Svigskíðaferð í Zillertal

9. – 16. febrúar 2019 (8 dagar)

Skíðaferðir Bændaferða til Austurríkis hafa verið geysivinsælar undanfarin ár, en að þessu sinni höldum við til Lanersbach í Zillertal. Skíðasvæðið í Zillertal liggur í allt að 3250 m hæð yfir sjávarmáli og er því talið eitt af snjóöruggustu skíðasvæðum Austurríkis. Svæðið skiptist í fimm svæði en skíðabrekkurnar eru um 227 km, í öllum erfiðleikastigum og gott net er af afbragðs lyftum og kláfum sem ætti að tryggja öllum skíðamönnum gott skíðafrí.

Gist er á glæsilegu 4* hóteli í austurrískum stíl þar sem innifalið er morgunverðarhlaðborð og kvöldverður með mismunandi valmatseðli á hverju kvöldi. Í vikunni verður bæði boðið upp á hátíðar- og fondue kvöldverð á hótelinu. Hótelið býður upp á góða heilsulind, stutta ferð með skíðarútu á öll helstu skíðasvæðin í dalnum og einnig er stutt að ganga í miðbæinn. Fararstjórar eru með hópnum alla ferðina, gista á sama hóteli og sjá um að skipuleggja skíðaferðir fyrir þá sem það vilja.

Verð á mann í tvíbýli 229.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 24.400 kr.


Innifalið

 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Zillertal.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Kaffi og kökur seinnipartinn á hótelinu.
 • Vel útilátinn margrétta kvöldverður ásamt salatbar.
 • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin hefur upp á að bjóða.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir.
 • Aukagjald fyrir skíði í flug 4.700 kr á fluglegg.
 • Skíðapassi (6 daga skíðapassi fyrir fullorðinn ca. € 257).
 • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Skíðasvæðið Tux í Zillertal

Skíðasvæðið Tux í Zillertal samanstendur af 5 skíðasvæðum, Eggalm, Rastkogel, Penken, Horberg og Hintertux jöklinum. Skíðabrekkur svæðanna eru samtals um 227 km í öllum erfiðleikastigum og ættu því allir að geta fundið brekkur við sitt hæfi. Gott byrjenda- og barnasvæði (mikið af bláum brekkum) er á Rastkogel svæðinu. Fyrir vana skíðamenn er upplagt að byrja á Hintertux jöklinum og skíða í gegnum „svörtu pönnuna“ alveg niður í dalinn. Einnig er hægt að njóta yndislegs útsýnis þegar skíðað er niður á Penken/Horberg svæðinu. Á svæðinu eru þrjár upplýstar sleðabrekkur og tveir snjóbretta- og „freestyle“garðar (Van Penken Park sem er einn sá stærsti í Evrópu og Eldorado).

Skíðasvæðið liggur frá 1300 m upp í 3250 m yfir sjávarmáli og telst því til snjóöruggustu svæða Austurríkis. Sævar, fararstjóri ferðarinnar, mun aðstoða samferðamenn við að leigja skíði, kaupa skíðapassa og fara í skíðakennslu við hæfi. Fyrir þá sem vilja mun hann einnig skipuleggja skíðaferðir um svæðið, þar sem hægt er að fylgja honum hluta úr degi eða allan daginn. Hann mun síðan að sjálfsögðu gera eitthvað skemmtilegt með hópnum og má þar nefna ómissandi sleðaferð og kvöldgöngu.

Flogið til München

Flogið verður með Icelandair til München. Frá flugvellinum í München eru um 200 km til Zillertal svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 3 klst.

09. febrúar      Keflavík – München      FI532      07:20 – 12:05
16. febrúar      München – Keflavík      FI533      13:05 – 16:00

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sævar Skaptason

Sævar Skaptason hefur alla tíð verið mikið fyrir útivist. Hann byrjaði að starfa við ferðaþjónustu árið 1981 og var þá skálavörður í skála Ferðafélagsins í Langadal, Þórsmörk, til ársins 1986. Yfir sumartímann árin 1989 og 1990 starfaði hann einnig sem skálavörður í Landmannalaugum. Frá árinu 1998 hefur Sævar verið framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda.

Hótel

Hotel Tuxertal

Hotel Tuxertal er glæsilegt fjögurra stjörnu alpahótel í austurrískum stíl. Hótelið er heimilislegt og eru öll herbergin með sturtu/baðkari, sjónvarpi, öryggishólfi, hárþurrku og síma. Baðsloppar eru á herbergjum.
Á hótelinu er einnig heilsulind með innisundlaug, gufuböðum og svæði sem gott er að slappa af og fá sér te eða ávaxtasafa eftir góðan dag í fjöllunum. Eins er boðið upp á setustofu þar sem m.a. er hægt er að spila biljarð, fótboltaspil og borðtennis.

Á hótelinu er hlýlegur veitingastaður ásamt bar og kaffistofu þar sem m.a. boðið er upp á girnilegan heimabakstur og ljúffenga ísrétti.

Hótelið er staðsett í bænum Lanersbach. Um 15 mín. ganga er í miðbæinn og í næstu verslanir. Falleg, upplýst göngubraut liggur meðfram bæjarlæknum inn í miðbæinn.
Það tekur fríu skíðarútuna einungis 2 mín. að keyra frá hótelinu að helstu skíðalyftunum í dalnum og fyrir þá sem vilja fara upp á jökulskíðasvæðið þá gengur frí skíðarúta á 15 mín. fresti og tekur sú ferð u.þ.b. 15 mín. upp að lyftu.

Vefsíða hótelsins

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir