Alparósir Austurríkis

Í þessari ferð höldum við á vit ævintýranna í Salzburgerlandi í Austurríki þar sem fegurð fјallanna umlykur okkur. Ferðin hefst í München en ekið verður til fjallaþorpsins Filzmoos sem verður okkar samastaður í ferðinni. Nú er mikil hátíð í Filzmoos , kúasmölun, bændamarkaður, Tírólatónlist, öl, matur, dans og söngur og auðvitað tökum við þátt í hátíðinni. Farið verður í hrífandi dagsferðir, m.a. til Dachstein og með kláfi upp á Dachstein jökulinn, þar sem við skoðum íshelli, lítum ótrúlegar höggmyndir og njótum þaðan stórkostlegs útsýnis. Ólýsanleg náttúrufegurð tekur á móti okkur í Hallstatt við Hallstättersee sem er með fallegustu stöðum Salzkammergut en bærinn og einstakt landslagið umhverfis hann eru varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Við heimsækjum tónlistarborgina Salzburg sem er ein af perlum Austurríkis. Eigum dásamlegan dag við vatnið Wolfgangsee sem er eitt þekktasta stöðuvatnið í Salzkammergut héraði, rómað fyrir fegurð. Við skoðum St. Wolfgang bæinn og farið verður í ljúfa siglingu yfir til St. Gilgen.

Verð á mann í tvíbýli 298.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 13.700 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Hestakerruferð frá Filzmoos.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling á Wolfgansee vatni u.þ.b. € 10.
  • Saltnámur í Hallstatt u.þ.b. € 38.
  • Kláfur upp á Dachstein jökulinn u.þ.b. € 44.
  • Kláfur upp í kastalann Hohensalzburg u.þ.b. € 18.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

14. september | Flug til München & Filzmoos

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið til Austurríkis, þar sem gist verður í sjö nætur í litla bænum Filzmoos í Salzburgerland. Dásamleg fjalladýrð umlykur hótelið. Á sumrin stundar fólk hér fjallgöngur en skíði um vetur. Á hótelinu er heilsulind og innisundlaug en einnig er sólarverönd á þaki sundlaugarbyggingarinnar, svo hægt er að sitja þar úti í góðu veðri og sóla sig í fjallaloftinu.

15. september | Dachstein fjöllin

Okkar bíður spennandi dagur þegar farið verður upp á Dachsteinfjöllin sem er mest sótti ferðamannastaðurinn í Steiermark, enda á heimsminjaskrá UNESCO. Dachsteiner kláfurinn ferjar okkur upp í 2.700 m hæð, þaðan sem fjallasýnin er mögnuð. Fimm útsýnispallar standa til boða og þeirra á meðal er einn með glergólfi. Sá sem þorir að stíga á þann pall mun sjá hvernig klettaveggur Hunerkogel fjallsins steypist 250 m lóðrétt niður beint undir fótum hans. Við munum einnig virða fyrir okkur víðáttumikinn íshelli en þar hafa, auk náttúrulegra ísmyndana, verið gerðir allskyns skúlptúrar úr meira en tonni af ís, s.s. líkan af Egyptalandi til forna.

16. september | Kúasmölunarhátíð í Filzmoos

Það stendur mikið til hjá bæjarbúum í Filzmoos í dag, því nú er komið að sjálfri kúasmöluninni. Bændur reka kýr sínar til byggða eftir dvöl í seljum í fjöllunum en hefð er fyrir því að skreyta kýrnar og er gjöfulasta kýrin mest skreytt. Um hádegisbil koma kýrnar niður prýddar blómum. Á hátíðinni er fjölbreyttur markaður með afurðum frá bændum, handverki og Tírólatónlist að hætti heimamanna en þessu fylgir svo matur, öl, söngur og dans sem stendur yfir langt fram á kvöld.

Opna allt

17. september | Hallstatt & saltnámurnar

Að morgunverði loknum heimsækjum við Hallstatt við vatnið Hallstättersee og njótum þess að skoða og kynnast þessum draumfagra bæ en landsvæðið umhverfis hann var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Þetta er yndislegur bær sem gaman er að rölta um. Við lítum inn í kaþólsku kirkjuna og kapelluna sem eru upp á hæðinni en kirkjan geymir mjög merkileg, útskorin altari frá 16. öld. Hér er hægt að fara í saltnámurnar í Hallstatt sem eru elstu saltnámur í heimi. Fyrir þá sem treysta sér ekki inn í saltnámurnar er boðið upp á ljúfa siglingu á vatninu Hallstättersee þar sem fjallafegurðin lætur ekki á sér standa. Einnig verður gefinn tími til að njóta þessa dásamlega staðar og þegar við höfum skoðað nægju okkar verður ekið til baka á hótelið.

18. september | Tónlistarborgin Salzburg & Mozart

Í dag ætlum við að heimsækja hina undurfögru borg Salzburg en borgin sem er þekktust sem fæðingarborg Mozarts er einnig þekkt fyrir hrífandi byggingar í barokkstíl. Við hefjum daginn á stuttri skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse en hún er með elstu og þekktustu götum borgarinnar. Þar er að finna mjög áhugavert Mozartsafn. Í góðu veðri er gaman að koma upp í kastalann Hohensalzburg en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music tekinn upp. Falleg sýn er þaðan yfir borgina, Salzburgerland og stórfenglegt umhverfi Alpanna í kring sem eru aðdráttarafl fjölda ferðamanna ár hvert. Síðdegis gefst hverjum og einum tími til að kanna mannlíf borgarinnar á eigin vegum.

19. september | St. Wolfgang & St. Gilgen

Ekin verður hrífandi útsýnisleið yfir Postalm, næststærstu hásléttu Evrópu. Bændur koma hér upp með búfé sitt yfir sumartímann og þá eru hér yfir 2.500 hestar, naut, kýr og kindur á afrétt. Þaðan komum við niður að kyrrláta fjallavatninu Wolfgangsee og stoppum í bænum St. Wolfgang. Þessi bær, sem áður var mikilvægur áfangastaður pílagríma, hefur frá alda öðli tekið á móti gestum og í dag er hann ákaflega vinsæll sumardvalarstaður. St. Wolfgang er einnig þekktur fyrir óperettuna Im weißen Rössl am Wolfgangsee sem helguð var honum. Við könnum bæinn nánar og förum svo í glæsilega siglingu á þessu fallega vatni yfir að St. Gilgen sem er fæðingarbær móður Mozarts. Gefum okkur tíma þar til að kanna líf bæjarbúa áður en ekið verður á hótel.

20. september | Filzmoos & hestakerruferð að Unterhofalm

Þennan góða dag er tilvalið að slaka á í Filzmoos fram undir hádegi og kanna umhverfið í þessum litla bæ. Um hádegi verður boðið upp á ferð með hestakerru upp að Unterhofalm selinu sem er við rætur Bischofsmütze fjallsins en þar er náttúrufegurðin óviðjafnanleg. Þar byrjum við á því að fara í smá göngu um Almsee vatnið og upp að kapellu. Síðan er upplagt að fá sér hádegishressingu og njóta fegurðar staðarins áður er haldið verður til baka.

21. september | Kveðjustund & heimferð

Nú er komið að því að kveðja þennan undurfagra stað eftir ljúfa daga. Ekið verður til München en brottför þaðan er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet er mikil útivistarmanneskja, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað sem markaðsstjóri ýmissa fyrirtækja stærstan hluta síns vinnuferils. Hún bjó í Þýskalandi um árabil ásamt fjölskyldu sinni og ferðaðist víða um Evrópu meðan á dvölinni stóð. Hún, ásamt manni sínum Aðalsteini Jónssyni sem einnig er fararstjóri, hefur tekið þátt í fjölda ferða á vegum Bændaferða við góðan orðstír. Elísabet hefur m.a. látið til sín taka í góðgerðarmálum og stofnaði ásamt vinkonum sínum Á allra vörum, sem margir þekkja.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti