21. október - 5. nóvember 2023 (15 dagar)
Hér er boðið upp á magnaða hjólaferð til Kúbu, stærstu eyju Karabíska hafsins. Þessi fyrrum eftirlætisstaður Hemingway býr yfir töfrum, einhverri dulúð sem heillar alla. Það er ekki að ástæðulausu sem eyjan dregur til sín þúsundir ferðamanna ár hvert. Við byrjum og endum ferðina í hinni litríku og heillandi Havana borg þar sem m.a. verður farið í Miramar hverfið og að El Capitolio byggingunni sem svipar mjög til Hvíta hússins í Washington. Haldið verður til Las Terrazas en í þeirri einstöku náttúruperlu má til að mynda finna elstu kaffiakra Kúbu. Við heimsækjum einnig tóbaksbúgarð og njótum sólar og hita á baðströndunum Cayo Jutia og Playa Ancon en sú síðarnefnda er talin ein sú fallegasta á Kúbu. Á vegi okkar verða einstakir bæir á borð við Santa Clara, þar sem við skoðum minnisvarða um Che Guevara, og Trinidad þar sem litríkar götur, steinlögð stræti og iðandi markaðstorg heilla. Gist verður bæði á hótelum og í hefðbundnum kúbverskum heimagistingum þar sem við kynnumst gestrisni heimamanna og smökkum kúbverskan heimilismat. Hver dagur og sérhver leið mun birta okkur hinar ýmsu hliðar þessarar paradísar um leið og við kynnumst mannlífinu, mat, drykk, siðum og venjum heimamanna.