Litríkar eyjar Króatíu

Í þessari glæsilegu ferð um Króatíu upplifum við einstaka fegurð landsins. Hvert sem farið er í ferðinni fara saman undurfagrar sandstrendur, kristaltær sjór og einstök náttúrufegurð. Ævintýrið byrjar á draumaferð um Rab eyjuna en íbúar hennar eru sagðir hamingjusömustu íbúar landsins. Við komum til bæjarins Lopar, þar sem við kynnumst dýrðlegustu strönd eyjunnar Paradísarströndinni svonefndu. Í töfrandi siglingu meðfram Dolin eyju yfir á Pag eyjuna verður áð í forna sjávarbænum Lun. Í strandbænum Vodice einhverjum vinsælasta baðstrandarbæ Dalmatíustrandarinnar leikur við okkur suðrænn blær. Lista- og menningarborgina Zadar er skemmtilegt að skoða og sælan heldur áfram þegar farið verður í stórglæsilega siglingu um Krka þjóðgarðinn og frægu Krka fossana sjö. Hvarvetna blasir við ólýsanleg fegurð þar sem fossar, stallar og árhylir mynda saman stórkostlegt náttúrusjónarspil. Šibenik, elsta borgin við Adriahafið er glæsileg og við njótum okkar í Primošten sem er hrífandi sjávarbær. Fegurðin er engu lík í gömlu borgunum, Trogir sem er töfrandi úti á eyju tengdri meginlandinu og Split með Diokletian höllina frægu. Báðar þessar borgir eru sem lifandi útisafn og komnar á heimsminjaskrá UNESCO. Það er skemmtilegt samspil töfrandi skoðunarferða, slökunar og rólegheita sem er rauði þráðurinn í þessari glæsilegu ferð sem endar á siglingu frá Split yfir til Ancona á Ítalíu.

Verð á mann í tvíbýli 327.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 73.800 kr.


Innifalið

 • 13 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Sigling frá Split til Ancona með gistingu um borð.
 • Kvöld- og morgunverður á skipinu.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar, vínsmökkun, kláfar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling um eyjuna Rab & Pag með hádegissnarli ca € 25.
 • Léttur hádegisveður hjá vínbónda ca € 17.
 • Glæsileg sigling með hádegisverði og drykkjum að Krka fossum ásamt aðgangi í þjóðgarðinn ca € 57.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

7. ágúst | Flug til Mílanó & Brecia

Brottför frá Keflavík kl. 15:55. Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 21:40 að staðartíma og ekið sem leið liggur á hótel í Brecia í Lombardy héraði þar sem gist er fyrstu nóttina.

8. ágúst | Draumaeyjan Rab

Eftir góðan morgunverð er stefnan sett á draumaeyjuna Rab sem er skógi vaxin með undurfallegar sandstrendur, umvafin kristalstærum sjó. Íbúar eru sagðir þeir hamingjusömustu í allri Króatíu enda búa þeir í söguríkum, gömlum bæjum í þvílíkri náttúrufegurð sem lætur engan ósnortinn. Hér verður gist í fimm nætur á góðu hóteli í 100 m fjarlægð frá miðaldabænum Rab. Á hótelinu er bæði inni- og útisundlaug með legubekkjum og stólum. Einnig er þar líkamsrækt, heilsulind og sauna.

9. ágúst | Dásemdardagur í Rab

Þetta verður töfrandi og skemmtilegur dagur í miðaldabænum Rab. Bærinn, sem byggðist út á keilulöguðum tanga, er með sterkum feneyskum blæ og af mörgum talinn einn fallegasti hafnarbær Kvarna flóa. Eftir góðan morgunverð verður farið í skemmtilega göngu með heimamanni um gamla bæinn þar sem við kynnumst sögu og menningu hans. Fjórir turnar bæjarins eru tákn hans og tróna yfir rauðum leirþökum húsanna sem gera þennan miðaldabæ svo hrífandi. Eftir skoðunarferð er frjáls tími sem upplagt er að nota til að kynnast mannlífinu á torgum og strætum, í verslunum og kaffi- eða veitingahúsum. Einnig er hægt að nota sér glæsilega aðstöðu hótelsins. 

Opna allt

10. ágúst | Ferð um eyjuna Rab & létt hádegissnarl hjá vínbónda

Eyjan Rab er ein gróðursælasta og að margra mati fallegasta eyja Króatíu. Í dag verður farið í hrífandi hringferð um eyjuna, þar sem við upplifum mikla náttúrufegurð, gróðursæld, ólífu- og vínrækt. Komið verður á fallegustu staði eyjarinnar og staldrað við á merkum stöðum t.d. er komið til miðaldabæjarins Lopar sem stendur við fallegustu strönd eyjarinnar svonefnda Paradísarströnd. Hádegismatur verður snæddur hjá einum vínbónda eyjarinnar.

11. ágúst | Töfrandi sigling um eyjarnar Rab & Pag

Nú verður boðið upp á töfrandi siglingu út á flóann meðfram eyjunum Rab og Dolin yfir á Pag eyju. Farið verður í land í forna sjávarbænum Lun sem er þekktastur fyrir ljúffengan geitarost og ólífuolíu. Eftir ánægjulega stund þar förum við aftur um borð, landfestar leystar og á siglingu til baka á eyjuna Rab er boðið upp á hádegisverð um borð.

12. ágúst | Frjáls dagur í bænum Rab

Á dagskrá í dag er slökun. Náttúrufegurðin umvefur okkur og nú er upplagt að kanna bæinn betur á eigin vegum. Rölta eftir verslunargötunum eða fá sér göngutúr með undurfallegri ströndinni og njóta náttúrudýrðarinnar. Svo má ekki gleyma að nota glæsilega aðstöðu hótelsins. 

13. ágúst | Rab, Zadar & Vodice

Við kveðjum þessa dásamlegu eyju og stefnum á Vodice sem er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Dalmatíustrandarinnar. Á leiðinni þangað verður komið við í aldagömlu lista- og menningarborginni Zadar en þaðan er einstakt útsýni yfir hinar fjölmörgu króatísku eyjar. Farið verður í stutta skoðunarferð um þessa sögufrægu borg og eftir það verður gefinn frjáls tími til að kanna miðbæinn á eigin vegum og fá sér hressingu. Áfram er svo haldið til Vodice sem eitt sinn var einn af gömlu rómversku bæjunum og hét þá Arausa. Bærinn er við stóra og fallega vík og þar verður gist í fimm nætur á góðu hóteli við eina af baðströndum Vodice sem er umvafin pálma- og ólífutrjám. Á hótelinu, sem er í ca 10 mín. göngufæri frá miðbænum er inni- og útisundlaug, einkabaðströnd, líkamsrækt, heilsulind og hárgreiðslustofa.

14. ágúst | Ljúfur dagur í Vodice

Eftir góðan morgunverð og rólegheit förum við í ljúfa göngu inn í miðbæ Vodice. Þar förum við í stutta skoðunarferð og fræðumst um sögu, hefðir og menningu bæjarins. Margt áhugavert er að sjá og skoða í þessum aldagamla bæ sem hefur verið valinn vinsælasti ferðamanna- og blómabær Dalmatíu. Eftir skemmtilegan tíma verður hægt að njóta bæjarins á eigin vegum, fá sér hressingu og líta í búðir en bærinn iðar af mannlífi á þessum tíma og alltaf mikið um að vera. Einnig er upplagt að nota sér einstaka aðstöðu hótelsins eða fara í göngutúr með ströndinni þar sem fegurðin lætur engan ósnortinn.

15. ágúst | Glæsileg sigling að Krk fossum & Krk þjóðgarði

Glæsileg sigling er í boði meðfram Dalmatíuströnd að sjálfum Krk þjóðgarðinum. Nafn hans er dregið af nafni 73 km langri á en í henni eru hinir frægu Krk fossar, sjö að tölu. Þegar þangað er komið blasir við ólýsanlegt náttúrusjónarspil fossa, kletta og árhylja, ólýsanleg fegurð. Siglingin byrjar við hótelið og siglt verður þaðan gegnum Sveti Ante skurðinn í átt að borginni Šibenik. Þar ber hæst virkið Sveti Nikola frá 16. öld en borgin öll er fögur að sjá. Þaðan siglum við upp Krk ána út á Prokaljsko vatnið þar sem náttúrufegurðin umleikur okkur. Við förum gangandi inn í þjóðgarðinn, skoðum gömlu mylluna og upplifum stórkostlegt náttúrusjónarspil fossanna sjö en hæstur þeirra er Skradinski buk. Við sjáum virkjunina Jaruga og rekumst á lundabúðir og veitingastaði. Hádegisverður er snæddur í bátnum og eftir góðan tíma í landi verður siglt til baka til Vodice.

16. ágúst | Šibenik & Vodice

Šibenik er elsta borgin við Adríahafið og er staðsett við mynni árinnar Krka. Þangað er förinni heitið í dag. Við ökum sem leið liggur frá hóteli að borginni sem er þekkt fyrir sögulega minjar sínar. Þetta er einstaklega glæsileg borg sem má ekki fara framhjá neinum og hér verður farið í áhugaverða skoðunarferð. Við kynnumst sögu og menningu hennar, rekumst á gömul virki, borgarmúra, borgarhlið, fallega turna og dómkirkjuna St. Jakov. Gengið verður um töfrandi miðaldabæinn en eftir það verður gefinn tími til að fá sér hádegishressingu og njóta borgarinnar áður en ekið verður til baka. Frjáls tími í Vodice fram að kvöldverði.

17. ágúst | Stutt ferð til Primošten & Vodice

Suðrænn blær leikur um okkur í Primošten sem er lítill en mjög notalegur sjávarbær úti á fallegum tanga við Adríahafið. Þar er skemmtileg blanda af fornum og nútíma lífsstíl í þessum bæ sem einkennist af töfrandi miðaldabæ og þröngum götum með hlöðnum steinhúsum. Kirkjan St. Juraj frá 15. öld er á hæsta punkti tangans og gefur bænum sérstaka mynd. Það er skemmtileg gönguferð með gömlu virkisveggjunum en við ætlum að kanna bæinn á rölti okkar og njóta um leið náttúrufegurðarinnar. Tími gefst til að kíkja í búðir og upplagt er að fá sér hádegishressingu áður en ekið verður til Vodice.

18. ágúst | Trogir, Split & ferja til Ancona á Ítalíu

Nú kveðjum við Vodice eftir yndislega daga og góðan morgunverð. Fyrst verður stefnan tekin á glæstu borgina Trogir sem er úti á smáeyju en tengd meginlandinu. Borgin er ein af gömlu rómversku borgunum og þekkt fyrir skemmtilega blöndu af endurreisnar, barokk og rómverskum byggingum. Þessi litla borg er eitt lifandi útisafn og verður gaman að rölta um miðaldagötur bæjarins með heimamanni og þá skilst hvers vegna elsti hluti Trogir er varðveittur á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir góðan tíma hér verður ekið til Split, sem er hrífandi borg. Virðulegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja prýða Split og hefur elsti hluti hennar verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Borgin er eins og lifandi safn. Við heimsækjum Diokletian höllina, sem telst til eins merkilegasta minnisvarða byggingarlistar frá tímum Rómverja en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Um kvöldið verður siglt frá Split til Ancona á Ítalíu og tekur siglingin um 10 klukkustundir. Gist verður í skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og salerni og mun kvöldverður bíða okkar um borð. 

19. ágúst | Heimferð frá Mílanó

Árla dags leggur skipið að landi í Ancona við Adríahafið, höfuðborgar héraðsins Marche. Sögu hennar má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá Sýrakúsa og settust þar að. En nú verður stefnan tekin á heimsborgina Mílanó þar sem gefinn verður frjáls tími til að sýna sig og sjá aðra. Auðvitað förum við í stutta skoðunarferð á göngu frá kastalanum Sforzesco inn að Dómkirkjutorgi og farastjórinn sýnir ykkur það helst á þeirri leið, þar á meðal Schala óperuna, elsta yfirbyggða verslunarhúsið, Vittorio Emanuele og segir ykkur frá glæsilegu Dómkirkjunni. Upplagt er að líta inn á kaupmenn borgarinnar og fá sér hressingu áður en ekið er út á flugvöll í Mílanó. Brottför þaðan kl. 20:40 og lent í Keflavík kl. 22:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir