Svigskíðaferð til Serfaus-Fiss-Ladis

Í suðurhlíðum Samnaun fjallgarðsins, u.þ.b. 1200 – 1400 m fyrir ofan hinn tírólska Inn dal, er að finna hið stórkostlega skíðasvæði Serfaus-Fiss-Ladis. Frábær staðsetning og einstakt úrval útivistar gerir þennan áfangastað að margra mati að einu fjölbreyttasta og besta útivistarsvæði í öllu Tíról. Snjóhvítar skíðabrekkurnar eru um 214 km að heildarlengd og eru af ýmsum erfiðleikastigum sem eflaust mun veita skíðafólki mikla ánægju. Svæðið státar einnig af flestum sólarstundum í Tíról eða yfir 2000 stundum á ári! Flogið er með Icelandair til München og haldið beina leið til Fiss á hótelið okkar. Gist verður í sjö nætur á glæsilegu austurrísku 4* alpahóteli með dásamlegri heilsulind, staðsettu í miðju fallega bæjarins Fiss. Í lok dags gefst tækifæri til að láta líða úr sér í einstakri heilsulind hótelsins. Fararstjórinn er með hópnum alla ferðina, gistir á sama hóteli og sér um að skipuleggja skíðaferðir fyrir þá sem það vilja. Hér gefst einstakt tækifæri til þess að anda að sér fersku fjallalofti og skíða í tilkomumiklu landslagi og skemmtilegum félagsskap.

Verð á mann í tvíbýli 389.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 27.200 kr.

428.500 kr. á mann í tvíbýli í Alpine Suite - deluxe herbergi í nýbyggingu með suðursvölum.


Innifalið

 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Fiss.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli í Fiss.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Síðdegishressing með góðgæti úr bakaríi fjölskyldunnar.
 • Vel útilátinn fimm rétta kvöldverður.
 • Aðgangur að heilsulind hótelsins.
 • Baðsloppur.
 • Hótelskutla upp í lyftustöð bæjarins.
 • Skápur fyrir skíði og skó við aðallyftu
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir.
 • Aukagjald fyrir skíði í flug 4.700 kr á fluglegg.
 • Skíðapassi (6 daga skíðapassi fyrir fullorðinn ca € 323).
 • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Skíðasvæðið

Skíðabærinn Fiss er einn af bæjunum þremur sem mynda Serfaus-Fiss-Ladis skíðasvæðið.
Skíðabrekkur svæðisins eru samtals um 214 km á öllum erfiðleikastigum og ættu því allir að geta fundið brekkur við sitt hæfi. Skíðasvæðið liggur frá 1.200 m upp í 2.828 m yfir sjávarmáli og er þekkt fyrir snjóöryggi. Lyftur og kláfar eru 68 talsins og tryggja öllu skíðafólki gott aðgengi. Á svæðinu eru einnig mörg skemmtileg svæði fyrir snjóbretta- og „freestyle“ skíðafólk. Aðalskíðalyfta svæðisins er í göngufæri frá hótelinu en einnig býður hótelið upp á skutl að lyftustöðinni. Við lyftustöðina í bænum er einnig frábær skíðageymsla þar sem hægt er að geyma allan skíðabúnað í upphituðum skíðaskápum. Fararstjóri ferðarinnar mun aðstoða samferðamenn við að leigja skíði, kaupa skíðapassa og fara í skíðakennslu við hæfi. Fyrir þá sem vilja mun hann einnig skipuleggja skíðaferðir um svæðið, þar sem hægt er að fylgja hópnum hluta úr degi eða allan daginn. Hann mun síðan að sjálfsögðu gera eitthvað skemmtilegt með hópnum.

Vefsíða Serfaus-Fiss-Laden svæðisins.

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 27. janúar. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 240 km til Fiss svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki u.þ.b. 3,5 klst. Á brottfarardegi leggjum við snemma af stað út á flugvöll og síðan er flogið heim kl. 13:05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16:00. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sævar Skaptason

Sævar Skaptason hefur alla tíð verið mikið fyrir útivist. Hann byrjaði að starfa við ferðaþjónustu árið 1981 og var þá skálavörður í skála Ferðafélagsins í Langadal, Þórsmörk, til ársins 1986. Yfir sumartímann árin 1989 og 1990 starfaði hann einnig sem skálavörður í Landmannalaugum. Frá árinu 1998 hefur Sævar verið framkvæmdastjóri Hey Iceland - Bændaferða (áður Ferðaþjónusta bænda).

Hótel

Hotel Chesa Monte

Hotel Chesa Monte er gott 4* heilsuhótel miðsvæðis í bænum Fiss. Allt árið um kring dregur þessi yndislega fallegi bær þúsundir gesta til sín sem vilja blanda saman fjölbreyttri útiveru í ógleymanlegri fjallafegurð. Stutt er í verslanir, kaffihús og góða veitingastaði. Herbergin eru hlýlega innréttuð í ekta alpastíl og eru með sturtu, nettengingu, sjónvarpi og síma og frábært útsýni er yfir bæinn og fjöllin í kring. Hótelið býður upp á dásamlega heilsulind, m.a. innisundlaug, nuddpott og ýmsar tegundir gufubaða. Í heilsulindinni er boðið upp á snyrti- og nuddmeðferðir gegn gjaldi.

Vefsíða hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir