, hinn smáa og fallega John Lennon garð og El Nacinal lystigarðinn. Þeir sem þurfa hvíldar við eftir hjólreiðarnar geta slakað á við sundlaugarbakkann á hótelinu með Cuba libre drykk í hönd. Um kvöldið er um að gera að skella sér í dansskóna, snæða kvöldverð, finna stað sem spilar lifandi tónlist og taka einn snúning eða tvo.

 • Morgunverður

4. nóvember | Heimferð

Nú er komið að heimferð en flugið er þó ekki fyrr en í kvöld og því hægt að njóta dagsins í rólegheitum eða til að skoða sig enn betur um í borginni. Brottför frá flugvellinum í Havana kl. 23:50 og lending á Charles de Gaulle flugvelli í París kl. 13:55 að staðartíma þann 5. nóvember.

 • Morgunverður

5. nóvember | Charles de Gaulle flugvöllur – Keflavík

Flug áfram frá Charles de Gaulle flugvelli kl. 21:15 og lending í Keflavík kl. 23:55 að staðartíma. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00
Póstlisti