Hjólað um Brugge

9. – 16. júní 2018 (8 dagar)

Ævintýralegi miðaldarbærinn Brugge í Belgíu er einstök perla sem allir ættu að heimsækja að minnsta kosti einu sinni á ævinni; fornar byggingar, steinlögð stræti, vatnavegir og markaðstorg. Hér er veisla fyrir augun hvert sem litið er. Fegurðin teygir sig út til landsbyggðarinnar í kring, heillandi þorp, rómantískir kastalar, ár og síki. Við hjólum að þorpinu Damme, heimsækjum Knokke við Norðursjó og borgina De Haan og á leið okkar um flatlendið. Hér eru góðir hjólastígar hvarvetna og því tilvalið að fara allra sinna ferða hjólandi. Fararstjórinn, sem er þaulreyndur hjólagarpur mun í samstarfi við innlendan staðarleiðsögumann leiða hópinn um svæðið og fræða fólk um staðhætti.

Hjólaðir verða um 50 – 70 km á dag og áherslan verður á að njóta, ekki þjóta. Gist verður á 4* hóteli í útjaðri Brugge sem er sérlega vel staðsett fyrir allar hjólaleiðir.

Verð á mann í tvíbýli 198.400 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 33.300 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í Brussel og hótelsins í Brugge.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með sturtu/ baði á 4 stjörnu hóteli.
 • Morgunverður allan tímann á hóteli.
 • 6 kvöldverðir á hóteli.
 • Hjólaprógramm í 5 daga.
 • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 21 gíra hjóli með lás og tösku í 6 daga 11.800 kr.
 • Leiga á rafhjóli með lás og tösku í 6 daga 26.100 kr.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir og kvöldverður 12. júni.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

etta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 50 - 70 km og eru miðlungserfiðar. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum.  Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður erlendis. 

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

9. júní | Flug til Brussel

Brottför frá Keflavík kl. 7:40, en mæting er í Leifsstöð síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Brussel kl. 12:45 að staðartíma. Rúta bíður okkar og mun aka sem leið liggur til bæjarins Brugge, en leiðin er ríflega 100 km og því má gera ráð fyrir því að aksturinn taki um eina og hálfa klukkustund.

Tillaga að dagleiðum 10. – 15. júní

Hjalti Kristjánsson fararstjóri ferðarinnar, er reyndur hjólamaður og mun hann hafa innlendan, hjólaleiðsögumann sér til stuðnings. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir 5 hjóladaga auk eins hvíldardags. Fararstjóri mun í samráði við staðarleiðsögumann taka endanlegar ákvarðanir um val á dagleiðum eftir aðstæðum og hentugleika hverju sinni. 

10. júní | Þorpin í Flanders

Þennan fyrsta hjóladag munum við fara um fallegu sveitahéruðin í kring og sjá mikið af huggulegum sveitaþorpum, eins og t.d. Damme með sinn sögulega miðbæ. Damme er einnig þekkt fyrir listilega matargerð. Landslagið á þessu svæði einkennist af grænum engjum, vatnavegum, vindmyllum og trjágöngum, en allt er þetta á flatlendi.

 • Vegalengd: ca. 60 km
Opna allt

11. júní | D´Aertrycke og Wijnendaele kastalar

Ásamt því að halda áfram að njóta þessa græna landslags munum við sjá mjög áhugaverða kastala þennan dag. Sá fyrri er D´Aertrycke sem byggður var árið 1869 en hinn er Wijnendaele kastali sem er átta alda gamall. Wijnendaele er meira að segja með virkissíki og stendur á eyju í því miðju.

 • Vegalengd: ca. 70 km

12. júní | Frjáls dagur

Nú er komið að frídegi ferðarinnar. Farþegar geta hjólað hvert sem þeir kjósa á eigin vegum, t.d. er vanur hjólreiðamaður um klukkustund að hjóla frá hóteli til baðstrandabæjarins Blankenberge út við Norðursjó. Þar er margt að sjá og vel má þar eyða brot úr degi áður en hjólað er til baka. Þeir sem kjósa að hvíla alveg geta skoðað Brugge nánar. Áhugasamir um listir og menningu ættu t.d. að skoða Brugse Vrije, þangað er rúmlega 30 mín. gangur frá hóteli um borgina. Þá er hugmynd að fara jafnvel með lest til háskólabæjarins Ghent sem státar af heillandi miðaldabyggingum í miðbænum.

13. júní | Skipaskurðurinn frá Brugge til Ghent

Þessi friðsæla hjólaleið í trjágöngunum meðfram skipaskurðinum er einstaklega þægileg. Á leiðinni verður litið við í Male kastala sem áður fyrr hýsti æðstu ráðamenn á hverjum tíma, en er nú klaustur. Saga hans nær allt aftur til 9.aldar en þá var hann reistur til að verjast mætti tíðum innrásum víkinga úr norðri. Þá var kastalinn lítið annað en voldugur turn úr timbri en á 12. öld var mikil bygging reist úr steini. Þjóðverjar sáu gagnsemi staðarins í heimsyrjöldunum tveimur því í þeim báðum hernámu þeir kastalann.  

 • Vegalengd: ca. 50 km

14. júní | Ostend

Nú verður hjólað gegnum sveitahéruðin að stærsta hafnarbæ Belgíu. Hafnarborgin Ostend myndaðist á 12. Öld sem þorp og sjávarpláss á eynni Tsterep nálægt mynni árinnar Yser. Seinna á sömu öld var eyjan tengd meginlandinu og smám saman, með frekari fyllingu og stækkandi bæ hvarf eyjan. Frakkar hertóku Niðurlönd á sínum tíma og það leiddi til talsverðrar hnignunar, borgin varð ekki lengur eftirsótt hafnarborg. Frakkar byggðu þar mikla herstöð og snemma á 19. öld voru þar virki tvö, annað stendur enn og er kennt við Napoleon. Í dag er borgin vinsæll baðstrandabær með hvítar sandstrandir, sandhóla og melgresi, þar búa liðlega 70 þús. íbúar. Skemmtilegur hjólastígur liggur meðfram strandengjunni, en þetta er vinsæll sumardvalarstaður.

 • Vegalengd: ca. 65 km

15. júní | Lissewege og De Haan

Lissewege er huggulegt sveitaþorp sem byggt er á mjög röku svæði. Síki rennur í gegn um miðju þorpsins og húsin eru byggð á eikarstoðum. Mikið er um listamenn í þessum bæ. Áfram er haldið til De Haan en það er einstaklega heillandi strandbær með listilegum byggingum frá Belle Epoque tíma 19. aldar.

 • Vegalengd: ca. 55 km

16. júní | Heimferð

Strax eftir morgunmat verður lagt af stað út á flugvöll. Flug frá Brussel kl. 14:00 og lending á Íslandi kl. 15:15 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Hótel

Hotel Velotel Brugge

Gist verður á 4* hótelinu Velotel Brugge í útjaðri borgarinnar, en hótelið er sérlega vel staðsett fyrir aðgengi að hjólastígum svæðisins. Um 2,2 km eru að miðbæ Brugge. Herbergin eru rúmgóð og parketlögð. Þau eru að sjálfsögðu með baði/sturtu, minibar, sjónvarpi, öryggishólfi og loftkælingu. Ókeypis þráðlaus nettenging er á öllu hótelinu. Einnig er gufubað og líkamsræktaraðstaða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir