Trítlað um Keisarafjöllin

27. maí – 3. júní 2018 (8 dagar)

Fjalladýrðin umhvefis bæinn Kufstein í Tíról dregur til sín útivistarfólk allan ársins hring og ekki að ástæðulausu. Þessi huggulegi 18.000 manna bær stendur á bökkum árinnar Inn og yfir honum trónir mikilfenglegur kastali. Hér getur þú notið þess að ganga á skógarstígum eða yfir blómum skrýdd engi í námunda við snarbratta klettaveggi. Hin einstöku Keisarafjöll sem umlykja Keisaradalinn með sinni merku sögu eru við bæjardyrnar. Á svæðinu eru átta krúttleg alpaþorp sem kúra í hlíðum fjallanna og fjallaselin lokka til sín göngufúsa með gómsætum veitingum framleiddum af fjallabændum á svæðinu. Kláfar og skíðalyftur flytja okkur í hæstu hæðir þar sem tölt verður um í kyrrðinni með stórkostlegt útsýni yfir umhverfið. Gist er á sama hótelinu allan tímann, góðu 4* útivistarhóteli í alpastíl. Boðið er upp á úrvals mat úr hágæða hráefni af svæðinu. Á hótelinu er heilsulind með ýmsum tegundum gufubaða, ásamt Kneipp heilsubótaraðstöðu. Dásamleg ferð fyrir líkama og sál.

Verð á mann í tvíbýli 178.700 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 18.300 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Ebbs.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Vel útilátinn fjögurra rétta kvöldverður ásamt salatbar.
 • Aðgangur að heilsulindinni.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Leigubílaakstur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Svæðið Kufstein

Náttúruverndarsvæðið í Keisarafjöllum einkennist af engjum, skógum og vötnum. Árið 2016 var Keisaradalurinn valinn fegursti staður Austurríkis, en hann er sannkölluð göngu og útivistarparadís árið um kring. Hér er tilvalið að njóta fjallaloftsins og kyrrðarinnar í fjöllunum í góðum göngum. Einungis er 10 mínútna strætóferð inn til Kufstein sem er mjög huggulegur með steinlögð stræti, söguleg hús, áhugaverðar verslanir, veitinga- og kaffihús. Þaðan liggur kláfur upp á Keisarafjöllin. Þekktust er borgin fyrir Kufstein virkið sem trónir yfir bænum, en þar er svokallað Hetjuorgel, stærsta útiorgel í heimi sem leikið er á kl. 12 á hádegi flesta daga til minningar um öll fórnarlömb heimstyrjaldanna tveggja. 

Undirbúningur og gönguferðirnar

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi, en besti undirbúningurinn fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er að ganga upp að Steini í Esjunni einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og ánægjulega útiveru. 

Farið verður í skipulagðar gönguferðir með staðarleiðsögumanni, en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara
styttri leiðir á eigin vegum eða hreinlega taka því rólega á hótelinu og njóta þess sem heilsulindin og nágrennið hefur upp á að bjóða. Til að komast á upphafsstað göngu þarf iðulega að taka strætó og sömuleiðis á bakaleiðinni.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 27. maí. Brottför frá Keflavík kl. 7.20 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma (+2 klst. Frá flugvellinum í München eru um 120 km til Kufstein svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki tæpar 2 klst. Á brottfarardegi leggjum við af stað út á flugvöll eftir morgunverð og síðan flogið heim kl. 14.05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16.00. 

Tillögur að dagleiðum 28. maí – 2. júní

Hér á eftir eru tekin dæmi um 6 mismunandi dagleiðir sem eru líklegar til að vera á dagskránni þessa viku.

Ganga á Pendling fjall frá Thiersee

Þetta er fjallganga af léttara taginu, en gengið er á fjallið Pendling. Þótt fjallið sé ekki mjög hátt er útsýnið af toppinum einstakt. Gengið er frá kyrrláta fjallavatninu Thiersee eftir hlykkjóttum slóða upp fjallið í gegn um greniskóga. Þegar komið er á toppinn eru þar veitingahús og tilvalið er að fá sér hressingu á meðan við dáumst að útsýninu.

 • Göngutími: ca. 4 tímar
 • Hæðarmunur: ca 723m
 • Vegalengd: ca. 8,5 km
Opna allt

Dagsganga um Keisaradalinn

Lagt upp í Keisaradalinn frá Kufstein. Gengnar tröppurnar sem öldum saman voru eina leiðin inn í dalinn. Eftir skógarstígum höldum við upp í selið Ritzaualm þaðan sem er glæsilegt útsýni yfir fjallakórónuna sem umlykur dalinn. Næst liggur leiðin eftir stíg áleiðis niður í þröngan dalbotninn. Á leiðinn komum við við í hinum sögufræga helli Tischhofer Höhle þar sem fundust þjátíuþúsund ára gamlar mannvistarleyfar og bein af útdauðri bjarndýrstegund, en allt er þetta nú til sýnis í Kastalanum í Kufstein. 

 • Göngutími: ca. 6 tímar
 • Hæðarmunur: ca 500m
 • Vegalengd: ca. 9 km

Hringur um Juffinger Jöchl

Gengið er upp frá þorpinu Bad Häring, yfir tún og engi þar til komið er að fjallabýlinu Vorderlengau. Héðan liggur hlykkjóttur vegur gegn um skóginn og upp Paisslberg fjallið. Síðasti spölurinn upp að tindi Juffinger Jöchl 1182m er brattari. Á toppinum verður haldið til vesturs á gönguslóðum og skógarhöggsvegum þar til komið er að fjallaselinu Grausegg. Áfram á malarvegi yfir Werlberger engin aftur niður í dalinn. Gangan endar í heilsubótargarðinum í Bad Häring.

 • Göngutími: ca. 5 tímar
 • Hæðarmunur:ca 700m
 • Vegalengd: 12 km

Á toppi Keisarafjallana, Steinbergalm

Farið verður með Kaiserlift kláfinum upp á topp. Þar er farið í hringferð í fjallasölunum á toppinum með dýrðlegt útsýni til allra átta, fyrst á skógarhöggsvegum, en síðan liggur brattur slóði upp Gamskogel. Eftir ca. 45 mínútna göngu á þessum slóða komum við að
Himmelschauen eða himnasýn þar, sem við tökum smá pásu áður en við höldum áfram til Steinberg selsins þar sem gott verður að fá sér hressingu. Fleiri fjallasel verða á vegi okkar á bakaleiðinni aftur að endastöð kláfsins.

 • Göngutími: ca 3 tímar
 • Hæðarmunur: ca 500m
 • Vegalengd: ca 9,5 km

Fjallanga á Kranzhorn

Kranzhorn fjallið er hentug gönguleið fyrir unga sem aldna. Gengið er á malarvegum upp aflíðandi hlíð. Á toppinum eru tveir krossar sem marka toppinn, einn fyrir Þýskaland og einn fyrir Austurríki, þar sem fjallið stendur á landamærunum. Kranzhorn veiðimannakofinn býður upp á hressandi veitingar.

 • Göngutími: ca. 3,5 tímar
 • Hæðarmunur: ca. 500 m
 • Vegalengd: ca 9. km

Sonnwendjoch fjall

Við hefjum gönguna í fjallaseli sem hýsir þá ostagerð í Tíról sem er í hvað mestri hæð. Héðan göngum við til austurs og förum fljótlega inn á skógarveg. Brekkan er aflíðandi þar til komið er að Wildenkar seli, en eftir það sækir á brattann. Af toppi fjallsins er dásamleg sýn til allara átta. Áfram sömu leið en síðan framhjá Bärenbad seli og að Ackern seli þar sem tilvalið er að fá sér hressingu með ostinum úr ostagerðinni.

 • Göngutími: ca 6 tímar
 • Hæðarmunur: ca 800m
 • Vegalengd: ca 11 km

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki og Færeyjar. 

Hótel

Hotel Postwirt í Ebbs

Gist verður á 4* hótelinu hotel Postwirt í Ebbs, skammt frá Kufstein. Þetta huggulega fjölskyldurekna hótel er innréttað í hlýlegum alpastíl sem er einstaklega notalegur. Stór garður með legubekkjum er bakvið hótelið þar sem gott er að njóta sólarinnar. Í garðinum er vatnslind nýtt í Kneipp heilsubótaraðstöðu, en Kneipp byggir á þeirri kenningu að það sé mikil heilsubót fyrir blóðrásina af köldum handa- og fótaböðum. Á hótelinu er úrvals heilsulind með góðri afðstöðu til að láta líða úr sér eftir góða göngu; eimbað með ilmi, finnsk sauna, saltvatnseimbað, innrauður klefi, hitabekkir, hvíldarherbergi, ljósastofa, tebar og eðalsteinavatn.

Boðið er upp á ýmsar heilsu- og snyrtimeðferðir gegn gjaldi. Gestrisni hóteleigendana kemur berlega í ljós þegar kemur að því að reiða fram dýrindis máltíðir. Kvöldverðurinn er fjögurra rétta en hægt er að velja milli rétta og morgunverðarhlaðborðið er ríkulegt. Herbergin eru með baði/sturtu, hárþurrku og sjónvarpi með gervihnattastöðvum. Gestir fá baðslopp til afnota á meðan á dvölinni stendur.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir