Alpadraumur í Austurríki

28. september - 5. október 2021 (8 dagar)

Nú höldum við til Austurríkis á vit ævintýranna þar sem fegurð fjallanna umlykur okkur. Ferðin byrjar með flugi til München en þaðan verður ekið til Mayrhofen í Austurríki, eins aðalferðamannabæjarins í Zillertal sem er oft sagður einn fallegasti dalur Tíról. Skemmtilegar ferðir verða í boði, m.a. með kláfi upp á Hintertux jökulinn, ekið yfir Gerlos skarð að hrífandi Krimmler fossum og inn í Salzachtal til Kitzbühel sem er einn af þekktari vetraríþróttabæjum landsins. Tökum kláf upp á Kitzbüheler Horn, þaðan sem útsýnið er ægifagurt. Komið verður til Kufstein, svokallaðar perlu Tíról, sem með sínum töfrandi miðaldakastala trónir yfir bænum en kastalinn er frægur fyrir tilkomumikið útiorgel, það stærsta í heimi. Það eru mikil hátíðarhöld í Mayrhofen sem við ætlum að taka þátt í, hin árlega hátíð kúasmölunar sem er einstaklega litríkt sjónarspil. Mikið líf er í bænum, skemmtilegur bændamarkaður, tónlist einkennandi fyrir svæðið, öl, matur, dans og söngur. Við ökum einnig að vatninu Achensee, einu fallegasta vatni Tíról og til Gramai Alm í þjóðgarði Karwendel fјallanna. Þar er upplagt að snæða hádegisverð saman og skoða osta- og pylsusel frá 16. öld. Endum þessa ljúfu ferð á Swarovski safninu í bænum Wattens í Inn dalnum og heimsókn til Innsbruck, höfuðstaðar Tíról, sem má segja að sé Austurríki í smækkaðri mynd! 

Verð á mann í tvíbýli 229.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli er 22.200 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.

 
Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Hádegisverðir.
 • Vínsmökkun.
 • Þjófé.

Valfrjálst

 • Kláfur upp á Hintertux jökulinn ca € 28.
 • Kláfur upp á Kitzbüheler Horn ca € 22. 
 • Aðgangur að Krimmler fossum ca  € 10.
 • Aðgangur inn á Swarovski safnið ca € 19.
 • Orgeltónleikar í Kufstein og kastalinn ca € 14.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

28. september | Flug til München & Mayrhofen

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þá verður stefnan tekin á Mayrhofen í Zillertal dalnum þar sem gist verður í sjö nætur á góðu hóteli í miðjum bænum. Zillerdalurinn er rómaður fyrir fegurð og er oft kallaður dalur söngsins.

29. september | Dagur í Mayrhofen & Hintertux jökullinn

Byrjum daginn í rólegheitum og skoðum okkur um í Mayrhofen, þessum yndislega bæ með fallegu húsunum sínum og dásamlegu landslagi allt um kring. Um hádegi verður farið með rútunni að Hintertux kláfnum, þaðan sem farið verður upp á Hintertux jökulinn í 3000 m hæð. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Alpana frá útsýnispalli sem er í 3.200 m hæð! Þar verður hægt að fá sér hádegishressingu og njóta þess að vera á þessum dásamlega stað.

30. september | Gerlos skarð, Krimmler fossar & Kitzbühel

Eftir morgunverð verður ekið yfir Gerlos skarðið inn í Pinzgau, að Krimmler fossunum. Þar förum við í létta, stutta gönguferð að fossunum. Eftir það verður ekið inn í Salzachtal dalinn til Kitzbühel sem í dag er einn af þekktari vetraríþróttabæjum landsins. Á 16. og 17. öld blómstraði bærinn vegna kopar- og silfurvinnslu. Gamli bærinn hefur að geyma gömul bindingsverkshús, Katharinen kirkjuna sem er í gotneskum stíl og mikið úrval af fínum verslunum. Það er mikil upplifun er að taka kláf upp á Kitzbüheler Horn sem er í 1.998 m hæð yfir sjávarmáli. Þar er veitingahús, kapella og auðvitað stórkostlegt útsýni. Ekið til baka í gegnum Brixental og Hofgarten í Inn dalnum til Mayrhofen.

Opna allt

1.október | Perla Tíról & frjáls tími

Inn á milli fjalla er bærinn Kufstein sem oft er kallaður perla Tíról. Árum saman hafa ballöður ýmissa listamanna hljómað um þennan fallega bæ sem er staðsettur við grænu ána Inn. Miðaldakastali trónir yfir bænum og er hann frægur fyrir tilkomumikið útiorgel, svokallað hetjuorgel, sem leikið er á daglega á sumarmánuðum á slaginu 12:00, til minningar um þá sem féllu í heimsstyrjöldunum tveimur. Orgelhljómarnir óma frá turni kastalans og endurkastast í þverhníptum fjöllunum í kring. Við förum í stutta gönguferð til að kanna umhverfið, hlustum á stutta orgeltónleika og förum síðan með lyftu upp í kastalann en þaðan er útsýnið yfir bæinn og nærliggjandi sveitir undurfagurt. Eftir það gefst frjáls tími til að kanna bæinn á eigin vegum.

2. október | Kúasmölunarhátíð í Mayrhofen

Í dag er komið að hátíðarhöldum í Mayrhofen, sjálfri kúasmöluninni, en þar reka bændur kýr sínar til byggða eftir dvöl í seljum í fjöllunum. Hefð er fyrir því að skreyta kýrnar og gjöfulasta kýrin er með mestu skreytinguna. Mikil hátíðahöld eru í bænum, markaður með afurðir frá bændum, einkennandi tónlist fyrir Tíról og Zillerdal ómar, gómsætur matur, öl, söngur og dans. Hátíðin er í miðbænum svo stutt er að fara og njóta dagsins.

3. október | Achensee & Gramai Alm selið

Byrjum daginn í rólegheitum en eftir góðan morgunverð verður ekið upp að Achensee vatninu sem er eitt fallegasta og jafnframt stærsta vatn Tíról. Stoppað verður í bænum í Pertisau, einum af vinsælustu ferðamannabæjum við vatnið. Þar fáum við notið yndislegrar náttúrufegurðar alltumlykjandi. Eftir það verður ekið inn í þjóðgarð Karwendel fjallanna sem er í 1263 m hæð yfir sjávarmáli og áð í Gramai Alm selinu þar sem er tilvalið að fá sér léttan hádegisverð í osta- og pylsuseli frá 16. öld. Tími gefst til að skoða sig um á þessum yndislega stað áður en við höldum til baka heim á hótel.

4. október | Safnið Swarovski & Innsbruck

Byrjum daginn á að aka til Wattens í Inn dalnum þar sem Swarovski verksmiðjurnar eru, safnið og verslunin. Farið verður inn á safnið og í verslunina þar sem við gefum okkur tíma áður en ekið er til Innsbruck, höfuðstaðar Tíról. Borgin Innsbruck er umvafin fjöllum og fegurð. Miðaldahluti borgarinnar er einstaklega heillandi en Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar mikilvægustu konungsættar Evrópu. Blómatími borgarinnar var á 15. öld undir stjórn Maximilians I af Habsborg, en hann lét byggja eitt aðalaðdráttarafl borgarinnar, húsið með gullþakinu sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Hér verður farið í stutta skoðunarferð en eftir það verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien-Straße eða setjast niður á kaffihús.

5. október | Heimflug frá München

Eftir þessa sæludaga, verður ekið til flugvallarins í München. Brottför þaðan er kl. 14:05 og er lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir