Maraþon í Berlín

Upplifðu að hlaupa maraþonið þar sem flest heimsmet hafa verið slegin! Leiðin er afar slétt, undirlagið jafnt og loftslagið í Berlín öllu jöfnu milt á þessum árstíma sem gerir það að verkum að Berlínarmaraþonið hefur oft verið bætingahlaup. Hvatning og stemning á meðal áhorfenda gerir upplifunina einstaka hvort heldur fyrir atvinnu- eða áhugamanninn. Hlaupið var fyrst haldið árið 1974 og á síðasta ári voru þátttakendurnir orðnir 44.489 frá 133 löndum. Maraþonið fer fram þann 29. september 2019.

Fararstjóri ferðarinnar gefur lausan tauminn en býður upp á létta dagskrá fyrir þá sem vilja. Hann er öllum hnútum kunnugur um Berlín. Þeir sem vilja geta tekið stuttan hlaupatúr með fararstjóranum en jafnframt heldur hann vel utan um þá ferðalanga sem ekki eru að hlaupa og býður t.d. upp á léttan göngutúr um áhugaverða staði í Berlín og fylgir þeim á helstu hvatningarstaðina á hlaupadaginn.

Berlínarmaraþonið er eitt af Abbott World Marathon Majors hlaupunum sem margir hlauparar hafa að markmiði að klára. WMM hlaupin eru haldin í Tókýó, London, Berlín, Boston, Chicago og New York. Bændaferðir eru umboðsaðilar fyrir Abbott World Marathon Majors á Íslandi.
Tryggðu þér örugga skráningu – í eitt hraðasta maraþon heims!

Verð á mann í tvíbýli 154.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 59.900 kr.

Með bókun í ferðina öðlast farþegar rétt á öruggri þátttöku í Berlínarmaraþonið (athugið að þátttakan í hlaupið er ekki innifalin í pakkanum). Bændaferðum er skylt að selja hlaupaskráninguna sem hluta af ferðapakka. 

 
Innifalið í verði

 • 5 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir til og frá flugvelli í Berlín.
 • Gisting í 2ja manna herbergi.
 • Morgunverður á veitingastað hótelsins.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra.
 • Réttur á öruggri þátttöku í maraþonið.

Ekki innifalið

 • Þátttökugjald í Berlínar maraþonið.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Þátttökugjald

Þátttökugjald í hlaupið 28.800 kr. til 1. febrúar 2019

Með bókun í ferðina öðlast farþegar rétt á öruggri skráningu í Berlínarmaraþonið (athugið að skráningin í hlaupið er ekki innifalin í pakkanum). Bændaferðum er skylt að selja hlaupaskráninguna sem hluta af ferðapakka. 

 
Innifalið í þátttökugjaldinu

 • Leiga á tímaflögu fyrir hlaupið.*
 • Aðgangur að glæsilegri hlaupasýningu (Expo).
 • Verðlaunapeningur.

*Athugið að Bændaferðir áskilja sér rétt til að innheimta gjald fyrir flögu sem ekki er skilað á rásmarki. Flagan verður þá eign hlauparans og skráð á hans nafn. Flöguna er unnt að nota í viðburðum um víðan heim þar sem ChampionChimp tímatökukerfið er notað.

Abbott World Marathon Majors

Berlínarmaraþonið er eitt af Abbott World Marathon Majors hlaupunum sem margir hlauparar hafa að markmiði að klára. Abbot World Marathon Majors er mótaröð fyrir bæði atvinnu- og áhugamenn. Í hlauparöðinni eru þekktustu og stærstu maraþon heimsins, þ.e. Tokyo, London, Berlín, Chicago, New York og Boston. Ár hvert keppa atvinnumenn innbyrðis í stigakeppni hlauparaðarinnar sem nú fer fram í 12. sinn. Það eru þó ekki einungis atvinnumenn sem taka þátt í Abbot World Marathon Majors því allir þeir sem ljúka öllum sex hlaupunum eru skráðir á frægðarvegginn og kallast „six star finishers“. Þeir sem ná afrekinu fá sérstakan verðlaunapening sem samanstendur af verðlaunapeningum úr öllum sex hlaupunum. 4113 hlauparar um allan heim hafa hlotið þann heiður að vera skráðir á frægðarvegginn og þar af eru 17 Íslendingar, sem margir hverjir hafa náð þeim árangri með Bændaferðum.

Bændaferðir er umboðsaðili fyrir Abbott World Marathon Majors á Íslandi og tryggja örugga skráningu í öll hlaupin.

Tryggðu þér örugga skráningu – í hraðasta maraþon veraldar!

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið 27. september 2019

Flogið verður með Icelandair til Berlínar 27. september. Brottför frá Keflavík kl. 7:40 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Berlín kl. 13.05 að staðartíma. Á heimleið, 1. október, verður flogið kl. 14:05. Lent í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Maraþonið 29. september 2019

Brautin í Berlínarmaraþoninu er svo sannarlega flöt og greið. Tilfinning hlauparans er að alltaf sé verið að hlaupa aðeins niður á við en einnig er undirlagið jafnt og loftslagið milt þegar hlaupið fer fram. Ellefu heimsmet hafa verið slegin í Berlínarmaraþoninu og núverandi Íslandsmet í maraþoni voru sett í Berlín. Það er því ekki að ástæðulausu að hlauparar sækja í Berlínarmaraþonið hvort heldur til þess að reyna við heimsmet, eigin besta tíma eða njóta þess að hlaupa í menningarborginni Berlín. Árið 2018 stórbætti Keníabúinn Eliud Kipchoge heimsmetið í maraþoni í Berlín. Kipchoge hljóp á 2:01:39 og bætti tíma Wilson Kigsang frá Berlínarmaraþoninu 2014 um 78 sekúndur. Þetta ku vera mesta bæting í maraþoni í 51 ár og til gamans má nefna að hraðinn sem hann hljóp á er ígildi þess að hlaupa 5 km á 14 mínútum og 29 sekúndum! Marta Ernstdóttir setti Íslandsmet í Berlínarmaraþoninu þegar hún hljóp á 2:35:15 árið 1999 og stendur það met óhaggað. Kári Steinn Karlsson sló einnig Íslandsmet árið 2011 í Berlín og hljóp á 2:17:12.

Hlaupið byrjar og endar við Brandenborgarhliðið en þaðan liggur leiðin fram hjá sögufrægum stöðum borgarinnar eins og Reichstag, Potsdamer Platz og dómkirkjunni svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir 1990 fór Berlínarmaraþonið fram í afmörkuðum hluta Vestur-Berlínar en þremur dögum fyrir sameiningu vestur og austur Þýskalands, 30. september 1990, fengu 25 þúsund maraþon hlauparar í fyrsta sinn að hlaupa í gegnum Brandenborgarhliðið og þar með í gegnum austur og vestur Berlín. Stundin þótti afar tilfinningaþrungin og sagt er að margir hlauparar hafi brostið í grát þegar þeir hlupu í gegnum hliðið.

Vefsíða Berlínar maraþonsins.

Berlín

Berlín, höfuðborg Þýskalands, stendur við ána Spree og er hún fjölmennasta borg Þýskalands með 3,5 milljónir íbúa. Borgin er kraumandi suðupottur fjölmargra menningarheima, enda menning og listir í hávegum hafðar. Þetta endurspeglast í listalífi borgarinnar og safnaflóru.

Hin sögufræga höfuðborg Berlín hefur verið aðsetur þjóðhöfðingja allt frá því hún var stofnuð á 13. öld og er hún í dag stærsta borg Þýskalands. Helstu kennileiti borgarinnar eiga sér sterka tilvísun í umhleypingasama sögu borgarinnar á síðustu öld, eins og leifar af Berlínarmúrnum, minnismerki um helförina og Brandenborgarhliðið. Arkitektúr borgarinnar er mjög áhugaverður, bæði fornar byggingar og nýjar, eins og t.d. þinghúsið Reichstag og tónlistarhúsið Berliner Philharmonie.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalsteinn Jónsson

Ég heiti Aðalsteinn Jónsson, kvæntur og þriggja sona faðir sem allir eru á kafi í fótbolta og fleiri íþróttum. Ég er lærður íþróttakennari og starfa við það í dag.

Ég starfaði í 10 ár sem fararstjóri, m.a. í Kempervennen Hollandi þar sem stílað var inn fjölbreytta afþreyingu fyrir barnafjölskyldur. Mikið var lagt upp úr alhliða hreyfingu - göngu- og hjólaferðir fyrir alla aldurshópa.

Hótel

ARCOTEL Velvet Berlin

Gist verður á ARCOTEL Velvet Berlin sem er einstaklega vel staðsett 4* hótel í Berlin Mitte. Einungis 20 mínútna gangur er frá Brandenburgarhliðinu þar sem hlaupið hefst. Í næsta nágrenni við hótelið eru fjölmargar verslanir og veitingastaðir. Á hótelinu eru 85 herbergi með loftkælingu, flatskjá, míníbar og öryggishólfi. Ókeypis internet aðgangur er á öllu hótelinu fyrir gesti.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir