Skíðagönguferð til Ramsau

Vetrarlandslagið í bænum Ramsau við Dachstein er einstaklega fallegt. Bærinn liggur á Ramsauer hásléttunni í 1000 –1300 m hæð og tignarlegir hvítir alpatindar gnæfa yfir til suðurs. Svæðið sem er snjóöruggt og sólríkt, er með betri gönguskíðasvæðum Alpanna. Skíðagöngubrautirnar teygja sig yfir þrjú mismunandi hæðarsvæði og því er svo sannarlega hægt að finna brautir við allra hæfi. Flogið verður með Wow air til Salzburg, en þaðan er rétt ríflega klukkustundar akstur til Ramsau. Gist verður 7 nætur á ekta austurrísku 4* alpahóteli sem býr yfir glæsilegri heilsulind. Skíðagöngubrautir liggja beint við hótelið og stutt er í verslanir og aðra þjónustu. Daglega verður boðið upp á spennandi ferðir en að sjálfsögðu velur hver og einn hvort farið er með fararstjóra eða eigin leiðir. Í þessari ferð fer saman útivist, hreyfing, góður matur og skemmtilegur félagsskapur í sannkölluðu ævintýralandslagi. 

Verð á mann í tvíbýli 198.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 17.400 kr.


Innifalið

 • Flug með Wow air og flugvallaskattar.
 • Ein ferðataska 20kg ásamt einni tösku í handfarangri, 0-5 kg.
 • Ferðir milli flugvallarins í Salzburg og hótelsins í Ramsau.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hóteli í Ramsau.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð með heilsuhorni.
 • Kökuhlaðborð síðdegis, án drykkja. 
 • Fjögurra rétta kvöldverður með valmatseðli, forrétta- og salatbar.
 • Aðgangur að heilsulind.
 • Íslensk fararstjórn, en fararstjóri leiðbeinir og verður hópnum innan handar.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir.
 • Kaupa þarf sérstakt kort fyrir gönguskíðabrautir svæðisins (vikukort € 36).
 • Aukagjald fyrir skíði í flug, 6.999 kr. á fluglegg.
 • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Skíðasvæðið Ramsau

Ramsau er snotur 2.800 íbúa bær sem liggur við rætur Dachstein jökulsins. Bærinn stendur á bjartri og sólríkri hásléttu sem er eins og risastór verönd hátt í fjöllunum. Þetta snjóörugga svæði er með sérlega góðar gönguskíðabrautir. Fjölbreytt úrval brauta sem spanna samtals um 220 km og liggja á þremur mismunandi hæðarsvæðum; Ramsauer Hochplateau í 1.200 m hæð, Almenregion í 1.700 m hæð og Dachsteingletscher í 2.700 m hæð yfir sjávarmáli. Allar þessar brautir hafa fengið gæðastimpil austurríska svæðisins Steiermark.

Á Dachstein jöklinum er útsýnispallur með veitingaskála en þangað er hægt að fara upp með kláfi og njóta stórfenglegs útsýnis til allra átta; það sést til Slóveníu til suðurs og Tékklands til norðurs. Á jöklinum er einnig að finna gönguskíðabrautir sem gaman er að spreyta sig á. Hið einstaka samspil ljóss og lita sem endurspeglast í jöklinum gerir Ramsau am Dachstein að sérlega fögrum stað sem eftirsóknarvert er að heimsækja.
 
Vefsíða Dachstein svæðisins

Flogið er til Salzburgar

Flogið verður með Wow air til Salzburg í Austurríki, en þaðan er ríflega klukkustundar keyrsla til Ramsau am Dachstein.
 
27.01.2018      Keflavík – Salzburg      WW 782      09:10 – 14:15

03.02.2018      Salzburg – Keflavík      WW 783      15:15 – 18:50

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Marelsdóttir

Íris Marelsdóttir er fædd árið 1961. Hún útskrifaðist sem sjúkraþjálfari frá HÍ 1986 og hefur starfað sem sjúkraþjálfari  hér heima og í Bandaríkjunum, meðal annars sem yfirsjúkraþjálfari á Reykjalundi og á Hjarta- og lungnastöðinni  í Reykjavík.

Árni Ingólfsson

Árni Ingólfsson er fæddur 1961 í Kópavogi. Hann er vélvirki, vinnur í vélsmiðjunni Héðni hf og sér um gæða- og öryggismál fyrirtækisins. Hann hefur verið félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi um 30 ára skeið og starfar þar með rústaflokki sem er hluti af íslensku alþjóðasveitinni. Útivist hefur hann stundað alla tíð og farið í jeppaferðir, gönguferðir, skíðaferðir og kayakferðir.

Hótel

Hotel Matschner í Ramsau

Gist verður allar næturnar á Hotel Matschner. Þetta hlýlega fjölskyldurekna 4* hótel í bænum Ramsau er vel staðsett, en gönguskíðabrautirnar liggja beint fyrir utan hótelið. Á hótelinu eru 68 hugguleg herbergi með baði (sturtu), útvarpi, sjónvarpi, síma, öryggishólfi og netaðgangi. Öll herbergin eru reyklaus og með svölum. Á hótelinu er vetrargarður, bar og verönd þar sem upplagt er að hittast og eiga notalega stund. Gestir hafa aðgang að stórri heilsulind sem er tengd við hótelið með undirgöngum. Þar er hægt að slaka á eftir góðan skíðadag. Í heilsulindinni er m.a. að finna sundlaug, setlaug, barnalaug og 600m2 saunasvæði með ýmis konar gufuböðum. Ennfremur er hægt að bóka ýmsar tegundir af nuddi gegn gjaldi. 

Vefsíða hótelsins

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00