Trítlað um Írland

28. ágúst – 4. september 2018 (8 dagar)

Í þessari ferð upplifum við eyjuna grænu, Írland, fjölbreytt og heillandi landslag í vestur hluta landsins.

Við dveljum fjórar nætur í Tralee, ljómandi stað við samnefndan flóa. Þaðan er hópurinn fluttur á merka staði sem gengið er um. Fyrst er gengin svonefnd Dingle leið á nesi út í Atlantshafið. Landslagið við rætur Eagle fjalls er stórkostlegt og frá Slea Head sér vel til Blasketeyja. Frá hafi liggur leið í Killarney þjóðgarðinn þar sem gengin er hin fornfræga leið Old Kenmere Road. Notalegt er að hverfa þar frá ys og þys samfélagsins og njóta náttúrunnar eins og hún hefur verið ósnert öldum saman. Frá Dunloe skarði liggur leiðin niður að þjóðgarðsvötnum sem tengjast saman með stuttum ám. Tígulegir tindar hæsta fjalls Írlands, Magillycuddy´s Reeks vakta gönguleiðina alla leið. Við snæðum hádegismat á vatnsbakka og siglum síðan á vötnunum og skoðum merka staði m.a. Rosskastalann. Við förum hina frægu göngu Kilbaha Loop Walk í Clare héraði. Hrikaleg björgin á Moher ströndinni minna rækilega á magnþrunginn mátt náttúrunnar og eru hluti einkar fagurs svæðis þar sem björgin, úfið haf og smáeyjar leika aðalhlutverkin. Í lok ferðar er dvalið í Dublin þar sem svo ótal margt er að upplifa og skoða.

Verð á mann í tvíbýli 209.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 32.800 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Rútuferðir samkvæmt leiðarlýsingu.
 • Gisting í herbergjum með baði á 3* hótelum.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Kvöldverðarsýning með tónlist og dansi í Dublin síðast kvöldið
 • Göngudagskrá.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Bátsferð á Killarney vatni ca. € 10.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi, en besti undirbúningurinn fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er að ganga upp að Steini í Esjunni einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

28. ágúst | Flug til Dublin – Tralee

Flogið verður með Icelandair til Dublin. Brottför frá Keflavík kl. 7:30 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Dublin kl. 10:50 að staðartíma. Frá flugvellinum eru um 300 km til Tralee svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki amk 3.5 klst. Gist verður 4 nætur í Tralee. Þessi rúmlega 20.000 manna bær hefur yfir sér rómantískan sveitablæ. Til er lag um Rósina af Tralee, sem er um fallega stúlku. Samnefnd hátíð er haldin hér í bænum á ári hverju.

29. ágúst | The Dingle Way (Dingle leiðin)

Að loknum morgunverði er ekin skemmtileg leið í þorpið Ventry. Þar hefjum við gönguna eftir sandströnd. Eftir rúma 2 km verður fastara undir fæti þar sem komið verður á Slea Head Rd. Við þræðum sveitavegi nokkurn spöl uns einstaklega hrífandi gönguleið hringinn við rætur Mt. Eagle fjallsins tekur við. Þar blasir við okkur fögur sýn bæði inn á landið og út til hafs. Þegar komið er fyrir syðsta oddann, Slea Head, birtast Blasketeyjarnar smám saman út við sjóndeildarhringinn. Víða er áð á leiðinni til að skoða og dást að öllu því sem fyrir augu ber. Síðasti hluti leiðarinnar er á sveitavegum þar til komið er að bryggjunni við Dunquin sem prýðir fjölda póstkorta og þykir gott dæmi um fegurð Írlands. Í bænum sjálfum er minjasafn þar sem fræðast má um angurværa sögu Blasket eyjanna. Ekið aftur til Tralee.

 • Göngutími: ca. 4-5 klst.
 • Vegalengd: ca. 15 km
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

30. ágúst | Old Kenmare Road (Gamli Kenmare vegurinn)

Dagleiðin í dag er um Killarney þjóðgarðinn. Hópurinn fluttur af hóteli stutta en áhugaverða leið að Torc fossum í þjóðgarðinum, en þar hefst gangan. Leiðin er hluti af forna stígnum Kerry Way, 200 km langur slóði sem upphaflega var lagður til að tengja þorpið Killarney við Kenmere þorpið hjá samnefndum flóa. Þessi töfrandi leið mun flytja okkur aftur í tíma og í faðm náttúrunnar. Þessi leið er einstök hvað varðar fjölbreytilegt landslag, gróður og dýralíf. Hluti leiðar er skógi vaxinn með nöktum klöppum hér og hvar þar sem greina má nöfn og ártöl ferðalanga fyrri tíma. Hér er dásamleg einangrun, engin umferð, vinnuvélahljóð eða húsdýr, hér er náttúran í friði og hefur verið öldum saman. Að göngu lokinni flytur rútan hópinn aftur á hótel í Tralee.

 • Göngutími: ca. 4-5 klst.
 • Vegalengd: ca. 16 km
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt
Opna allt

31. ágúst | Dunloe skarð

Í dag upplifum við bæði göngu og siglingu. Að loknum góðum írskum morgunverði er hópurinn fluttur í Dunloe skarð sem er norðan við Killarney þjóðgarðinn. Skarðið er í rúmlega 200 m hæð yfir sjávarmáli og þessi þægilega morgunganga liggur niður á jafnsléttu um fagurgrænan dal, vaxinn burknum, kjarri og villiblómum. Tindar Magillycuddy´s Reeks, hæsta fjalls Írlands, bera við himin leiðina niður að Killarneyvötnum. Við vötnin njótum við dýrðarinnar í kyrrð og ró og borðum hádegismat. Að máltíð lokinni gefst kostur á að fara í siglingu um vötnin og árnar sem tengja þau saman uns komið verður á leiðarenda við Rosskastala. Á leiðinni fræða bátamennirnir okkur um mannlífið á svæðinu og tengja það merkum stöðum sem verða á vegi okkar. Frá Ross kastala er ekið aftur á hótel.

 • Göngutími: ca. 2.5 klst.
 • Vegalengd: ca. 11 km
 • Erfiðleikastig: Auðvelt

1. september | Loop Head – Clare hérað

Að loknum morgunverði er öllum farangri komið fyrir í rútunni því í dag kveðjum við Tralee. Við ökum norður á bóginn, tökum ferju yfir Kilbahaflóa og förum út á nes allmikið í Clare héraði. Það er sannarlega gaman að aka þessa leið því við upplifum hér ýmsar hliðar Írlands. Hér eru landbúnaðarhéruð, snotur lítil þorp, síðan tekur hafið við og þá nokkuð vogskorið nes. Í dag hefst gangan við vitann, syðst á nesinu. Þar er hátt bjarg og klettar með áhugaverðum hellum. Sagt er að margt sé líkt með okkur og Írum. Líkt og við tengja Írar hóla og hæðir, kletta og hella alls kyns þjóðsögum. Ein segir að skötuhjúin Diarmuid og Grainne hafið flúið í helli syðst á nesinu undan ofríki héraðshöfðingja nokkurs. Við heyrum meira um þau á göngunni frá vitanum eftir suðurhluta nessins til Kilbaha. Þaðan er gengið yfir nesið og komið við í merkilegri kirkju, The Church of the Little Ark. Norðurströndin er stórfengleg. Hún er klettótt og nokkuð vogskorin og sagt er að fuglalífið þar sé eitt fjölskrúðugasta á Írlandi. Allt þetta gleður augað á leið okkar til baka að upphafsreit við vitann. Þaðan flytur rútan okkur á hótel í Dromoland þar sem gist verður næstu tvær nætur.

 • Göngutími: ca. 4-5 klst.
 • Vegalengd: 15 km
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt eða erfitt

2. september | Mohair björg

Á dagskránni í dag er spennandi ganga um enn eitt nesið. Rútan flytur hópinn í sjávarþorpið Liscannor þar sem gangan hefst. Við förum eftir sveitavegi og göngustígum í byrjun leiðar, allt til Hags Head sem er klettur á bjarginu út við sjóinn og líkist höfði kerlingar. Á göngu okkar eftir strandlengjunni komum við að bjarginu fræga, Cliffs of Moher. Hér er myndefnið stórfenglegt; björgin, Araneyjar, Galwayflóa og Aill Na Searrach klettaveggurinn. Gangan er nánast á jafnsléttu en smá hækkun verður þegar dregur að lokum hennar. Göngunni lýkur í þorpinu Doolin. Rútan flytur svo hópinn aftur á hótel.

 • Göngutími: ca. 5 - 6 klst.
 • Vegalengd: ca. 18 km
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt eða erfitt

3. september | Dublin

Það styttist í heimferð. Við kveðjum sveitasæluna og stefnum á höfuðborgina Dublin. Ökum um blómleg héruð, minni borgir, bæi og þorp. Förum t.d. um Limerick, hjá Nenagh, Portlaoise og Naas í Kildare héraði. Komum eftir hádegið til Dublin og gefst nú góður tími til að skoða sig um í borginni. Í Dublin má sjá fjölda frægra bygginga, svo sem pósthúsið við O´Connell stræti þar sem páska uppreisninin hófst árið 1916, gamla þinghúsið, Trinity háskólinn og kirkja heilags Patreks. Um kvöldið gefst kostur á að fara á kvöldverðarsýningu með írskri tónlist og dansi.

4. september | Heimferð

Lagt verður af stað út á flugvöll að loknum morgunverði og síðan flogið heim kl. 11:45 frá Dublin. Lending á Íslandi kl. 13:05 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir