Alpafegurð Ítalíu

Nú höldum við á vit ævintýranna í töfrandi ferð um Suður-Tíról á Ítalíu og upplifum kynngimagnaða náttúrufegurð Dólómítafjalla sem er sennilega einn frægasti fjallgarður Alpanna. Þarna var kvikmyndin Everest að hluta tekin upp. Dvalarstaður okkar er í bærinn St. Ulrich í dalnum Val Gardena sem rómaður er fyrir fegurð og heimsþekkt tréútskurðarlistaverk. Þarna munu við njóta töfrandi skoðunarferða og eiga notalegar samverustundir. Glæsta borgin Merano verður sótt heim með sínum skemmtilegu, þröngu götum, yfirbyggðu súlnagöngum og iðandi mannlífi. Við höldum til fjalla, upp í Dólómítafjöllin, þar sem farið er með kláfi upp á Pordoi fjallið en þar er mikilfenglegt útsýni yfir ítölsku, austurrísku og svissnesku Alpana. Heimsækjum Brixen, eina af perlum Suður-Tíról í Eisackdalnum, og síðar fáum við okkur hádegishressingu í Neustift klaustrinu þar sem hefur verið stunduð vínrækt frá fornu fari. Til að toppa dýrðina í St. Ulrich tökum við kláf upp á Seiser alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir tinda Alpafjallanna. Þessir sæludagar enda í elstu borg Þýskalands, Kempten í Allgäu héraði, sem er með fallegustu borgum Bæjaralands.

Verð á mann í tvíbýli 288.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 34.700 kr.

Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hóteli í St. Ulrich.
 • Morgunverður á hóteli í Kempten. 
 • Einn kvöldverður í Kempten.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
 • Hádegisverðir.
 • Einn kvöldverður í Kempten.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Kláfur upp á Pordoi ca € 20.
 • Vínsmökkun í Neustift klaustrinu ca € 20.
 • Kláfur upp á Seiseralm ca € 19.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

8. september | Flug til München & St. Ulrich

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Nú heldur ferð áfram til St. Ulrich, sem ber ítalska nafnið Ortisei, í dalnum Val Gardena sem rómaður er fyrir fegurð og heimsþekktur fyrir tréútskurðarlistaverk. Þar verður gist í sjö nætur á góðu hóteli á yndislegum stað í bænum. Þar eru innisundlaug og heilsulind, líkamsrækt, tyrknest bað og sauna.

9. september | Stutt skoðunarferð í St. Ulrich & frjáls tími

Glæsilegur dagur í St. Ulrich sem er fæðingarbær Sigurðar Dementz óperusöngvara og kennara, leikarans Luis Trenker og popptónskáldsins Giorgio Moroder. Nú verður farið í stutta göngu um bæinn þar sem við könnum saman umhverfið en eftir það verður frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa, upplagt er að fá sér hádegishressingu og líta inn á kaupmenn staðarins. Einnig gefst tími til að nota þessa frábæru aðstöðu við hótelið og njóta náttúrufeguðar Alpafjallana.

10. september | Dagur í töfrandi borginni Merano

Í þessari töfrandi og skemmtilegu borg, Merano, mætast menningarheimar Ítalíu og Austurríkis og segja má að hér finnist það besta frá báðum löndum. Borgin var áður fyrr höfuðborg Tírólahéraðs í Austurríki en blómatími hennar var á 19. öld. Þá varð bærinn þekktur sem heilsubær en heitar lindir eru á svæðinu. Hér er loftslagið sérlega milt og því eru frjósöm ávaxtahéruð allt í kringum borgina. Miðbærinn er yndislegur, með skemmtilegum, þröngum götum, yfirbyggðum súlnagöngum, glæstum byggingum og iðandi mannlífi.

Opna allt

11. september | Stórbrotin náttúrufegurð Dólómítafjallanna

Dólómítarnir eru án efa einn frægasti fjallgarður Alpanna. Stórbrotin náttúrufegurð, sögulegt mikilvægi og sérstæð menning eru ástæður þess að fjallgarðurinn var tekin á heimsminjaskrá UNESCO. Héðan verður haldið til fjalla og ekið um stórkostlegt landslag Dólómítanna. Farið verður með kláf upp á Pordoi í ca 3.000 m hæð en þaðan er mikilfenglegt útsýni yfir ítölsku, austurrísku og svissnesku Alpana, sem enginn má láta fram hjá sér fara. Einnig verður ekið hjá Rosengarten tindunum sem eru á milli Fassatal dalsins og Tierser dalsins.

12. september | Kláfur upp á Seiser alm - hæstu hálendissléttu Evrópu

Toppum sæluna þegar við förum frá St. Ulrich með kláfi upp á Seiser alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu og tilheyrir Dólómítum Ítalíu. Það er ekki að undra að hluti Everest kvikmyndarinnar hafi verið tekin upp á þessum slóðum. Upplifum þar stórkostlegt útsýni yfir Alpafjöllin en þau eru í senn róandi og endurnærandi. Við gefum okkur góðan tíma til að rölta þar um og auðvitað fáum við okkur hressingu og njótum tilverunnar.

13. september | Perlan Brixen, Neustift klaustrið & hádegishressing

Brixen, perla Eisackdalsins, ætlar að taka á móti okkur en í Brixen mætast árnar Eisack og Rienz. Þarna finnast gamlar götur, brýr, kirkjur og söfn sem ásamt umlykjandi vínekrum og aldingörðum gera Brixen að einstaklega heillandi og fallegum stað. Nú förum við í stutta göngu og síðan verður gefin frjáls tími til að njóta lífsins í þessum yndislega miðbæ, með fallegum, þröngum götum og litlum verslunum. Um hádegi verður ekið að Neustift klaustrinu sem var stofnað á 12. öld en þar má finna fallega barokkkirkju, gotneskan krossgang, kraftaverkabrunn, heilmikið bókasafn og listasafn. Farið verður í stutta skoðunarferð um staðinn en klaustrið á eina mikilvægustu vínekru héraðsins og hefur vínrækt verið stunduð hér frá fornu fari eða allt frá árinu 1142. Við fáum okkur saman hádegissnarl í vínkjallara klaustursins.

14. september | Dýrðarinnar dagur í St. Ulrich

Nú ætlum við svo sannarlega að njóta og næra sál og líkama á þessum yndislega stað. Upplagt er að skoða St. Ulrich betur og líta inn á kaupmenn bæjarins sem geta verið ansi líflegir. Mjög gaman er að líta inn á tréútskurðarverkstæði sem eru ófá í bænum. Einnig er upplagt að nota þá glæsilegu aðstöðu sem hótelið býður upp á eða fara í gönguferð um nágrennið en náttúrufegurðin lætur ekki á sér standa í Val Gardena.

15. september | St. Ulrich & Kempten

Eftir dýrðarinnar daga í St. Ulrich verður ekið norður eftir til Kempten í Allgäu héraði. Staðsetning þessarar elstu borgar Þýskalands inn á milli engja og skógivaxinna hæða Allgäu héraðsins er falleg en hér verður gist í tvær nætur á góðu hóteli í miðborginni.

16. september | Skemmtilegur dagur í Kempten & frjáls tími

Í dag ætlum við að eiga góðan dag í Kempten en þetta er heimbær Ingu fararstjóra og hún þekkir þar hvern krók og kima. Kempten er yndisleg borg með 2000 ára sögu en borgin er talin önnur elsta borg Þýskalands og var upphaflega byggð af Rómverjum 15 árum fyrir Kristsburð. Í upphafi keisaratímans var Kempten, sem þá hét Cambodunum, ein mikilvægasta rómverska borgin í Raetia-héraði og líklega fyrsta höfuðborg héraðsins. Inga ætlar að leiða ykkur um helstu staði borgarinnar og elsta hlutann þar sem margt er að sjá og hrífast af í þessari fallegu borg. Eftir það verður gefin frjáls tími þar sem upplagt er að fá sér hádegishressingu og líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru ófáir. Kvöldverður á eigin vegum.

17. september | Heimferð frá München

Það er komið að heimferð eftir þessa yndislegu og ljúfu daga. Nú kveðjum við Kempten og eftir góðan morgunverð munum við aka til München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lent í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Dómkirkjan í Mílanó

Dómkirkjan í Mílanó

Dómkirkjan í Mílanó

Dómkirkjan í Mílanó

Dómkirkjan í Mílanó

Dómkirkjan í Mílanó

Dómkirkjan í Mílanó

Dómkirkjan í Mílanó

Trento

Trento

Dómkirkjan í Mílanó
Dómkirkjan í Mílanó
Dómkirkjan í Mílanó
Dómkirkjan í Mílanó
Trento

Fararstjórn

Inga Ragnarsdóttir

Leiðsögu- og myndlistamaðurinn Inga Ragnarsdóttir hefur starfað fyrir Bændaferðir frá árinu 2004. Hún hefur farið í fjölda ferða um mið-Evrópu þar sem hún er á heimavelli en Asía hefur verið hennar kærasta sérsvið frá upphafi. Ferðir Ingu um lönd eins og Indland, Nepal, Tíbet, Víetnam, Kambódíu, Búrma, Laos og Japan hafa notið mikilla vinsælda en Kína hefur hún sótt heim á hverju ári, oft tvisvar, síðustu 15 árin. Inga segir töfra Kína vaxa eftir því sem maður kynnist landinu nánar en það hefur heillað hana allt frá því á unglingsárunum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir