Útivist í Toskana

Í þessari útivistarferð til Toskana verða helstu dásemdir svæðisins kannaðar og náttúrunnar notið til hins ýtrasta. Svæðin sem við heimsækjum bjóða upp á margar og fjölbreyttar göngu- og hjólaleiðir í fallegu umhverfi þar sem ólífutré, skógar og vínakrar eru allsráðandi. Við munum ganga vinsælar og þægilegar leiðir, til að mynda um dalbotn nærri Flórens og skógi vaxnar hlíðar í nágrenni Lucca. Dágóðum tíma er varið í rölt um spennandi staði í þessum merku borgum. Hvar sem tyllt er niður fæti hrífst göngufólk af samspili náttúrufegurðar, stórkostlegra miðaldabygginga og heillandi mannlífs. Eftir góða daga í Toskana fer hópurinn á hina hrífandi Versilíaströnd. Þaðan eru tvær hjólaferðir í boði, önnur til hins sögufræga staðar Pisa en hin til heillandi þorpanna Luni og Sarzana. Einn frjáls dagur er í þessari ferð og þá er upplagt að fara til Cinque Terre eða slappa af á ströndinni þar sem kíkja má í snotrar verslanir í strandbæjunum Viareggio og Forte dei Marmi.

Verð á mann í tvíbýli 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 17.900 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair til Mílanó og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallar í Mílanó og hótela.
 • Gisting í 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði. 
 • Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hóteli.
 • Leiga á 21 gíra hjóli í tvo daga.
 • Hádegissnarl hjá ólífubónda í Cozzile.
 • Vínsmökkun og létt snarl hjá vínbónda í Sarzana. 
 • Göngudagskrá. 
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á rafhjóli í tvo daga kr. 4.400 kr. 
 • Aðgagnseyrir inn á söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að  ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 30. maí. Brottför frá Keflavík kl. 15:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 21:35 að staðartíma. Frá flugvellinum í Mílanó eru um 360 km til Montecanti Terme svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki að minnsta kosti 4 klst.

Á heimleið þann 6. júní verður ekið út á flugvöll og flogið heim kl. 22:35 frá Mílanó. Lending á Íslandi kl. 00:50 að staðartíma. 

Tillögur að dagleiðum

Farið verður í skipulagðar ferðir með staðarleiðsögumanni og íslenska fararstjóranum. Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga og einn hjóladag en teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Að auki er einn frídagur í ferðinni. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða tekið það rólega á hótelinu og notið þess sem heilsulindin og nágrennið hefur upp á að bjóða. 

1. Hringur frá Massa

Í dag er gengin hringleið sem byrjar í þorpinu Massa en þangað flytur rúta hópinn. Þessi þægilega ganga leiðir okkur til miðaldaþorpanna Massa og Cozzile eftir fornri rómverskri leið. Okkur gefst því tækifæri til að skoða einstakan byggingarstíl kirkjunnar Santuario di Croci og njóta um leið landslags sem ólífutré, skógar og vínakrar einkenna. Á leiðinni verður áð hjá hefðbundinni ólífuolíuvinnslu þar sem við smökkum og fáum léttan matarbita.

 • Göngutími: 4 klst
 • Hækkun: um 290 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið
Opna allt

2. Fiesole, Settignano & Flórens

Rúta flytur hópinn til Fiesole í hæðunum umhverfis Flórens. Við göngum eftir dalbotni að hæðunum þar sem Leonardo di Vinci prófaði sig áfram með loftförin sín. Óteljandi ólífulundir einkenna leiðina þar til við komum í þorpið Settignano, dæmigert Toskana þorp, þar sem listamaðurinn Michelangelo ólst upp. Tökum strætisvagn inn í Flórens þar sem við endum þennan dag í skoðunarferð en borgina prýða glæsilegar hallir og kirkjur. Tökum svo lest til baka til Montecatini.

 • Göngutími: 2,5 klst.
 • Hækkun: um 300 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

3. Vínekruganga, bærinn Lucca & Versilíaströnd

Leiðin í dag er um svokallað Montecarlo hérað í norðanverðu Toskana. Héraðið er einkum frægt fyrir framleiðslu eðalhvítvína. Gönguleiðin er um gisið skóglendi upp í hæðir uns við komum að 500 ára gömlu eikartré og smáþorpinu San Martino. Þaðan göngum við áfram og komum í hrífandi hérað Montecarlo. Hér hressum við okkur með hefðbundnum hádegismat héraðsins á ferðaþjónustubæ. Héðan förum við með rútu til bæjarins Lucca þar sem við röltum eftir þröngum götum elsta bæjarhlutans. Við göngum upp á borgarmúrinn en þaðan er útsýnið yfir bæinn alveg einstakt. Rútan flytur okkur því næst á hótel á Versilíaströndinni.

 • Göngutími: 2 klst. + ganga um Lucca
 • Hækkun: um 200 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

4. Pisa & San Pietro a Grado

Þetta er spennandi hjóladagur því við heimsækjum hinn sögufræga stað Pisa. Við hjólum leið frá hótelinu gegnum einn fallegasta stað Versilíastrandarinnar, Viareggio, og þaðan áfram til Pisa. Hér skoðum við okkur um en borgin er hvað þekktust fyrir skakka turninn á torginu Piazza dei Miracoli. Klukkuturninum, sem er frístandandi en tilheyrir dómkirkjunni, var eðlilega ætlað að standa lóðrétt en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Við skoðum okkur um og myndum í gríð og erg en hjólum síðan áfram uns komið er í þorpið San Pietro a Grado við Migliarino garðinn. Rútan flytur okkur þaðan aftur á hótelið. Ef áhugi er til staðar þá er hægt að bæta við 10 km leið til strandbæjarins Tirrenia.

 • Vegalengd: um 46 km
 • Hækkun: í lágmarki
 • Erfiðleikastig: létt

5. Luni & Sarzana

Þennan dag er hjólað til Luni sem er nú þorp en var eitt sinn mikil hafnarborg. Þaðan er svo farið í annan heillandi, gamlan bæ, Sarzana. Hér skoðum við okkur um, röltum eftir notalegum, litlum strætum og kíkjum svo á kastala umlukta varnarveggjum. Leiðin liggur þá til vínbónda á svæðinu þar sem tækifæri gefst til að grípa bita og njóta framleiðslu bóndans.

 • Vegalengd: um 40 km
 • Hækkun: 190 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

6. Frídagur

Frídaginn er hægt að nýta sér til að kynna sér svæðið á eigin vegum. Ýmislegt má gera þennan dag, en hægt væri að fara til Cinque Terre með lest. Brautarstöðin í Pietrasanta er í um 5 km fjarlægð frá hóteli en þangað má komast með strætisvagni eða leigubíl. Ekki er mælt með að þangað sé hjólað og hjól skilin eftir daglangt á brautarstöð. Ferðin til Cinque Terre (Riomaggiore) tekur 75 mín. en skipta þarf um lest í La Spezia. Eins er hægt að taka því rólega á baðströnd, líta í verslanir í Viareggio og Forte dei Marmi eða nota reiðhjólin og dóla sér milli smáþorpa á Versilíaströndinni.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Kjartan Steindórsson

Kjartan er fæddur árið 1974 og er menntaður prenttæknifræðingur frá München í Þýskalandi. Hann hefur starfað við prentiðnað í Suður-Þýskalandi í um 20 ár og þar af stóran hluta í forsvari fyrir fyrirtæki. Síðan 2016 hefur Kjartan verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi og býður m.a. upp á námskeið og ráðgjöf fyrir stjórnendur í þýskumælandi Evrópu.
Kjartan hefur ávallt notið útiveru og haft gaman að því að ferdast. Hann hefur m.a. gengið mikið í þýsku, austurrísku og svissnesku Ölpunum og einnig ferðast nokkuð um á hjóli á þessum slóðum. Kjartan hefur tekið þátt í nokkrum utanvegahlaupum í Evrópu en hann er vel kunnugur í Suður-Þýskalandi, Austurríki og Sviss.

Hótel

Hotel Adua & Regina Di Saba

Hotel Adua & Regina Di Saba er í bænum Montecanti Terme þar sem gist er 3 nætur. Herbergin eru notaleg með ókeypis nettengingu, flatskjá og míníbar. Morgunmatur framreiddur á veitingastað. Á hótelinu er útisundlaug og þar er einnig sauna. 

Vefsíða hótelsins.

Hotel Europa

Hotel Europa er á Versalíuströnd og þar er gist í 4 nætur. Hótelið er notalegt og herbergin þægileg með baði. Útisundlaug, sauna, notalegur garður, bar og veitingastaður. Stutt á baðströnd.

Vefsíða hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir