Portorož & Riva del Garda

Gaman saman í töfrandi ferð til Portorož í Slóveníu og Riva del Garda við Gardavatnið á Ítalíu. Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa ferð sem byrjar í Mílanó. Ekið þaðan til Portorož í Slóveníu, þar sem Istríaskaginn bíður okkar með suðrænum blæ og töfrandi ferðum. Skemmtileg sigling verður til Isola og Piran, sem eru perlur Istríastrandarinnar. Komið yfir til Króatíu, áð hjá Limski Canal, sem er rómaður fyrir fegurð, farið til listamannabæjarins Rovinj og vínbóndi sóttur heim þar sem bæði verður dansað og sungið. Poreč, einn elsti bærinn við ströndina, er einstaklega töfrandi en þar er að finna hina áhugaverðu Euphrasius Basilíku frá 6. öld sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Á leiðinni til Riva del Garda við Gardavatnið er áð í Veróna, borg menningar og lista. Hún er einhver fallegasta og elsta borg Norður-Ítalíu og sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Náttúrufegurðin gælir við okkur á siglingu til bæjanna Limone og Malcesine sem eru perlur Gardavatnsins. Komið á líflegan útimarkað í fræga vínræktarbænum Bardolino og á skómarkað í Dro sem er ein stærsta skóverslun á Norður-Ítalíu. Endum ferð með trompi í Mílanó borg.

Verð á mann í tvíbýli 299.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 77.700 kr.

 
Innifalið

 • 13 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Léttur hádegisverður í Pazin ca € 15.
 • Sigling til Isola og Piran ca € 18.
 • Aðgangur inn í Euphrasius Basiliku ca € 8.
 • Sigling til Limone og Malcesine ca € 17.
 • Léttur hádegisverður í Bardolino ca € 20.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

19. ágúst | Flug til Mílanó og gist þar

Brottför frá Keflavík kl. 13:55. Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 19:40 að staðartíma og ekið sem leið liggur á hótel í nágrenni við Mílanó þar sem gist er í eina nótt.

20. ágúst | Mílanó & Portorož

Eftir góðan morgunverð liggur leið okkar til Rósahafnarinnar eða Portorož í Slóveníu. Á leiðinni þangað verður stoppað á fögrum stað til að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa. Þegar komið er til Portorož verður gist þar í 5 nætur. Hótelið er á góðum stað við ströndina, með inni- og útisundlaug í hjarta Portorož. Einnig er hótelið með einkaströnd, heilsulind og á kvöldin er opinn útidansstaður þar sem hægt er að stíga dans eða njóta samveru ferðafélaga. 

21. ágúst | Sigling til Isola & Piran

Í dag verður boðið upp á siglingu til Isola og Piran. Byrjað á að sigla til Isola en ferðin heldur áfram til Piran sem er yndislegur bær með margt áhugavert að skoða. Þar fæddist fiðluleikarinn og tónskáldið Tartini en minnisvarði um hann stendur á hinu glæsilega Tartini-torgi. Eins er gaman að skoða Georgs-kirkjuna sem stendur sérstaklega tignarleg á einum magnaðasta stað strandarinnar. Hér er upplagt að fá sér létta hádegishressingu áður en siglt verður til baka.

Opna allt

22. ágúst | Frjáls dagur í Portorož & morgunleikfimi

Dagurinn tekinn snemma því fyrir morgunverð verður byrjað á leikfimi með fararstjóra í innisundlaug hótelsins. Síðan er morgunverður og frjáls dagur til að kanna umhverfið á eigin vegum. Þá er tilvalið að nýta sér góða og glæsilega aðstöðu hótelsins eða fá sér göngu með ströndinni yfir til Piran og njóta einstakrar náttúrufegurðar flóans milli Slóveníu og Króatíu.

23. ágúst | Skemmtilegur dagur í Króatíu, Rovinj & heimsókn til vínbónda

Skemmtilegur dagur í Króatíu sem byrjar á því að aka fagra leið um Istríaskagann. Á leiðinni verður stoppað fyrir ofan Limski Canal en þar þrengir fjörðinn svo mjög að meir minnir á skurð. Sá er oftast talinn fallegasti fjörður Króatíu og hefur fegurð hans dregið að sér marga kvikmyndatökumenn. Áfram er svo ekið til Rovinj sem er yndislegur listamannabær við Istríaströndina. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjar og sést sú stærsta, Sveta Katharina, vel frá gamla bænum. Við fáum okkur göngu upp að barokkkirkju heilagrar Euphemiu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir þessa litríku gömlu borg. Þar verður staldrað við, litið inn í listamannahverfið og kannað líf bæjarbúa. Það er skemmtilegt að líta á matarmarkaðinn og hvarvetna láta kaupmennirnir ekki sitt eftir liggja, því þeir eru fjölmargir í bænum. Nú, og auðvitað verður vínbóndinn í Pasin heimsóttur og borðaður hjá honum léttur hádegisverður. Þar verður sungið og dansað.

24. ágúst | Poreč í Króatíu & Euphrasius–basilíkan

Á dagskránni í dag er stutt heimsókn yfir til Króatíu þar sem bærinn Poreč, einn sá elsti við ströndina, tekur á móti okkur í allri sinni dýrð. Yndislegur bær sem skartar marmaralögðum götum og fögrum byggingum. Þar er að finna áhugaverða Euphrasius–basilíku frá 6. öld sem fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Auðvelt er að finna skemmtilegar verslanir, mikið af skartgripaverslunum og ekki má gleyma að góð kaffi- og veitingahús eru víða í bænum og upplagt að fá sér hádegishressingu áður en haldið er heim á hótel.

25. ágúst | Slökun í Portorož

Dagur í slökun og rólegheitum. Upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða taka sundsprett í sjónum. Baðströndin er örfáum skrefum frá hótelinu og hluti strandarinnar tilheyrir því. Íslenski veitingastaðurinn Prego er í Portorož sem gaman er að heimsækja.

26. ágúst | Portorož, Verona & Riva del Garda

Nú kveðjum við Portorož og ökum til Riva del Garda við Gardavatn. Við leggjum snemma af stað en á leiðinni þangað verður stoppað í Veróna, örugglega áhugaverðustu borg Norður-Ítalíu. Veróna er mikil menningar- og listaborg, frægust fyrir að vera sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Farið verður í skoðunarferð um borgina og staldrað við helstu staði þessarar merku borgar, svo sem þriðja stærsta hringleikahús veraldar, Arena, og Kryddtorgið með fögru byggingunum og minnisvörðunum. Allur miðbær borgarinnar eins og hann leggur sig er á heimsminjaskrá UNESCO og ekki að ástæðulausu. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna líf bæjarbúa á eigin vegum. Eftir það verður ekið til Riva del Garda þar sem gist verður í 5 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Hótelið er með inni- og útisundlaug, heilsulind, sauna og gufubaði. Einnig er mjög fallegur garður þar sem hægt er að sitja úti og njóta fegurðar staðarins.

27. ágúst | Sigling til Limone, Malcesine & Riva del Garda

Lífið er dásemd, nú verður farið í töfrandi siglingu á Gardavatni og verður fyrst siglt til Limone, fallegs bæjar við vatnið. Þar njótum við þess að þræða litlar þröngar götur og líta inn í fallegar verslanir. Síðan verður siglt til Malcesine, sem er mjög eftirsóttur ferðamannabær. Hér er upplagt að fara með kláf upp á Monte Baldo fjallið, hæsta fjallið við Gardavatn. Einnig er mjög áhugavert að skoða fallegan kastalann eða bara njóta náttúrufegurðarinnar og rölta um þennan dulúðlega bæ. Eftir það verður ekið til baka til Riva del Garda.

28. ágúst | Skoðunarferð & frjáls dagur í Riva

Dagur í rólegheitum en að loknum morgunverði förum við fótgangandi í smá skoðunarferð um bæinn Riva del Garda. Að henni lokinni gefst hverjum og einum frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum í þessum snotra bæ. Ganga litlar og þröngar götur hans, kíkja við í verslunum og kanna fallegu strandlengjuna. Einnig er kjörið að njóta aðstöðunnar á hótelinu, annaðhvort í sundlaugargarðinum eða í heilsulindinni.

29. ágúst | Útimarkaður í Bardolino, vínbóndi & skómarkaður

Ekin verður fögur leið suður með Gardavatni þar sem við þræðum litla bæi á leið okkar til Bardolino. „Þar er nóg, vín & vatn,“ eins og þeir segja. Bærinn er einn aðal vínræktar- og baðstrandarbær Gardavatns, líflegur og skemmtilegur bær að sækja heim og sér í lagi í dag þar sem líf og fjör er á útimarkaði bæjarins. Um hádegi verður síðan ekið til vínbónda í héraðinu þar sem boðið verður upp á hádegissnarl og auðvitað fáum við að smakka á frægu Bardolino vínunum. Við endum daginn á skómarkaði í Dro þar sem er að finna stærstu skóverslun á Norður-Ítalíu. En þaðan verður síðan ekið á hótelið í Riva del Garda.

30. ágúst | Slökun í Riva del Garda

Dagur í slökun og rólegheitum. Upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða taka sundsprett í vatninu. Stika götur bæjarins eða taka sér skemmtilega göngu með ströndinni til næsta bæjar Torbole sem er enn einn töfrandi bær við vatnið. 

31. ágúst | Riva del Garda & heimferð frá Mílanó

Það er komið að heimferð eftir þessa yndislegu daga í Portorož og við Gardavatn. Eftir góðan morgunverð munum við aka til heimsborgarinnar Mílanó. Byrjað verður að fara í stutta skoðunarferð um þessa fögru borg með farastjóra ykkar áður en frjáls tími verður gefinn. Þá er hægt að skoða borgina á eigin vegum, skoða dómkirkjuna sem er eitt af meistaraverkum gottneskar byggingarlistar og fara upp á þakið á kirkjunni en þaðan er fagurt útsýni yfir borgina. Líta síðan inn á kaupmenn borgarinnar sem eru fjölmargir og þá er upplagt að fá sér hressingu áður en ekið er út á flugvöll í Mílanó. Brottför þaðan kl. 20:40 og lent í Keflavík kl. 22:55 að staðartíma

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir