Aðventuævintýri í Filzmoos

Aðventuævintýri inn á milli Alpafjallanna í hinu dásamlega Salzburgerlandi í Austurríki sem er sérlega heillandi á þessum árstíma. Borgir og bæir skarta sínu fegursta og ilmur frá jólaglöggi og piparkökum svífur um. Vinalega fjallaþorpið Filzmoos í Salzburgerlandi bíður okkar og þaðan höldum við í skemmtilegar skoðunarferðir. Við förum m.a. til hinnar glæsilegu Salzburgar, borgar Mozarts og einnar af perlum Austurríkis. Einnig verður farið til St. Gilgen við Wolfgangsee og í hrífandi siglingu til bæjarins St. Wolfgang þar sem við njótum einstakrar aðventustemningar. Ljósadýrðin lætur ekki á sér standa í Berchtesgaden, eins eftirsóttasta ferðamannabæjar Þýskalands, og við förum í rómantíska hestasleðaferð upp í Unterhofalm fjallaselið sem á sér um 350 ára gamla sögu. Í um 1.300 m hæð yfir sjávarmáli gæðum við okkur á jólakræsingum og upplifum ánægjulegt andrúmsloft jólanna. Bad Ischl sem er þekktur fyrir heilsulindir og hrífur alla en á 19. öld heilluðust Franz Joseph I, keisari Habsborgara, og Sissi kona hans af dásamlegri staðsetningu og náttúrufegurð sem umvefur staðinn og er bærinn oft kallaður „Keisaraborgin“. Að síðustu er aðventublærinn áþreifanlegur í Hallstatt við Hallstättersee sem er einn fallegasti staður Salzkammergut héraðsins en bærinn og umhverfi hans er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO.

Verð á mann 229.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 18.800 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Hestasleðaferð upp í Hofalmen fjallasel.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling á Wolfgangsee vatni ca € 12.
 • Kláfur upp hjá Hallstad við Hallstadsee ca € 21.
 • Jólaglögg og smákökur ca € 8.
 • Kláfur upp í kastalann Hohensalzburg ca € 13.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. desember | Flug til München & Filzmoos

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 3 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið til Austurríkis þar sem gist verður í sjö nætur í litla bænum Filzmoos í Salzburgerlandi. Dásamleg fjalladýrð umlykur hótelið. Á sumrin stundar fólk hér fjallgöngur en skíði um vetur. Á þessu fjölskyldurekna hóteli er innisundlaug og heilsulind og öll herbergi eru með svölum.

3. desember | St. Gilgen & sigling á Wolfgangsee til St. Wolfgang

Þessi yndislegi dagur byrjar á akstri til bæjarins St. Gilgen sem er litskrúðugur og aðlaðandi bær og fæðingarstaður Önnu, móður Mozarts. Þar er snotur aðventumarkaður inni á milli litríkra og myndskreyttra litlu húsanna. Eftir ljúfa stund í bænum verður farið í töfrandi siglingu til fallega bæjarins St. Wolfgang sem er ævintýralega fallegur bær við samnefnt vatn sem áður var mikilvægur áfangastaður pílagríma. Bærinn hefur frá alda öðli tekið á móti gestum og enn í dag eru fjölmargir sem koma hingað til að njóta dýrðarinnar sem er einstakt augnayndi á aðventunni. Bærinn er ótrúlega fallega skreyttur og sérstaka athygli vekur upplýst, stór jólabjalla úti á Wolfgangsee vatninu. Hér ætlum við að eiga góðan tíma til að kanna líf borgarbúa.

4. desember | Salzburg & Mozart

Í dag ætlum við að heimsækja hina undurfögru borg Salzburg sem er sérlega heillandi á aðventunni. Borgin sem er þekktust sem fæðingarborg Mozarts er líka fræg fyrir mikilfenglegar byggingar í barokkstíl. Við hefjum heimsóknina á stuttri göngu, förum í gegnum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar en þar er að finna mjög áhugavert Mozartsafn. Gaman er að koma upp í kastalann Hohensalzburg en hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music var hér tekinn upp. Hér er líka einn af fjölmörgum aðventumörkuðum borgarinnar og héðan er falleg sýn yfir borgina, Salzburgerland og stórfenglegt umhverfi Alpanna í kring. Aðventudýrðin blasir hvarvetna við í borginni og auðvitað gefst tími til að kanna mannlíf borgarinnar á eigin vegum og líta inn á kaupmenn.

Opna allt

5. desember | Dýrðin í Berchtesgaden í Bæjaralandi

Aðventustemning og ljósadýrð lætur ekki á sér standa í landi Berchtesgaden sem er eitt eftirsóttasta ferðamannasvæði Þýskalands. Það er rómað fyrir fegurð og státar af einstakri náttúrufegurð og fræga fjallinu Watzmann við Königssee. En nú bíður Berchtesgaden eftir okkur með glæstri konungshöll. Dýrðin er mikil á aðventunni og hér gefum við okkur góðan tíma til að kanna líf bæjarbúa. Við njótum samverunnar á þessum fagra stað en bærinn er sérlega fallegur, með myndskreyttum húsum, verslunum og fjöldanum öllum af skemmtilegum kaffi- og veitingahúsum. Ekki má gleyma jólamarkaðnum sem býður upp á þjóðlegt handverk og ýmislegt sem hrífur augað.

6. desember | Aðventutöfrar í Hallstatt & Hallstättersee

Að morgunverði loknum verður ekin falleg leið í rólegheitum til bæjarins Hallstatt. Bærinn og landsvæðið umhverfis hann var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Þetta er yndislegur bær sem gaman er að rölta um og dýrðin mikil hvert sem litið er. Við lítum m.a. inn í kirkjuna, sem er með mjög merkilegu, útskornu altari frá árinu 1520 og skoðum heimsþekkt grafhýsi hauskúpa sem tengt er kirkjunni. Að því loknu gefst drjúgur tími til að njóta þess að vera á þessum dásamlega stað áður en aftur verður ekið á hótelið.

7. desember | Heilsulindir Bad Ischl - Keisaraborgarinnar

Í hjarta Salzkammergut svæðisins, umvafin ánum Traun og Ischl, liggur bær heilsulindanna, Bad Ischl. Strax á 19. öld heilluðust hjónin Franz Joseph keisari Habsborgara og Elisabeth „Sisi“ af bænum, dásamlegri staðsetningu og náttúrufegurðinni allt um kring. Á rólegri göngu um bæinn, sem þekktur er undir nafninu „Keisaraborgin“, upplifum við konunglega fortíð hennar en margar aðrar þekktar persónur sóttu borgina heim og gerðu hana að hjarta heimsborgara í Austurríki. Dýrðin er mikil í borginni á aðventunni og við ætlum að njóta til fulls alls þess sem hún býður upp á, á töfrandi jólamarkaði en einnig gefst góður tími til að líta inn á kaupmenn borgarinnar og auðvitað er mikið af keisaralegum kaffi- og veitingahúsum sem gaman er að kíkja á.

8. desember | Filzmoos & hestasleðaferð upp í fjallaselið Unterhofalm

Morguninn notum við í að kanna umhverfið í þessum litla bæ á skemmtigöngu en annars er tilvalið að taka daginn rólega og njóta aðstöðunnar á heilsulind hótelsins. Síðdegis er komið að miklu ævintýri. Hestasleðar flytja okkur upp í fjallaselið Unterhofalm í 1.300 m hæð yfir sjávarmáli en þessi töfrandi sleðaferð tekur um klukkutíma. Þegar upp er komið verður farið í ævintýragöngu að Almsee vatninu en gönguleiðin er upplýst með kyndlum og gangan tekur liðlega 30 mínútur. Eftir töfrandi göngu um upplýsta ísskúlptúra er upplagt að fá sér jólaglögg og smákökur.

9. desember | Kveðjustund & heimferð

Þá er þetta aðventuævintýri á enda. Ekið verður út á flugvöll í München en brottför þaðan er kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00