Á gönguskíðum í Seefeld

Vetrarfrí á gönguskíðum í skemmtilegum félagsskap og fallegu umhverfi er sannkallaður draumur útivistarfólks. Vetrarólympíubærinn Seefeld býður upp á allt það besta til að gera skíðagönguferðina þína að ógleymanlegu vetrarævintýri.

Svæðið við Seefeld er einstaklega fallegt. Skíðabrautir svæðisins eru 280 km langar í 1.200 – 1.550 m hæð yfir sjávarmáli, og henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Gist verður á huggulegu 4 stjörnu hóteli í bænum en þar er boðið upp á fjölbreyttan matseðil og þægileg herbergi. Á hótelinu er heilsulind með gufubaði, sauna og ýmsu fleira. Flogið verður með Icelandair til München og þaðan ekið sem leið liggur til Seefeld, um 160 km. Daglega verður farið í spennandi ferðir og er að sjálfsögðu hægt að velja hvort farið er með fararstjórum eða upp á eigin spýtur.  

Verð á mann í tvíbýli 188.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 34.900 kr.


Innifalið

 • Flug með Icelandair til München og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Seefeld.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með sturtu/baði á Hotel Karwendelhof.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð.
 • Kvöldverður með fjögurra rétta valmatseðli með salatbar og eftirréttahlaðborði. Boðið verður uppá eitt þemakvöld með hlaðborði.
 • Drykkir með kvöldverði, þ.e. vatn, gos, léttvín, bjór, te og kaffi.
 • Aðgangur að heilsulind hótelsins sem býður m.a. upp á mismunandi gufuböð.
 • Íslensk fararstjórn, þar sem fararstjórar verða með leiðbeiningar og hópnum innan handar.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir.
 • Aukagjald fyrir skíði í flug, 4.700 kr á fluglegg. 
 • Kaupa þarf sérstakt kort fyrir gönguskíðabrautir svæðisins (vikukort ca €10).
 • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Skíðasvæðið

Skíðasvæðið Seefeld er 3.300 manna bær í um 1.200 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi hlýlegi bær er einn vinsælasti ferðamannabærinn í Tíról. Seefeld hásléttan er umvafin Wetterstein-, Mieminger- og Karwendelfjöllunum en hér áður var þetta mikið vatnasvæði eins og nafn bæjarins ber með sér. Ólympíuleikarnir í norrænum greinum voru haldnir þarna 1964 og 1976 og heimsmeistarakeppnin árið 1999. Árin 2005, 2007 og 2008 var Seefeld valið besta gönguskíðasvæðið af 232 tilnefndum svæðum í Evrópu.

Á Seefeld svæðinu má finna fjöldann allan af gönguskíðabrautum með samanlagða lengd upp á 262 km og henta jafnt byrjendum sem og lengra komnum. Svæðið er fimm stjörnu gönguskíðasvæði og er snjóöruggt allt fram í byrjun apríl. Gönguskíðabrautirnar eru samtengdar fimm þorpum á svæðinu þ.e. Seefeld, Leutasch, Möseren, Reith og Scharnitz og því hægt að fara nýjar og spennandi leiðir á hverjum degi. Hægt er að fara í rómantíska skíðagöngu á kvöldin (milli 17:00 – 21:00), en 3 km löng upplýst braut liggur á milli bæjanna Seefeld og Mörsen. Einnig er upplagt að taka kláfinn upp á Rosshütte fjallið í 1784 m hæð og njóta stórfenglegs útsýnis til allra átta, en þar er vinsæll veitingaskáli.

 
Vefsíða Seefeld

Vefsíða skíðasvæðis Seefeld 

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München og tekur flugið um 4 klst. Þaðan eru 160 km til Seefeld, en það má gera ráð fyrir að rútuferðin taki um 2,5 klst.

03.02.2018      Keflavík – München      FI 532      07:20 – 12:05

10.02.2018      München – Keflavík      FI 533      13:05 – 16:00

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður var ekki há í loftinu þegar hún steig fyrst á skíði en skíðamennska hefur verið áhugamál hennar síðan. Mest hefur hún verið á svigskíðum og fjallaskíðum en undanfarin ár hafa gönguskíðin heillað meir og meir. Þegar ekki viðrar til skíðaiðkunar hleypur hún um borg og bý eða gengur til fjalla. Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hlaup, sund, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.
 
Anna Sigga hefur verið fararstjóri í nokkrum gönguskíðaferðum á vegum Bændaferða.

Steinunn H. Hannesdóttir

Steinunn H. Hannesdóttir er M.Sc. íþróttafræðingur að mennt. Hún kenndi íþróttir í skólum í nokkur ár en síðan var áherslan lögð á almenningsíþróttir, m.a. á líkamsræktarstöðvum og hjá öldruðum. Steinunn sá einnig um hlaupaþjálfun hjá Trimmklúbbi Seltjarnarness í 14 ár. Steinunn hefur starfað við heilsuþjálfun fólks í endurhæfingu á Reykjalundi síðan 2010.

Hótel

Hotel Karwendelhof

Hotel Karwendelhof er glæsilegt 4 stjörnu hótel sem er staðsett á göngugötu bæjarins Seefeld. Hótelið, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1930, var um tíma í eigu listmálarans Fritz Wilberger og má sjá mörg verka hans á veggjum hótelsins. Öll herbergin eru innréttuð í Tírólastíl og eru með baði/sturtu, sjónvarpi, útvarpi, síma, öryggishólfi og hárþurrku. Á hótelinu er nuddpottur, gufubað og eimbað þar sem tilvalið er að slaka á og eiga notalega stund. Boðið er upp á ljósabekki og nudd gegn gjaldi og virka daga er ókeypis aðgangur að Olympia sundlauginni sem er aðeins í 4 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu. Við hliðina á hótelinu er spilavítið Casino Seefeld þar sem hægt er að freista gæfunnar.
 
Vefsíða Hotel Karwendelhof

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00