Trítlað við Costa Brava

18. – 26. apríl 2019 (9 dagar)

Glæsileg gönguferð um Costa Brava sem er án efa ein af fallegustu ferðamannaströndum á Spáni og náttúrufegurðin lætur engan ósnortinn. Hún teygir sig frá landamærum Frakklands í rúmlega 200 km suður til borgarinnar Blanes. Óspilltar sandvíkur, stórbrotin klettaströnd og veðurbarðir tangar setja svip sinn á gullfallegu Costa Brava ströndina. Svæðið býður upp á frábærar gönguleiðir utan alfaraleiða, sumir segja þær bestu í Katalóníu. Þar má nefna gönguleiðina Camí de Ronda til Lloret de Mar sem er einn af líflegustu bæjum strandlengjunnar. Stórbrotin fegurð mætir okkur á leiðinni frá Tossa til heillandi bæjarins Sant Feliu de Guixols. Á göngunni munum við fara í gegnum aðlaðandi strandbæi og þorp og njóta dásamlegs útsýnis og friðsældar. Einnig göngum við um skóglendi fjallanna við Tossa en þar gælir endurkast glitrandi Miðjarðarhafsins við okkur. Á frídeginum er hægt að bregða sér til Figueres, fæðingarbæjar Salvador Dalí og skoða þar safn með ævintýralegum verkum hans. Síðasta deginum eyðum við í Barcelona þar sem við skoðum helstu kennileiti þessarar glæstu borgar Katalóníu.

Verð á mann í tvíbýli 298.800 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 61.800 kr.

Innifalið

 • 9 daga ferð.
 • Flug með WOW Air og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í Barcelona og hótela í Tossa de Mar og Barcelona.
 • 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hóteli í Tossa de Mar.
 • 1 nótt í tveggja manna herbergi með baði á 2 stjörnu hóteli í Barcelona.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • 7 kvöldverðir á hóteli í Tossa de Mar.
 • Göngudagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Leigubílaakstur.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Undirbúningur og gönguferðirnar

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Farið verður í skipulagðar gönguferðir með staðarleiðsögumanni en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða taka það rólega á hótelinu og njóta þess sem nágrennið hefur upp á að bjóða.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Flogið til Barcelona

Flogið verður með WOW Air til Barcelona þann 18. apríl. Brottför frá Keflavík kl. 07:00 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Barcelona kl. 13:30 að staðartíma. Frá flugvellinum í Barcelona eru rúmir 100 km til Tossa de Mar svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 1,5 klst. Á heimleið 26. apríl leggjum við snemma af stað út á flugvöll en flogið verður heim kl. 10:05 frá Barcelona. Lending á Íslandi kl. 13:00 að staðartíma.

Tillögur að dagleiðum 19. – 25. apríl

Hér á eftir eru tekin dæmi um mismunandi dagleiðir sem eru líklegar til að vera á dagskránni þessa viku. Gert er ráð fyrir tveimur frídögum.

Camí de Ronda - Lloret de Mar

Í dag verður gengin hluti leiðar GR 92 eða eins og Katalónar kalla Camí de Ronda. Þetta er gömul strandleið sem notuð var af sjómönnum, varðmönnum og smyglurum. Förum til baka með almenningsvagni.

 • Lengd: 11 km
 • Göngutími: ca 3,5 klst.
 • Hækkun: 150 m
 • Erfiðleikastig leiðar: létt
Opna allt

Girona

Deginum í dag ætlum við að eyða í borginni Girona. Farið verður þangað að morgni með rútu og förum við með fararstjóranum okkar í skoðunarferð um gamla miðbæinn sem minnir töluvert á völundargöng þegar gengið er um þröngar götur hans. Ferðumst aftur í tímann og skoðum líklega best varðveitta gyðingahverfi Evrópu, Call. Girona mætti líkja við konfektkassa af söfnum, galleríum og gotneskjum kirkjum, þ.á m. dómkirkju heilagrar Maríu af Girona sem er búin lengsta kirkjuskipi í heimi! Hægt verður að kanna borgina á eigin vegum eftir skoðunarferð eða taka þátt í göngu upp á hæðina fyrir ofan borgina áður en haldið verður aftur á hótel.

 • Göngutími (valfrjálst): ca 2 klst.
 • Hækkun: 150 m
 • Erfiðleikastig: létt

Sant Feliu de Guíxols

Í dag göngum við á ný hluta leiðarinnar GR 92 en nú til Sant Feliu de Guíxols, strandbæjar norðaustur af Tossa de Mar. Bærinn er sérlega ríkur af sögulegum arkitektúr en þar er m.a. að finna áhrifamikið klaustur frá 10. öld. Höldum okkur allan tímann á stígum ofan við sjóinn og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Costa Brava ströndina. Ekið með rútu til baka á hótel.

 • Lengd: ca 21 km
 • Göngutími: ca 6,5 klst.
 • Hækkun: 500 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs til erfitt

Camí del Aigua de Ruixons

Við göngum í fjalllendi inn til landsins á gönguleiðinni Camí del Aigua de Ruixons. Göngum um furu- og eikarskóga og fáum reglulega notið frábærs útsýnis út á sjó.

 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Lengd: ca 11 km
 • Hækkun: 350 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs til erfitt

Tossa – Barcelona

Í dag kveðjum við Tossa de Mar og förum með rútu til Barcelona. Þegar þangað er  komið verður farið í göngutúr um gamla miðbæinn og  gotneska hverfi hans, Barrior, hverfi sem býr yfir svo mikilli sögu, frábærum arkitektúr, dómkirkjunni og nokkrum hápunktum módernismans. Síðan tökum við fjallatoglest upp á Montjuic þar sem við fáum frábært útsýni yfir borgina og höfnina. Síðdegis gefst svo tími til að fara í könnunarleiðangur á eigin vegum og má þar nefna Sagrada Familia eða Parque Güell. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalsteinn Jónsson

Ég heiti Aðalsteinn Jónsson, kvæntur og þriggja sona faðir sem allir eru á kafi í fótbolta og fleiri íþróttum. Ég er lærður íþróttakennari og starfa við það í dag.

Ég starfaði í 10 ár sem fararstjóri, m.a. í Kempervennen Hollandi þar sem stílað var inn fjölbreytta afþreyingu fyrir barnafjölskyldur. Mikið var lagt upp úr alhliða hreyfingu - göngu- og hjólaferðir fyrir alla aldurshópa.

Hótel

Hotel Golden Mar Menuda

Gist er 7 nætur í Tossa de Mar á 4* Hotel Golden Mar Menuda. Hótelið er staðsett í lítilli, rólegri vík með beinum aðgangi að ákaflega fallegri, samnefndri strönd. Á hótelinu er veitingastaður, útisundlaug og verönd. Herbergin eru búin loftkælingu, síma, þráðlausu interneti, gervihnattasjónvarpi, hárþurrku, míníbar (fríir drykkir á komudegi) og öryggisskáp (gegn gjaldi).
Frá veitingastað hótelsins er frábært útsýni út á sjó. Hótelið var uppgert á árunum 2017 og 2018. Miðbær Tossa de Mar og aðalströndin eru í ca 350 m göngufæri frá hótelinu og stutt er í allar gönguleiðir.

Gist er 1 nótt á snyrtilegu 2* Keyhotel Amrey Sant Pau í Barcelona. Hótelið er staðsett nálægt Sagrada Família Gaudís. Öll herbergin eru búin loftkælingu, sjónvarpi, síma og þráðlausu interneti.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00