Aðventuævintýri í Filzmoos
29. nóvember – 6. desember 2021 (8 dagar)
Aðventuævintýri inn á milli Alpafjallanna í hinu dásamlega Salzburgerlandi í Austurríki sem er sérlega heillandi á þessum árstíma. Borgir og bæir skarta sínu fegursta og ilmur frá jólaglöggi og piparkökum svífur um. Vinalega fjallaþorpið Filzmoos í Salzburgerlandi bíður okkar og þaðan höldum við í skemmtilegar skoðunarferðir. Við förum m.a. til hinnar glæsilegu Salzburgar, borgar Mozarts og einnar af perlum Austurríkis. Einnig verður farið til St. Gilgen við Wolfgangsee og í hrífandi siglingu til bæjarins St. Wolfgang þar sem við njótum einstakrar aðventustemningar. Ljósadýrðin lætur ekki á sér standa í Berchtesgaden, eins eftirsóttasta ferðamannabæjar Þýskalands, og við förum í rómantíska hestasleðaferð upp í Unterhofalm fjallaselið sem á sér um 350 ára gamla sögu. Í um 1.300 m hæð yfir sjávarmáli gæðum við okkur á jólakræsingum og upplifum ánægjulegt andrúmsloft jólanna. Bad Ischl sem er þekktur fyrir heilsulindir og hrífur alla en á 19. öld heilluðust Franz Joseph I, keisari Habsborgara, og Sisi kona hans af dásamlegri staðsetningu og náttúrufegurð sem umvefur staðinn og er bærinn oft kallaður „Keisaraborgin“. Að síðustu er aðventublærinn áþreifanlegur í Hallstatt við Hallstättersee sem er einn fallegasti staður Salzkammergut héraðsins en bærinn og umhverfi hans er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO.