Páskar í Portorož

Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa skemmtilegu ferð sem byrjar í heilsulindarbænum Bad Reichenhall. Ferðin heldur áfram til Portorož í Slóveníu, eða Rósahafnarinnar svokölluðu, sem tekur á móti okkur með sínum suðræna blæ. Á leiðinni þangað verður komið við í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu. Við eigum góðar stundir í Portorož og höldum m.a. í siglingu til Izola og Piran, sem eru tvær af perlum Slóveníu, og heimsækjum Rovinj, yndislegan listamannabæ við Istríaströndina. Umhverfi Rovinj er dásamlegt en á leiðinni þangað verður áð fyrir ofan Limski skurðinn sem er iðulega talinn vera fallegasti fjörður Króatíu og hefur dregið að sér marga kvikmyndagerðarmenn. Einnig verður komið til Poreč sem er einstaklega töfrandi og með elstu bæjunum við ströndina en þar er m.a. að finna hina áhugaverðu Euphrasius basilíku frá 6. öld sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Við ætlum að enda þessa glæsilegu ferð í hjarta Salzkammergut svæðisins, umvafin ánum Traun og Ischl, en þar liggur bær heilsulindanna, Bad Ischl. Bærinn er þekktur sem Keisaraborgin en strax á 19. öld heilluðust hjónin Franz Joseph keisari Habsborgara og Sisi af bænum, dásamlegri staðsetningu hans og náttúrufegurðinni allt um kring.

Verð á mann í tvíbýli 259.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 34.700 kr.


Innifalið

 • 10 daga ferð
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Léttur hádegisverður í Pazin ca € 19.
 • Sigling til Piran og Izola ca € 19. 
 • Aðgangur inn í Euphrasius Basiliku ca € 11.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

14. apríl | Flug til München & Bad Reichenhall

Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið um Alpana til Bad Reichenhall sem er yndislegur Alpabær með 850 ára sögu en hann var valinn alpabær ársins árið 2001. Bad Reichenhall er þekktastur sem heilsubær og gamall saltframleiðslubær. Upplagt er að kanna þennan fallega bæ fyrir kvöldverð en hér verður gist fyrstu nóttina.

15. apríl | Ljubljana & Portorož í Slóveníu

Nú kveðjum við Bad Reichenhall eftir góðan morgunverð og rólegheit. Ferðin heldur áfram til Portorož í Slóveníu, eða Rósahafnarinnar svokölluðu, sem tekur á móti okkur með sínum suðræna blæ. Á leiðinni verður stoppað í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu og stærstu borg hennar, sem telst með grænustu höfuðborgum Evrópu. Þaðan verður ekin fögur leið inn á Istríaskagann suður til Portorož í Slóveníu þar sem gist verður í sex nætur á góðu hóteli við ströndina, með inni- og útisundlaug, líkamsrækt og heilsulind

16. apríl | Sigling til Piran & Izola

Í dag verður haldið í siglingu til sjávarþorpanna Izola og Piran, sem eru sannkallaðar perlur Istríastrandarinnar. Fyrsta stopp okkar er í Izola en svo höldum við ferðinni áfram til Piran, yndislegs bæjar sem áhugavert er að skoða. Þar fæddist fiðluleikarinn og tónskáldið Tartini en minnisvarði um hann stendur á hinu glæsilega Tartini torgi. Eins er gaman að skoða Georgskirkjuna, sem stendur tignarleg á fallegum stað á ströndinni. Hér verður tími til að fá sér hádegishressingu og njóta lífsins á þessum fagra stað áður en siglt verður til baka.

Opna allt

17. apríl | Frjáls dagur í Portorož

Í dag njótum við þess að vera á þessum fagra stað. Tilvalið er að nýta sér aðstöðu hótelsins til afslöppunar og einnig er dásamlegt er að ganga eftir strandlengjunni en þar er margt sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

18. apríl | Dagsferð til Rovinj í Króatíu, Limski skurðurinn & vínbóndi

Króatía tekur á móti okkur í dag. Ekið verður til Rovinj sem er yndislegur listamannabær við Istríaströndina. Umhverfið er dásamlegt og við njótum þess á skemmtilegri göngu þar sem við förum meðfram ströndinni inn í miðbæ Rovinj sem er litríkur bær og iðar af mannlífi. Upplagt er að ganga upp að barokkkirkju heilagrar Euphemiu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir eyjarnar og gamla bæinn. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjar, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Einnig munum við halda niður listamannagötuna og um elsta hluta bæjarins. Á leiðinni þangað verður stoppað fyrir ofan Limski skurðinn. Hann er iðulega talinn vera fallegasti fjörður Króatíu og hefur fegurð hans dregið að sér marga kvikmyndagerðarmenn. Eftir góðan tíma í Rovinj verður ekið til Pasin og borðaður léttur hádegisverður hjá vínbónda en hjá honum er ætíð söngur og gleði.

19. apríl | Dagur í Poreč í Króatíu

Við ætlum í dag til Poreč sem er með elstu bæjunum við ströndina. Euphrasius basilíkan frá 6. öld er einkar athyglisverð en hún fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Einnig eru skemmtilegar marmaralagðar götur og fagrar byggingar sem skreyta borgina. Hér væri hægt að líta á kaupmenn bæjarins en auðvelt er að finna skemmtilegar verslanir, til að mynda mikið af skartgripaverslunum, fá sér hressingu og njóta náttúrufegurðarinnar sem er ólýsanleg á þessum einstaka stað.

20. apríl | Slökun og rólegheit í Portorož

Slökun og rólegheit eru á dagskrá í dag. Það er upplagt að fara í gönguferð, sund eða ganga meðfram ströndinni, t.d. yfir til Piran. Einnig er hægt að vera búin að panta sér tíma í nuddi. Í Portorož er mjög skemmtilegur og góður íslenskur veitingastaður sem hægt er að kíkja á.

21. apríl | Portorož & Bad Ischl – Keisaraborgin

Nú kveðjum við þennan dásamlega stað eftir notalega daga. Stefnan er tekin norður í gegnum Slóveníu til heilsubæjarins Bad Ischl í Salzkammergut í Austurríki þar sem gist verður í tvær nætur á hóteli í miðbænum.

22. apríl | Skoðunarferð í Bad Ischl & frjáls tími

Í hjarta Salzkammergut svæðisins, umvafin ánum Traun og Ischl, liggur bær heilsulindanna, Bad Ischl. Strax á 19. öld heilluðust hjónin Franz Joseph keisari Habsborgara og Sisi af bænum, dásamlegri staðsetningu og náttúrufegurðinni allt um kring. Á rólegri göngu okkar um bæinn, sem þekktur er undir nafninu Keisaraborgin, upplifum við konunglega fortíð hans en
Bad Ischl var vinsæll samkomustaður aðalsfólks á keisaratímanum. Við ætlum að njóta til fulls alls þess sem hann býður upp á en einnig gefst góður tími til að líta inn á kaupmenn og auðvitað er mikið af keisaralegum kaffi- og veitingahúsum sem gaman er að kíkja á.

23. apríl | Heimferð frá München

Nú er komið að heimferð eftir þessa glæsilegu ferð. Ekið verður út á flugvöllinn í München, brottför þaðan er kl. 14:05 og áætluð lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir