Aðventuveisla í Vínarborg

Glæsileg og spennandi aðventuferð til Vínar í Austurríki en ljósadýrðin birtir upp skammdegið og ilmurinn af jólaglöggi og ristuðum möndlum skapar einstaka jólastemningu.

Flogið er til München og þaðan haldið til Passau sem er við ármót Dónár, Inn og Ilz í Bæjaralandi en talið er að þetta sé með fallegustu bæjarstæðum Evrópu. Síðan heldur ferðin áfram til Vínarborgar sem er með glæsilegri borgum Evrópu, fagrar byggingar prýða hana og þar er að finna glæsilegustu höll landsins, Schönbrunn. Dásamleg aðventustemning er ríkjandi um alla borg og eru aðventumarkaðir við helstu torg borgarinnar. Eftir notalega daga í Vín verður ekið til München í Þýskalandi. Á leiðinni þangað verður stoppað í tónlistarborginni Salzburg þar sem við göngum í gegnum Mirabell garðinn og eftir Getreidestrasse, elstu og þekktustu götu borgarinnar. München er heillandi borg sem státar af hátæknibílum, ögrandi list og Lederhosen, en hún er ein aðalmenningar- og listaborg landsins. Þar verður farið í skemmtilega skoðunarferð og ekki láta jólamarkaðir á sér standa en sá stærsti er á torginu Marienplatz, fyrir framan fallegt ráðhús borgarinnar. Hér ættu allir að komast í jólaskap, umkringdir fallegum jólaljósum, ljúfri tónlist og notalegu andrúmslofti.

Verð á mann í tvíbýli 229.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 59.900 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

 • Aðgangseyrir að Schönbrunn höllinni ca € 15.
 • Skoðunarferð um óperuhúsið í Vín ca € 7.
 • Ferð í hestakerru um Vínarborg ca € 11.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

30. nóvember │ Flug til München & Passau

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lent í München kl. 12:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Passau, sem er við ármót Dónár, Inn og Ilz í Bæjaralandi. Árnar þrjár setja einstaklega fallegan svip á borgina og eru margir þeirrar skoðunar að þetta sé með fallegustu bæjarstæðum Evrópu. Þar er töfrandi dómkirkja með eitt stærsta orgel í heimi. Hér verður gist í eina nótt á góðu hóteli í miðbænum. Upplagt er að skoða sig um í borginni og njóta aðventunnar á ljúfum jólamarkaði borgarinnar.

1. desember │ Passau, Linz & Vínarborg

Eftir góðan morgunverð og rólegheit er stefnan tekin á Vínarborg þar sem gist verður í 4 nætur. Á leiðinni þangað verður áð í Linz þar sem Austurríkismenn segja að allt byrji, borg með puttann á púlsinum hvað varðar tækni, list og menningu. En Linz er ekki eingöngu nútímamiðstöð heldur er gamli miðbærinn einstaklega heillandi og býr yfir fjölda sögulegra bygginga í barokkstíl. Hér gefst tími til að fá sér hressingu og njóta þess að rölta um töfrandi jólamarkað borgarinnar. Eftir góðan tíma þar höldum við áfram ferð okkar til Vínarborgar.

2. desember │ Skoðunarferð um Vínarborg

Vín er mikil lista- og menningarborg með um 1,7 milljónir íbúa. Í dag verður farið í skoðunarferð með innlendum leiðsögumanni um þessa glæsilegu höfuðborg Austurríkis og helstu byggingar, hallir og garðar skoðaðir. Lítum inn í Stephans dómkirkjuna og förum að hinu þekkta Hundertwasser húsi sem er einstakt fjölbýlishús byggt upp úr 1980 eftir samnefndan listamann. Einnig gefst frjáls tími til að kanna líf borgarbúa og aðventumarkaði borgarinnar.

Opna allt

3. desember │ Aðventustemning í Vínarborg

Götulandslag í barokkstíl og keisaralegar hallir, samofið kaffihúsamenningu og mikilli sælkera- og hönnunarsenu skapar einstakt leiksvið fyrir lista- og tónlistarfólk í Vín. Í dag gefst tækifæri til að skoða sig um á eigin vegum, t.d. er hægt að fara í ferð með hestakerru um borgina, fara á söfn, í skoðunarferð um óperuhúsið og fá sér kaffi og hina frægu austurrísku Sachertertu með því. Mikil stemning er við aðventumarkaðinn við ráðhúsið sem er með fallegustu ráðhúsbyggingum í Evrópu.

4. desember │ Schönbrunn höllin & frjáls tími

Eftir morgunverð verður farið að hinni mikilfenglegu höll Schönbrunn sem var byggð á árunum 1692–1780 sem sumarhöll Mariu Theresiu keisaraynju og fjölskyldu. Höllin, sem er með fallegustu síðbarokkhöllum Evrópu, var einnig notuð af öðrum Habsborgurum. Hægt verður að fara inn í höllina eða skoða aðventumarkaðinn sem er við höllina. Þar eru gosbrunnar í barokkstíl, Gloriette heiðursminnisvarði herliðs keisarans, kaffihús og minjagripaverslanir. Eftir það verður frjáls tími inni í borg. 

5. desember │ Vínarborg & München

Nú er dvöl okkar í Vínarborg á enda og ekin verður fögur leið til München. Á leiðinni verður komið við í tónlistarborginni Salzburg. Við göngum í gegnum Mirabell garðinn, þar sem hluti af kvikmyndinni Söngvaseiður var tekinn upp. Göngum síðan eftir Getreidestrasse, elstu og þekktustu götu borgarinnar. Við hana stendur m.a. húsið sem W.A. Mozart fæddist í. Þaðan höldum við á litríkan og sérlega glæsilegan jólamarkað á dómkirkjutorgi borgarinnar. Að því loknu verður haldið áfram til München þar sem gist verður í 2 nætur. 

6. desember │ Frjáls dagur í München

Dagurinn hefst á stuttri skoðunarferð um borgina. München er heillandi borg og sér í lagi á þessum tíma en hún er ein af aðalmenningar- og listaborgum landsins. Helsta kennileiti borgarinnar er gotneska dómkirkjan með laukturnunum tveimur, Marienkirche. Á sama
torgi, Marienplatz, er einnig eitt fallegasta ráðhús landsins en úr turni þess hljómar ægifagurt klukknaspil tvisvar sinnum á dag. Á ráðhústorginu er einn stærsti jólamarkaður borgarinnar og þar endar einmitt skoðunarferðin okkar. Þá gefst tími til að skoða sig betur um og líta jafnvel inn í eitthvert af kauphúsum borgarinnar. Hér eru einnig fallegar kirkjur og áhugaverð söfn sem hægt væri að fara á. Verslunargöturnar laða að og fjöldinn allur af veitinga- og kaffihúsum lokka í töfrandi jólastemningu.

7. desember │ Heimferð frá München

Eftir yndislega ferð og góðan morgunverð verður ekið á flugvöll. Brottför kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki og Færeyjar. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00