Á gönguskíðum í Seefeld

Vetrarfrí á gönguskíðum í skemmtilegum félagsskap og fallegu umhverfi er sannkallaður draumur útivistarfólks. Seefeld býður upp á allt það besta til að gera ferðina að ógleymanlegu vetrarævintýri.

Svæðið við Seefeld er einstaklega fallegt og fjölbreytt. Skíðabrautir svæðisins eru um 280 km langar og í 1.200 – 1.550 m hæð yfir sjávarmáli og henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Gist verður á glæsilegu 4* hóteli í bænum en þar er boðið upp á fjölbreyttan matseðil og þægileg herbergi. Á hótelinu er heilsulind með úrvali gufubaða og sauna. Flogið er með Icelandair til München og ekið sem leið liggur til Seefeld en þangað eru um 160 km.

Verð á mann í tvíbýli 198.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 34.900 kr.


Innifalið

 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Seefeld.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Vel útilátinn fjögurra rétta kvöldverður ásamt salatbar.
 • Aðgangur að heilsulindinni.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Kaupa þarf sérstakt kort fyrir gönguskíðabrautir svæðisins (vikukort ca. €15 )
 • Aukagjald fyrir skíði í flug, 4.700 kr. á fluglegg
 • Hádegisverðir.
 • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Nánar um ferðina

Einar Ólafsson er skíðakennari í ferðinni. Hann er tvöfaldur ólympíufari, margfaldur Íslandsmeistari og hefur haldið utan um alla kennslu hjá skíðagöngufélaginu Ulli undanfarna vetur. Einar hefur einnig tekið þátt í fjölda almenningsganga bæði í Evrópu og norður Ameríku og býr yfir mikilli reynslu í fræðunum. Fyrir þá sem það vilja verður Einar með æfingar og kennslu flesta daga, bæði fyrir og eftir hádegi. Því er upplagt að nýta sér kennsluna hálfan daginn og æfa sig sjálfur hálfan daginn. Kennslan verður fjölbreytt og miðuð að getu hvers og eins. Þeir sem vilja frekar taka því rólega og njóta þess að skíða á sínum eigin forsendum í dásamlegu umhverfi gera það. Markmiðið er að allir njóti sín við bestu mögulegu aðstöðu sem Alparnir hafa upp á að bjóða. Í lok ferðar hafa þátttakendur möguleika á að framlengja ferðina á eigin vegum og taka þátt í König Ludwig Lauf, sem er ein skemmtilegasta skíðagöngukeppnin í hinni frægu Worldlopp mótaröð sem m.a. Fossavatnsgangan á Ísafirði er hluti af.

Skíðasvæðið Seefeld

Seefeld er 3.300 manna bær í um 1.200 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi huggulegi bær er einn vinsælasti ferðamannabærinn í Tíról. Seefeld hásléttan er umvafinn Wetterstein-, Mieminger- og Karwendelfjöllunum en hér áður var þetta mikið vatnasvæði eins og nafn bæjarins ber með sér. Ólympíuleikarnir í norrænum greinum voru haldnir þarna 1964 og 1976 og heimsmeistarakeppnin árið 1985. Heimsmeistarakeppnin í norrænum greinum verður haldin í Seefeld í lok febrúar og byrjun mars 2019. 

Á Seefeld svæðinu má finna fjöldann allan af skíðagöngubrautum enda eru skíðabrautir svæðisins 280 km langar sem henta jafnt byrjendum sem og lengra komnum. Svæðið er fimm stjörnu gönguskíðasvæði og er snjóöruggt allt fram í byrjun apríl. Skíðagöngubrautirnar eru samtengdar fimm þorpum á svæðinu þ.e. Seefeld, Leutasch, Möseren, Reith og Scharnitz og því hægt að fara nýjar og spennandi leiðir á hverjum degi. Einnig er upplagt að taka kláfinn upp á Roshütte fjallið í 1784 m hæð og njóta stórfenglegs útsýnis til allra átta, en þar er vinsæll veitingaskáli. 
 
Vefsíða Seefeld

Vefsíða skíðasvæðis Seefeld 

Flogið verður með Icelandair til München

Flogið verður með Icelandair til München þann 26. janúar. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 160 km til Seefeld svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 2,5 klst.  Á brottfarardegi leggjum við snemma af stað út á flugvöll og síðan er flogið heim kl. 13:05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16:00.

26.01.2019      Keflavík – München     07:20 – 13:05

02.02.2019      München – Keflavík     13:05 – 16:00

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður var ekki há í loftinu þegar hún steig fyrst á skíði en skíðamennska hefur verið áhugamál hennar síðan. Mest hefur hún verið á svigskíðum og fjallaskíðum en undanfarin ár hafa gönguskíðin heillað meir og meir. Þegar ekki viðrar til skíðaiðkunar hleypur hún um borg og bý eða gengur til fjalla. Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hlaup, sund, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.
 
Anna Sigga hefur verið fararstjóri í nokkrum gönguskíðaferðum á vegum Bændaferða.

Einar Ólafsson

Einar Ólafsson er fararstjóri og þjálfari í ferðinni. Hann er tvöfaldur ólympíufari, margfaldur íslandsmeistari og heldur utan um alla kennslu hjá skíðagöngufélaginu Ulli. Einar hefur einnig tekið þátt í fjölda almenningsganga bæði í Evrópu og norður Ameríku og býr yfir mikilli reynslu í fræðunum.

Hótel

Hotel Karwendelhof

Hotel Karwendelhof er glæsilegt 4 stjörnu hótel sem er staðsett á göngugötu bæjarins Seefeld. Hótelið, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1930, var um tíma í eigu listmálarans Fritz Wilberger og má sjá mörg verka hans á veggjum hótelsins. Öll herbergin eru innréttuð í Tírólastíl og eru með baði/sturtu, sjónvarpi, útvarpi, síma, öryggishólfi og hárþurrku. Á hótelinu er gufubað og eimbað þar sem tilvalið er að slaka á og eiga notalega stund. Boðið er upp á ljósabekki og nudd gegn gjaldi og virka daga er ókeypis aðgangur að Olympia sundlauginni sem er aðeins í 4 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu. Við hliðina á hótelinu er spilavítið Casino Seefeld þar sem hægt er að freista gæfunnar.
 
Vefsíða Hotel Karwendelhof

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir