Á gönguskíðum við Achensee

Vetrarfrí á gönguskíðum í skemmtilegum félagsskap, í fallegu umhverfi er sannkallaður draumur og eitthvað sem allt skíðagöngufólk ætti að upplifa.

Achensee er eitt af bestu skíðagöngusvæðum Austurríkis og eru skíðabrautir svæðisins 201 km langar, á öllum erfiðleikastigum. Svæðið við Achensee er einstaklega fallegt, enda dalurinn umlukinn tignarlegum fjöllum á nánast alla vegu. Gist verður á 4* hóteli í bænum Pertisau sem er sá bær við vatnið sem býður upp á bestu skíðagönguaðstöðuna. Brautirnar eru rétt við hótelið og hægt er að drífa sig út á skíði og njóta útivistarinnar strax eftir morgunverð. Aðstaðan á hótelinu er til fyrirmyndar, þar er góð heilsulind með sundlaug, nokkrum tegundum gufubaða og afslöppunarsvæði þar sem gestir geta slakað á eftir ánægjulegan dag. Flogið er með Icelandair til München, en þaðan eru rétt um 140 km til Achensee. Daglega verður farið í spennandi ferðir og er að sjálfsögðu hægt að velja hvort farið er með fararstjórum eða upp á eigin spýtur. Ferðin hentar bæði byrjendum sem lengra komnum og munu fararstjórarnir bjóða áhugasömum upp á létta kennslu í ferðinni.

Verð á mann í tvíbýli 199.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 19.600 kr.


Innifalið

 • Flug með Icelandair til München og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Pertisau við Achensee.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hóteli í Pertisau við Achensee.
 • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð.
 • Fjögurra rétta kvöldverður ásamt salathlaðborði.
 • Aðgangur að upphitaðri útisundlaug hótelsins.
 • Aðgangur að heilsulind hótelsins.
 • Íslensk fararstjórn, þar sem fararstjórar sem verða með leiðbeiningar og hópnum innan handar.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir.
 • Aukagjald fyrir skíði í flug, 4.700 kr á fluglegg.
 • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Skíðasvæðið Achensee

Achensee er eitt af bestu gönguskíðasvæðum Austurríkis, enda eru skíðabrautir svæðisins 201 km langar, á öllum erfiðleikastigum, en aðallega þó bláar og rauðar brautir. Svæðið er í dalnum Achental sem er umlukinn tignarlegum fjöllum á nánast alla vegu sem dregur ferðamenn til sín allan ársins hring. Bæirnir við vatnið, sem er 6,8 km² að stærð, eru 5 og þó 3 þeirra séu með rúmlega 2.000 íbúa er það Pertisau sem er þekktastur fyrir bestu aðstöðuna til gönguskíðaiðkunar. Íbúar Pertisau eru ekki nema 596 en þar munum við einmitt gista á hóteli þar sem ein skíðabrautin er alveg við hótelið.

Brautirnar sem eru í 940 – 1.200 m hæð liggja almennt séð inn í dalina umhverfis vatnið og er tenging yfir til Maurach, eins stærri bæjanna. Skíðastrætóinn stoppar einnig beint fyrir utan hótelið og með gestakortinu sem er innifalið í gistingunni getum við tekið skíðastrætóinn yfir til Achenkirch og Steinberg, en gestakortið veitir okkur einnig frían aðgang að öllum brautum svæðisins. Það er að sjálfsögðu hægt að leigja gönguskíði í bænum Pertisau og þar eru jafnframt skíðaskólar sem bjóða upp á sérstök gönguskíðanámskeið og einkakennslu. Árlega eru haldnar skíðagöngukeppnir við Achensee, en til gamans má geta að eitt þekktasta fjallahlaup Austurríkis fer einnig fram á svæðinu á sumrin.

Vefsíða Achensee svæðisins

Flogið til München

Flogið verður með Icelandair til München og tekur flugið um 4 klst. Þaðan eru 143 km til Pertisau við Achensee, en það má gera ráð fyrir að rútuferðin taki um 2 ½ klst.

17. febrúar          Keflavík – München           FI 532           07:20 – 12:05
24. febrúar          München – Keflavík           FI 533           13:05 – 16:00

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður var ekki há í loftinu þegar hún steig fyrst á skíði en skíðamennska hefur verið áhugamál hennar síðan. Mest hefur hún verið á svigskíðum og fjallaskíðum en undanfarin ár hafa gönguskíðin heillað meir og meir. Þegar ekki viðrar til skíðaiðkunar hleypur hún um borg og bý eða gengur til fjalla. Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hlaup, sund, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.
 
Anna Sigga hefur verið fararstjóri í nokkrum gönguskíðaferðum á vegum Bændaferða.

Katrín Árnadóttir


Katrín Árnadóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Hún lauk námi í hjúkrunarfræði árið 2011 og hefur starfað við hjúkrun síðan en síðustu 2 sumur hefur hún einnig starfað sem flugfreyja hjá Icelandair. Hún er gift Jens Þór og saman eiga þau tvo syni og hundinn Mikka. Katrín átti sínar helstu fyrirmyndir í skíðagöngu á uppvaxtarárunum á Ísafirði og fór svo sjálf að æfa íþróttina um 10 ára aldur. Í dag nýtur hún þess að fara með fjölskyldunni á skíði, bæði svig og göngu, auk þess sem þau hjóla saman upp um fjöll og firnindi þess á milli. Katrín hlaut inngöngu í fjölþrautafélagið Landvættir sumarið 2013 og hún hefur áhuga á hverskyns hreyfingu og útivist; skíðagöngu og skíðum, göngum, hlaupi og hjólreiðum.

Hótel

Hotel Auszeit

Gist verður í 7 nætur á hinu glæsilega 4* Hotel Auszeit í bænum Pertisau við Achensee. Öll herbergin eru útbúin flatskjá, útvarpi, síma og baðsloppi. Gestir fá afnot af 500 fermetra heilsulind sem búin er mismunandi gufuböðum, sauna, slökunarsal og upphitaðri útisundlaug þar sem upplagt er að láta skíðaþreytuna líða úr sér eftir góðan dag í brautunum. Hægt er að panta tíma í nudd eða hinar mismunandi heilsumeðferðir gegn gjaldi. Á hótelinu er glæsilegt morgunverðarhlaðborð og fjögurra rétta kvöldverður, ásamt salathlaðborði, sem verður framreiddur á veitingastað rétt við hótelið. Hotel Auszeit er vel staðsett fyrir skíðagöngufólk, en aðeins örfáir metrar eru að brautunum.

Vefsíða Hotel Auszeit

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00