Páskar í Dubrovnik

Austurlenskur blær, hefðir, minjar og ólýsanleg náttúrufegurð hrífa okkur í glæsilegri ferð til Dubrovnik og Rovinj í Króatíu við Adríahafið. Við hefjum ferðina í Brixen í Suður-Tíról og siglum því næst frá Ancona á Ítalíu yfir til sögufrægu borgarinnar Split í Króatíu þar sem finna má Diokletian höllina frægu en borgin er sannarlega eins og lifandi safn. Eftir góðan tíma hér verður ekið til Dubrovnik sem er ein aðalmenningar- og listaborg landsins. Á leiðinni þangað verður ekið um Neretva dalinn sem stundum er kallaður Flórída Króatíu. Farið verður yfir til Svartfjallalands þaðan sem við siglum með ferju yfir Kotor flóann til gömlu Kotor borgarinnar en elsti hluti hennar er á heimsminjaskrá UNESCO. Önnur spennandi sigling er yfir á eyjuna Maríu á kletti sem er á Kotor flóa. Einnig verður ekið um Pelješac skagann og siglt yfir til eyjunnar Korcula. Við njótum góðra daga í bænum Rovinj í Króatíu sem er yndislegur listamannabær við Istríaströndina og förum þaðan til fallega bæjarins Poreč. Við endum góða ferð með glæsilegum hætti í tónlistarborginni Salzburg í Austurríki en hún er ein fallegasta borg Austurríkis. 

Verð á mann í tvíbýli 329.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 59.000 kr.

 
Innifalið

 • 13 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Sigling frá Ancona til Split með gistingu um borð.
 • Kvöld- og morgunverður á skipinu frá Ancona til Split.
 • Ferja yfir Kotorflóann til Kotor.
 • Sigling út á Korkula eyjuna.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Aðrar siglingar og ferjur en nefndar í innifalið.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Virkisveggir í Dubrovnik u.þ.b. € 33.
 • Sigling yfir á eyjuna Maríu á kletti u.þ.b. € 10.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. apríl | Flug til München

Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og er mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið yfir Brenner skarðið til Suður-Tíról á Ítalíu og gist eina nótt í Brixen.

3. apríl | Ancona & sigling á Adríahafi

Í dag höldum við ferð okkar áfram til Ancona við Adríahafið, höfuðborgar héraðsins Marche. Sögu hennar má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá Sýrakúsa og settust þar að. Um kvöldið verður siglt frá Ancona til Split í Króatíu og tekur siglingin um 10 klukkustundir. Gist verður í skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og salerni og mun kvöldverður bíða okkar um borð.

4. apríl | Split & Dubrovnik

Árla dags leggur skipið að landi í Split eftir morgunverð á skipinu en borgin telst með fegurri borgum landsins. Virðulegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja prýða Split og hefur elsti hluti hennar verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Borgin er eins og lifandi útisafn. Við heimsækjum Diokletian höllina, sem telst til eins merkilegasta minnisvarða byggingarlistar frá tímum Rómverja en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Eftir góðan tíma hér, höldum við ferð okkar áfram til Dubrovnik þar sem gist verður í fimm nætur á góðu hóteli. Á leiðinni þangað verður ekið um Neretva dalinn þar sem Neretva áin rennur og er dalurinn stundum kallaður Flórída Króatíu.

Opna allt

5. apríl | Skoðunarferð um Dubrovnik

Dubrovnik er ein aðalmenningar- og listaborg landsins. Við förum í skoðunarferð um þessa líflegu og sögufrægu borg, sem hefur að geyma fjölmargar glæstar byggingar frá endurreisnar- og barokktímanum. Borgin iðar af mannlífi og hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða. Gengið verður um gömlu virkisveggi borgarinnar sem ná utan um elsta hluta hennar.

6. apríl | Svartfjallaland, Kotorflóinn & borgin Kotor

Spennandi dagur er nú fyrir höndum en ekið verður yfir til Svartfjallalands að Kotor flóanum. Þar förum við með ferju yfir flóann til gömlu Kotor borgarinnar en elsti hluti borgarinnar er á heimsminjaskrá UNESCO. Í Kotor förum við í skemmtilega skoðunarferð, fræðumst örlítið um brot af 2000 ára sögu borgarinnar og upplifum menningu hennar og mannlíf. Einnig verður farið í töfrandi siglingu yfir á eyjuna Maríu á kletti sem er á Kotorflóa.

7. apríl | Frjáls dagur í Dubrovnik

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri á að skoða borgina Dubrovnik á eigin spýtur. Upplagt er að taka strætisvagn inn í gamla bæinn en einnig er að sjálfsögðu hægt að slaka á og njóta aðstöðunnar á hótelinu.

8. apríl | Peljesac skaginn & sigling yfir á Korcula eyju

Peljesac skaginn og Korcula eyjan eru á dagskrá okkar í dag. Ekið verður um skagann sem er annar stærsti skagi landsins. Náttúran er sérlegt augnayndi, t.d. má sjá ólífu-, fíkju- og sítrónurækt og hér er einnig að finna þekktustu vínhéruð landsins. Við siglum út í eyjuna Korcula sem er ein af perlum Adríahafsstrandarinnar. Skoðunarferð verður farin um bæinn Korcula sem er líflegur og skemmtilegur miðaldabær.

9. apríl | Ekið um Dalmatíu til Rovinj á Istríaskaganum í Króatíu

Í dag kveðjum við Dubrovnik eftir yndislega daga og ökum upp með Dalmatíu yfir á Istríaskagann í Króatíu þar sem gist verður í þrjár nætur í bænum Rovinj sem er yndislegur listamannabær við Istríaströndina. Hótelið er með einkaströnd, inni- og útisundlaug, fallegum garði, heilsulind og líkamsrækt.

10. apríl | Gönguferð í Rovinj og notalegheit

Við könnum umhverfið nánar á skemmtilegri göngu inn í miðbæ Rovinj sem er litríkur bær sem iðar af mannlífi. Upplagt er að ganga upp að barokkkirkju heilagrar Euphemiu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir eyjarnar og gamla bæinn. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjar, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Einnig munum við halda niður listamannagötuna og um elsta hluta bæjarins. Eftir hádegi getur hver og einn ráðstafað tíma sínum að vild, hvort heldur sem er að skoða bæinn betur eða verja honum í slökun og huggulegheit á hótelinu.

11. apríl | Skoðunarferð um Poreč

Eftir góðan morgunverð verður haldið til bæjarins Poreč en hann er með elstu bæjunum við ströndina. Helsta kennileiti hans er Euphrasius Basilíkan frá 6. öld sem hefur verið varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1997. Borgina skreyta einnig skemmtilegar marmaralagðar götur og fagrar byggingar. Að skoðunarferðinni lokinni er hægt að kanna bæinn betur á eigin vegum áður en haldið verður aftur á hótel í Rovinj.

12. apríl | Ekið til Salzburg í Austurríki

Nú kveðjum við Poreč og Króatíu og ökum til Salzburg í Austurríki þar sem gist verður síðustu tvær nætur ferðarinnar. Salzburg er einstaklega heillandi borg en þekktust er hún fyrir að vera fæðingarborg Mozarts. Borgin hefur verið varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1997 en tilkomumiklar barrokkbyggingar hennar hafa varðveist vel, sem gerir hana að aðdráttarafli fyrir fjölda ferðamanna ár hvert.

13. apríl | Dagur í Salzburg

Við byrjum á að fara í skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar þar sem finna má mjög áhugavert Mozartsafn. Einnig verður hægt að fara upp í kastalann Hohensalzburg en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður eða Sound of Music tekinn upp. Stórkostlegt útsýni er þaðan yfir Salzburg og nágrenni. Eftir það verður frjáls tími fram að kvöldverði til að kanna borgina á eigin vegum og líta inn á kaupmenn borgarinnar.

14. apríl | Heimferð frá Salzburg

Það er komið að heimferð eftir yndislega ferð, stefnan er tekin á München. Brottför er þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Soffía Halldórsdóttir

Soffía Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Svarfaðardal. Hún lauk kennaraprófi í einsöng og tónmennt frá Tónlistarskólanum í Reykjavík á árunum 1991-92 og kenndi síðan tónmennt við grunnskóla Reykjavíkur í nokkur ár. Soffía hugðist taka sér frí frá kennslu í eitt ár og fór til Prag, þar sem hún stundaði nám í tékknesku við Karlsháskólann. Dvölin í Prag varð öllu lengri en áætlað var í fyrstu eða samtals ellefu ár, en Soffía flutti aftur heim til Íslands haustið 2009.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir