Fjallahlaupaferð til Oberstdorf

Í þessari spennandi fjallahlaupaferð verður hlaupið umhverfis Oberstdorf, stórkostlega vel staðsetts bæjar í vesturhluta Alpanna á svæði nefndu Allgäu. Mýmargar, fjölbreyttar leiðir er hér að finna, á stígum og slóðum hvers konar, um skóga og engi, grýtt og grösugt fjalllendi. Oberstdorf, sem liggur í 813 m hæð yfir sjávarmáli, er spaðaás Fríríkisins Bæjaralands. Hann er vinsæll útivistar- og skíðabær rétt við landamæri Austurríkis, vel þekktur fyrir einstaklega gott loftslag og framúrskarandi loftgæði og er því viðurkenndur heilsubær. Á sumrin er svæðið afar vinsælt til fjallgöngu og fjallahlaup hafa orðið æ vinsælli með hverju árinu. Í ferðinni verður hlaupið á ýmsa þekkta toppa og má þar nefna Rubihorn, húsfjall heimamanna og eins verða vel þekktar og krefjandi leiðir farnar líkt og Walser Trail. Hér er aðalatriðið að hlaupa úti í náttúrunni langt frá hávaða og stressi hversdagsins og áskorunin er að klára magnaðar dagleiðir í þessu ótrúlega umhverfi. Þessi vika er tilvalinn undirbúningur fyrir hlaupara sem eru skráðir í Laugavegshlaupið 2019 og njóta leiðsagnar þjálfarans og reynsluboltans Sonju Sifjar og Sævars sem þekkir svæðið einstaklega vel. Gist verður hvort tveggja á hóteli og í fjallaskálum á svæðinu.  

Verð á mann 218.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 25.800 kr*.

*Skálagisting í alrými í 2 nætur, hvorki eins né tveggja manna herbergi í boði.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Lestarferðir til og frá flugvelli.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í 5 nætur á hóteli í Oberstdorf.
 • 5 morgunverðir á hóteli í Oberstdorf.
 • Skálagisting í 2 nætur með morgun- og kvöldverði*.
 • Hlaupadagskrá.
 • Fræðsla þjálfara um hlaupatækni í fjallahlaupum, næringu o.fl.
 • Kláfakort sem gildir á Oberstdorf/Kleinwalsertal svæðinu.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra.

Ekki innifalið

 • Máltíðir aðrar en þær sem nefndar eru sérstaklega undir innifalið.
 • Almenningsvagnar og aðrir kláfar en eru innifaldir í kláfakorti Oberstdorf.
 • Svefnlök í skálum.
 • Þjórfé.

  Tilgangur - undirbúningur

  Tilgangur ferðarinnar er í senn að njóta þess að hlaupa í stórbrotnu landslagi – sameina ástríðu okkar að hlaupa, upplifa mikla náttúrufegurð og á sama tíma kynnast stórkostlegu svæði. Ferðin er jafnframt hugsuð sem æfingaferð fyrir þá hlaupara sem stefna á þátttöku í utanvegahlaupum í sumar, t.d. Laugavegshlaupinu.

  Fararstjórar ferðarinnar, Sonja Sif og Sævar, sameina krafta sína til þess að tryggja að allir fái sem mest út úr ferðinni. Sævar er reyndur hlaupari sem þekkir staðhætti í nágrenni Oberstdorf mjög vel og Sonja Sif er reynslumikill hlaupaþjálfari og utanvegahlaupari. Þau eru tilbúin til að aðlaga ferðina eftir samsetningu hópsins hvað varðar hraða yfirferðar eða lengd dagleiða og því kann að vera að dagleiðir breytist frá því sem kemur fram í ferðalýsingunni.

  Hlauparar þurfa að vera í ágætis hlaupaformi og ráða við dagleiðir sem taka allt frá 2 upp í 5-6 klukkustundir. Ekki er gerð krafa um að hlaupari búi yfir miklum hraða heldur frekar að hann hafi hlaupagrunn til að ráða við að vera á ferðinni í allt að 5-6 klukkustundir. Ef
  samsetning hópsins krefst er mögulegt að skipta hópnum upp einhverja daga til að koma til móts við þarfir allra.

  Kort af ferðinni

  FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

  9. júní | Flug til München & lestarferð til Oberstdorf

  Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Farið verður með lest til Oberstdorf og má gera ráð fyrir að sú ferð taki um 3,5 klst. Gistum fyrstu 3 næturnar á 3* hóteli í hjarta Oberstdorf.

  10. júní | Rubihorn

  Þennan fyrsta hlaupadag okkar tökum við hring fyrir ofan Oberstdorf, upp á Rubihorn, staðarfjall bæjarins, en leiðin hefst við fætur Nebelhorn. Njótum þess að hlaupa á þessu frábæra svæði með einstakt útsýni til allra átta og fjallaloft beint í æð.

  • Lengd: 16,4 km
  • Hækkun/lækkun: +/- 1378 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

  11. júní | Walser Trail

  Þessi leið er hluti af Walser Trail Challenge og oft kölluð litli bróðir Walser ultra. Þessi leið hefur sinn eigin karakter og litlir bræður geta verið óstýrilátir eins og vitað er! Þessi leið kemur aldeilis á óvart og býður upp á frábæra og krefjandi slóða.

  • Lengd: 27,5 km
  • Hækkun: 1554 m
  • Lækkun: 1654 m
  • Erfiðleikastig: Erfitt
  Opna allt

  12. júní | Hörnerkette – Berghaus Schwaben

  Eftir morgunverð verður farið með rútu til Ofterschwang og þaðan hlaupið yfir svokallaðan Panorama slóða yfir Hörnerkette toppana. Með einstakt útsýni yfir Allgäuer Alpatoppana Hochvogel, Mädelegabel, Widderstein, Rotspitze, ættum við einnig að sjá inn í fjallaheim Tíról! Við fylgjum slóðanum sem liggur yfir Ofterschwanger Horn og þá Sigiswanger Horn, upp á Rangiswanger Horn, þaðan yfir Weiherkopf toppinn og að lokum upp á Großen Ochsenkopf. Þaðan höldum við niður að lokaáfanga dagsins, skálanum Berghaus Schwaben. Hlaupið verður með léttan bakpoka og farangur geymdur í Oberstdorf. Gist verður í fjallaskálanum Berghaus Schwaben þessa nótt.

  • Lengd: hátt í 25 km
  • Hækkun: 1300+ m
  • Lækkun: ca 600 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

  13. júní | Allgäuer Hochalpen – Fiderepasshütte

  Í dag hlaupum við frá Hörnerkette svæðinu inn á Allgäuer Hochalpen svæðið, stærsta þjóðgarð í Schwaben héraðinu og einn þann stærsta í Þýskalandi. Hlaupið verður á Riedberger Horn, Rohrmoos, yfir Hörnlepass og inn í Kleinwalsertal, Schwendle, Wildental og endar dagleið í skálanum Fidererpasshütte. Þar gistum við 1 nótt.

  • Lengd: 20-25 km
  • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

  14. júní | Oberstdorf

  Í dag hlaupum við frá Fiderepass Hütte til baka til Oberstdorf. Hlaupum frá skálanum í áttina að Kanzelwand, þá á Fellhorn, Söllereck og að lokum niður til Oberstdorf. Gistum síðustu tvær næturnar á hótelinu okkar í Oberstdorf.

  • Lengd: ca 20 km
  • Hækkun: ca 825 m
  • Lækkun: ca 2066 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

  15. júní | Frjáls dagur

  Eftir frábæra daga í fjöllunum gefst tækifæri til að hvíla sig og njóta umhverfisins við Oberstdorf. Hægt er að leigja sér hjól eða halda áfram hlaupunum. Innifalið í verði ferðarinnar er kort í kláfa svæðisins og væri því tilvalið að nýta sér þá fjölmörgu möguleika sem það felur í sér.

  16. júní | Heimferð

  Komið er að heimferð eftir góða hlaupadaga og hressandi útivist. Leggjum snemma af stað út á flugvöll og flogið verður heim frá München kl. 17:25. Lent í Keflavík er kl. 19:20 að staðartíma.

  Myndir úr ferðinni

  Fararstjórn

  Sævar Skaptason

  Sævar Skaptason hefur alla tíð verið mikið fyrir útivist. Hann byrjaði að starfa við ferðaþjónustu árið 1981 og var þá skálavörður í skála Ferðafélagsins í Langadal, Þórsmörk, til ársins 1986. Yfir sumartímann árin 1989 og 1990 starfaði hann einnig sem skálavörður í Landmannalaugum. Frá árinu 1998 hefur Sævar verið framkvæmdastjóri Hey Iceland - Bændaferða (áður ferðaþjónusta bænda).

  Sonja Sif Jóhannsdóttir

  Sonja Sif Jóhannsdóttir er reynslumikill hlaupari hvort heldur utan vega eða á malbiki. Hún hefur verið viðriðin hlaupaþjálfun undanfarin 26 ár. Síðastliðin 10 ár hefur Sonja einkum fengist við þjálfun hlaupahópa og hefur undanfarin ár séð um þjálfun og hlaupanámskeið hjá UFA – Eyrarskokki sem er staðsett á Akureyri. 

  Hótel

  Hotel Fuggerhof

  Hotel Fuggerhof er staðsett í jaðri bæjarins Oberstdorf en í einungis nokkurra mínútna göngufæri við lestarstöðina, göngugötuna og ýmis kaffi- og veitingahús. Herbergin eru öll búin sturtu, WC, góðum rúmum, litlum sófa,  hárþurrku, flatskjá, síma, útvarpi, þráðlausu neti (WiFi) og öryggishólfi. Á hótelinu er huggulegur veitingastaður í austurrískum stíl. 

  Skálagisting

  Gistum 1 nótt í skálanum Berghaus Schwaben, í 1520 m hæð á milli toppanna Weiherkopf og Riedbergerhorn. Gist verður í einföldum herbergjum. Sameiginleg snyrting.

  Gistum 1 nótt í skálanum Fiderepasshütte, í 2067 m hæð. Gist í svefnpokum í flatsæng.

  Senda fyrirspurn um ferð

  bokun@baendaferdir.is
  Síðumúla 2, 108 Reykjavík
  Sími: 570 2790

  Opnunartími þjónustusíma:
  Mán.-fös. 08:30-16:00