Jólaferð til Kölnar

Aðventan er heillandi tími til að sækja borgina Köln í Þýskalandi heim. Ljósadýrðin gefur þessum árstíma birtu og yl og ilmurinn frá ristuðum möndlum, jólaglöggi og hunangskökum fyllir loftið. Ferðin hefst með flugi til Frankfurt en þaðan er stefnan tekin á menningarborgina Köln við ána Rín sem verður náttstaður okkar í þessari ljúfu ferð. Á leiðinni þangað verður stoppað við einn fallegasta jólamarkað Móseldalsins, í borginni Koblenz, sem einkennist af yfir hundrað skreyttum smáhýsum. Koblenz stendur við ármót Mósel og Rín sem mætast við hið svokallaða Deutsches Eck eða þýska hornið sem oft er nefnt fallegasta horn Þýskalands. Eftir góðan tíma þar verður ekið norður eftir Rínardalnum til Kölnar þar sem er m.a. að finna dómkirkjuna frægu, Kölner Dom, sem er eitt af meistaraverkum hágotneska tímans með þekktu gotnesku turnspírunum. Auðvitað förum við í skemmtilega göngu með fararstjóranum okkar og skoðum það helsta í borginni. Á þessum tíma iðar borgin af lífi og sér í lagi í gamla miðbænum. Aðventumarkaðir í Köln eru taldir með þeim fallegustu í Evrópu og víða má upplifa sannkallaða aðventustemningu.

Verð á mann 134.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 21.600 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 4 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Rútuferð frá Frankfurt flugvelli á hótelið í Köln, með skoðunarferð í Koblenz á komudegi.
 • Rútuferð milli hótels og Frankfurt flugvallar á heimferðardegi.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverðir.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegis- og kvöldverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Aðventusigling á Rín ca € 18. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. desember | Flug til Frankfurt, Koblenz & Köln

Brottför frá Keflavík kl. 7:25. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12:00 að staðartíma. Nú verður stefnan tekin á Köln en á leiðinni þangað ætlum við að njóta aðventutöfra Koblenz, sögufrægrar borgar sem er rúmlega 2000 ára gömul. Borgin státar af einum fallegasta jólamarkaði Móseldalsins en hann einkennist af yfir hundrað skreyttum smáhýsum. Gaman er að rölta um gamla miðaldabæinn sem prýddur er glæstum byggingum, gömlum bindingsverkshúsum og þröngum, litlum götum. Eftir góðan tíma þar verður ekið norður Rínardalinn til menningarborgarinnar Kölnar þar sem gist verður í þrjár nætur á góðu hóteli í miðbænum.

3. desember | Skoðunarferð í Köln & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð og rólegheit verður farið í ljúfa gönguferð um borgina en Köln er yndisleg borg sem var nánast jöfnuð við jörðu í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Eftir mikla endurbyggingu, þar sem gamli miðborgarhlutinn var látinn halda sér, iðar nú hjarta miðborgarinnar af lífi og skemmtilegri menningu. Ekki síst á þessum árstíma þar sem einn af fallegustu aðventumörkuðum Evrópu er hér í borg en nokkuð margir aðventumarkaðir eru dreifðir um borgina. Í Köln er m.a. að finna sögulega ráðhúsið, mörg áhugaverð söfn og eitt af meistaraverkum hágotneska tímans, dómkirkjuna sjálfa, kirkju Péturs postula með þekktu gotnesku turnspírunum. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími til að fá sér hádegishressingu og skoða sig betur um í borginni á eigin vegum.

4. desember | Aðventudýrð í Köln & frjáls dagur

Í dag gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum, líf borgarbúa, líta inn til kaupmanna borgarinnar sem eru ófáir, en borgin er einnig þekkt fyrir skemmtileg kaffi- og veitingahús. Auðvitað er hægt að fá sér jólaglögg og hressingu þess á milli á jólamörkuðum borgarinnar. Þeir sem vilja draga sig frá ys og þys miðbæjarins og komast í notalega aðventustemningu geta farið í skemmtilega aðventusiglingu á ánni Rín þar sem boðið er upp á lifandi tónlist og heitan drykk að eigin vali. Báturinn fer frá Konrad Adenauer bakkanum og hér er hægt að njóta þess að horfa á dýrð borgarinnar á siglingu.

Opna allt

5. desember | Heimferð

Eftir indæla og skemmtilega ferð verður ekið til Frankfurt. Brottför þaðan kl. 13:05. Lendum í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Arinbjörn Vilhjálmsson

Arinbjörn hefur lengi starfað sem leiðsögumaður og fararstjóri í frístundum. Hann hefur verið leiðsögumaður þýskumælandi ferðamanna á Íslandi frá árinu 1991 og fór sem fararstjóri í sína fyrstu bændaferð árið 1997. Hann hefur veitt farastjórn í bændaferðum til Þýskalands, Austurríkis, Ítalíu, Sviss, Frakklands, Spánar og á Íslendingaslóðir í Manitoba og Norður-Dakóta.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00