Útivist í Serfaus

Í suðurhlíðum Samnaun fjallgarðsins, u.þ.b. 1200 – 1400 m fyrir ofan hinn tírólska Inn dal, er að finna hið stórkostlega orlofssvæði Serfaus-Fiss-Ladis. Svæðið státar af flestum sólarstundum í Tíról eða yfir 2000 stundum á ári! Frábær staðsetning og einstakt úrval útivistar gerir þennan áfangastað að margra mati að einu fjölbreyttasta og besta útivistarsvæði í öllu Tíról. Á svæðinu eru göngu- og hjólaleiðir fyrir öll erfiðleikastig sem bjóða upp á stórkostlegt útsýni til allra átta. Gist verður í sjö nætur á glæsilegu austurrísku 4* alpahóteli með dásamlegri heilsulind, staðsettu í miðju fallega bæjarins Fiss. Boðið verður upp á fjórar miðlungserfiðar gönguferðir og eina spennandi rafhjólaferð. Í lok dags gefst tækifæri til að láta líða úr sér í einstakri heilsulind hótelsins. Við eigum einn frjálsan dag í ferðinni en þá er tilvalið að prófa aðra afþreyingu á svæðinu. Hér gefst einstakt tækifæri til þess að anda að sér fersku fjallalofti, njóta útiveru í tilkomumiklu landslagi og hreyfa sig í skemmtilegum félagsskap.

Verð á mann 248.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 17.700 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir milli flugvallarins í München og hótelsins í Fiss. 
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Afnot af baðslopp á meðan á dvöl stendur.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð. 
 • Síðdegishressing með kökum og léttum réttum á hótelinu.
 • Vel útilátinn 5 rétta kvöldverður.
 • Aðgangur að sundlaug og heilsulind hótelsins.
 • Leiga á hjóli og hjálmi í einn dag.
 • Sumarkort sem veitir aðgang að kláfum, söfnum, sundlaug og ýmsum fallegum svæðum. 
 • Göngudagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll (aðra en þá sem sumarkortið gildir fyrir).
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður á innan við 3 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og fólk mun klárlega njóta ferðarinnar betur ef það hefur æft og undirbúið sig fyrir ferð. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 20. ágúst. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 240 km til Fiss svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki u.þ.b. 4 klst. Á heimleið 27. ágúst verður ekið út á flugvöll og flogið heim kl. 14:05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16:00 að staðartíma.  

Tillögur að dagleiðum 21. – 26. ágúst

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga og einn hjóladag en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og aðstæðum. Að auki er einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu.

1. Karlspitze

Hópurinn kemur sér með göngurútu að bænum Ried þaðan sem farið verður með kláfi upp að Fendels sem er í rúmlega 1.350 metra hæð. Áfram höldum við svo með stólalyftu og njótum mikilfenglegs útsýnis á meðan við mjökum okkur upp í 1.870 metra hæð að Sattele. Frá Sattele ætlum við að ganga eftir göngustígum sem leiða okkur í gegnum skóga og með fram breiðum af alparósum þar til við nálgumst áfangastað dagsins, Karlspitze. Farið verður sömu leið til baka á hótelið.

 • Ferðalengd með kláfum: ca. 6 - 7 klst. 
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

2. Furglersee og Blankasee

Við förum með göngurútu að Serfaus og með kláfnum komum við okkur upp í tæplega 2.000 metra hæð, að Kölner Haus. Á leið okkar göngum við með fram skemmtilegu svæði þar sem múrmeldýr búa. Viðvörunarhljóð vakthafandi dýra munu hljóma í eyrum okkar og forvitnilegt er að sjá greni dýranna vítt og breitt um svæðið en klókleg hönnun þeirra þykir merkileg fyrir það hversu auðvelt það er að flýja ef hætta steðjar að. Áfram göngum við að Kitzköpfl áður en við komum að Furglersee og Blankasee sem liggja í tæplega 2.500 metra hæð.

 • Ferðalengd með kláfi: ca. 6 klst.
 • Erfiðleikastig: létt 

3. Hexensee

Eftir góðan morgunverð látum við ferja okkur með göngurútu að Serfaus, þaðan sem haldið verður með kláfi að Lazid, sem liggur í tæplega 2.350 metra hæð. Við hækkum okkur hægt og rólega með þægilegri göngu í gegnum fjölbreytt landslag, malareyri, göngustíga og græn svæði, þar til komið verður að sægrænu Hexensee vatninu. Hexensee skálinn er ekki langt frá og þar er um að gera að tilla sér aðeins á sólarveröndina og njóta. Útsýnið er magnað og fjallstindar umlykja svæðið hvert sem litið er, hæstur þeirra er Hexenkopf, 3.034 metrar.

 • Ferðalengd: ca. 5,5 klst. 
 • Erfiðleikastig: létt

4. Ascherhütte

Ascherhütte, eða Ascherskálinn, stendur á undurfögru og víðáttumiklu svæði í 2.256 metra hæð. Þangað liggur leið okkar í dag og byrjum við á ferð með kláfi upp að Fisser Joch. Við hefjum svo gönguna sjálfa sem liggur með fram grasengjum, grýttum gönguvegum og að dalsbotni Urgdalsins. Síðan höldum við áleiðis að Spinnscharte sem liggur í tæplega 2.700 metra hæð þaðan sem við njótum ævintýralega fallegs útsýnis yfir fjallavötnin og Urgdalinn. Leið okkar liggur svo niður á við þar til við komum loks að Ascherskálanum sjálfum. Farið verður niður með kláfi.

 • Ferðalengd með kláfi: ca. 6 klst.
 • Erfiðleikastig: létt  

5. Hjóladagur til Schönegg

Í dag ætlum við að færa okkur yfir á hjólahnakkinn og hjóla fallega leið sem hefst hjá Josefskapellunni í Fiss. Hjólað verður með fram fallega grænu heiðlendi að smábænum Ladis sem liggur í 1.180 metra hæð. Bærinn er þekktur fyrir uppsprettur súr- og brennisteins sem heimamenn státa sig mikið af og þykja mikil heilsubót. Á áframhaldandi ferð verða á vegi okkar aldagamlir og vel viðhaldnir bóndabæir. Við hjólum að öðrum fallegum smábæ, Obladis, og hækkar hjólaleiðin aðeins á þessari leið.

 • Ferðalengd með akstri: ca. 9 klst. 
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt 

6. Frjáls dagur

Á frídeginum er upplagt að nýta yndislegu aðstöðuna á hótelinu eða kanna umhverfið á eigin vegum, setjast á kaffihús og fylgjast með mannlífinu. Að sjálfsögðu er hægt að fara í léttar gönguferðir út frá hótelinu og getur fararstjóri eða starfsfólk hótelsins mælt með ferðum og gefið góð ráð.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Marelsdóttir

Íris er sjúkraþjálfari og leiðsögumaður og starfar sem yfirsjúkraþjálfari hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur verið gönguskíðaleiðsögumaður hjá Bændaferðum síðan 2005 og farið fjölmargar gönguskíðaferðir til Ramsau, Toblach og til Seefeld. Íris lauk leiðsögumannsprófi frá MK árið 2015 og hennar aðaláhugamál er útivist af öllu tagi og gönguleiðsögn að sumri sem að vetri. Hún fékk gott veganesti inn í fjallalífið sem björgunarsveitarmaður í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. 

Hótel

Hotel Chesa Monte

Hotel Chesa Monte er gott 4* heilsuhótel miðsvæðis í bænum Fiss. Allt árið um kring dregur þessi yndislega fallegi bær þúsundir gesta til sín sem vilja blanda saman fjölbreyttri útiveru í ógleymanlegri fjallafegurð. Stutt er í verslanir, kaffihús og góða veitingastaði. Herbergin eru hlýlega innréttuð í ekta alpastíl og eru með sturtu, nettengingu, sjónvarpi og síma og frábært útsýni er yfir bæinn og fjöllin í kring. Hótelið býður upp á dásamlega heilsulind, m.a. innisundlaug, nuddpott og ýmsar tegundir gufubaða. Í heilsulindinni er boðið upp á snyrti- og nuddmeðferðir gegn gjaldi.

Vefsíða hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00