28. september - 5. október 2021 (8 dagar)
Nú höldum við til Austurríkis á vit ævintýranna þar sem fegurð fjallanna umlykur okkur. Ferðin byrjar með flugi til München en þaðan verður ekið til Mayrhofen í Austurríki, eins aðalferðamannabæjarins í Zillertal sem er oft sagður einn fallegasti dalur Tíról. Skemmtilegar ferðir verða í boði, m.a. með kláfi upp á Hintertux jökulinn, ekið yfir Gerlos skarð að hrífandi Krimmler fossum og inn í Salzachtal til Kitzbühel sem er einn af þekktari vetraríþróttabæjum landsins. Tökum kláf upp á Kitzbüheler Horn, þaðan sem útsýnið er ægifagurt. Komið verður til Kufstein, svokallaðar perlu Tíról, sem með sínum töfrandi miðaldakastala trónir yfir bænum en kastalinn er frægur fyrir tilkomumikið útiorgel, það stærsta í heimi. Það eru mikil hátíðarhöld í Mayrhofen sem við ætlum að taka þátt í, hin árlega hátíð kúasmölunar sem er einstaklega litríkt sjónarspil. Mikið líf er í bænum, skemmtilegur bændamarkaður, tónlist einkennandi fyrir svæðið, öl, matur, dans og söngur. Við ökum einnig að vatninu Achensee, einu fallegasta vatni Tíról og til Gramai Alm í þjóðgarði Karwendel fјallanna. Þar er upplagt að snæða hádegisverð saman og skoða osta- og pylsusel frá 16. öld. Endum þessa ljúfu ferð á Swarovski safninu í bænum Wattens í Inn dalnum og heimsókn til Innsbruck, höfuðstaðar Tíról, sem má segja að sé Austurríki í smækkaðri mynd!