21. – 29. ágúst 2020 (9 dagar)
Í þessari ferð höldum við á vit ævintýranna í Suður-Tíról á Ítalíu og upplifum kynngimagnaða náttúrufegurð Dólómítafjalla sem er sennilega einn frægasti fjallgarður Alpanna. Þarna var kvikmyndin Everest að hluta tekin upp. Brixen, sem er dvalarstaður okkar í ferðinni, er ein af perlum Suður-Tíról í Eisackdalnum. Þarna munu töfrandi skoðunarferðir og notalegar samverustundir mynda skemmtilegt samspil. Við höldum til fjalla, upp í Dólómítafjöllin, þar sem farið er með kláfi upp á Pordoi fjallið en þar er mikilfenglegt útsýni yfir ítölsku, austurrísku og svissnesku Alpana. Glæsta borgin Merano verður sótt heim með sínum skemmtilegu, þröngu götum, yfirbyggðum súlnagöngum, fögrum byggingum og iðandi mannlífi. Við förum upp á Plose fjallið, heimafjall þeirra í Brixen, og í Neustift klaustri bíður okkar vínsmökkun en þeir þekkja vel til vínræktar í héraðinu. Einnig verður komið til höfuðborgarinnar Trento í Trentino héraði og ekið um frægu vínleiðina í Suður-Tíról. Við toppum þessa ferð í bænum St. Ulrich í dalnum Val Gardena sem rómaður er fyrir fegurð og heimsþekkt tréútskurðarlistaverk. Við ferðumst með kláfi upp á Seiser alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir tinda Alpafjallanna. Þessir sæludagar enda í heimsborginni Mílanó.