Þriggja landa hjólaferð

Bodensee vatninu, þriðja stærsta stöðuvatni Evrópu, er oft líkt við fljótandi spegil en fjöllin í kring speglast í vatninu og er það mikið sjónarspil. Þrjú lönd liggja að Bodensee en þau eru Austurríki, Sviss og Þýskaland. Umhverfis vatnið er að finna hrífandi bæi, yndislega náttúru og umhverfi sem býður upp á sérlega góða möguleika til útivistar.

Við höldum til Austurríkis og njótum þess að dvelja í menningarborginni Bregenz, sem fræg er fyrir stórkostlegt leiksvið úti í Bodensee vatninu. Þaðan verður farið í fjölbreyttar dagsferðir með fram þýskum, austurrískum og svissneskum strandlengjum Bodensee, t.d. til Friedrichshafen sem þekktur er fyrir loftför Zeppelin, miðaldabæjanna Lindau og Meersburg þar sem elsti miðaldakastali Þýskalands trónir. Við hjólum yfir landamærin til Sviss, í gegnum litla þorpið Altenrhein og fram hjá markaðshöll listamannsins Hundertwasser. Við höfum einnig möguleika á að fara út í blómaeyjuna fögru Mainau, sem ætíð breytir um svip eftir árstíðum. Við fræðumst um lífræna vín- og ávaxtarækt, röltum um notalega bæi og njótum lífsins. Gist verður á 4*hóteli í Bregenz þar sem hægt er að fara í sánu á hótelinu til að láta líða úr sér eftir hjólaferð dagsins. 

Verð á mann í tvíbýli 227.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 36.600 kr.


Innifalið

 • 8 dagar
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallar í Zürich og hótels.
 • 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelinu.
 • Hjóladagskrá.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra hjóli 22.500 kr. í 6 daga.
 • Leiga á rafhjóli 33.700 kr. í 6 daga.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Bátsferðir á vatninu.
 • Kláfar, lestarferðir og leigubílar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Undirbúningur fyrir ferð

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 24-48 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. 

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Zürich þann 14. júní. Brottför frá Keflavík kl. 07:20 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich kl. 13:00 að staðartíma. Frá flugvellinum til Bregenz eru um 120 km og má því gera ráð fyrir að rútuferðin frá flugvellinum á gististað taki um 1,5 klst. Þann 21. júní förum við eftir morgunverð með rútu á flugvöllinn í Zürich en þaðan verður flogið kl. 14:00. Lending á Íslandi kl. 15:50 að staðartíma.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Svæðið

Menningarborgin Bregenz er austurrísk borg austast við Bodensee vatnið en hún liggur á milli þess og staðarfjallsins Pfänder. Hún er höfuðstaður sambandslandsins Vorarlberg og búa þar tæplega 30 þúsund manns. Bregenz er einna þekktust fyrir Bregenzer Festspiele, menningarhátíð sem stendur yfir í júlí og ágúst ár hvert en hápunktur hátíðarinnar er óperusýning á tröllvöxnu leiksviði, staðsettu úti í vatninu og er þetta stærsta útileiksvið í heimi. Sjón er sögu ríkari! Aðrir áhugaverðir staðir í Bregenz eru t.d. Martins turninn, turn í barokkstíl með gríðarstórri viðarhvelfingu en í dag er turninn eitt aðalkennileiti borgarinnar. Einnig er að finna fjöldann allan af söfnum fjölbreyttrar listar, kirkjur og byggingar mismunandi tíma. 

Tillaga að dagleiðum

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum að hluta. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

Dagleið 1 | Bregenz - Lindau

Frá höfninni í Bregenz liggur hjólaleið dagsins með fram Bodensee, fram hjá Lochau, yfir austurrísku-þýsku landamærin til borgarinnar Lindau, einnar þekktustu borgarinnar við vatnið. Hinn sögulegi miðbær Lindau er úti á eyju í vatninu og er tengdur meginlandinu með brú. Eitt aðalkennileiti Lindau er stytta bæverska ljónsins og vitinn gegnt henni. Borgin er einstaklega falleg og býr auk þess yfir einu fallegasta hafnarstæðinu við vatnið með glæsilegri alpasýn.

 • Lengd: ca 32 km
 • Hækkun: 56 m
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

Dagleið 2 | Bregenz – Romanshorn

Í dag hjólum við frá Bregenz til Romanshorn, með fram Bodensee, sunnan megin vatnsins. Óteljandi baðstaðir og fallegir bæir og þorp verða á vegi okkar. Við hjólum frá Bregenz, yfir ána Rín og komum fljótlega yfir landamærin til Sviss. Við hjólum í gegnum litla þorpið Altenrhein, fram hjá markaðshöll listamannsins Hundertwasser, áfram til Rohrschach og þaðan til rómverska bæjarins Arbon. Hjólum í gegnum eplaríka héraðið Thurgau til Romanshorn. Þar er stærsta og mikilvægasta höfn Bodensee. Tökum lest/ferju til baka.

 • Lengd: ca 48 km
 • Hækkun/lækkun: 20/30 m
 • Erfiðleikastig: létt

Dagleið 3 | Friedrichshafen – Bregenz

Við hefjum daginn á 2 klst. bátsferð til Friedrichshafen. Þar getum við litið inn á Zeppelin safnið en Friedrichshafen er einna þekktastur fyrir loftför sín. Eftir smá skoðunarferð höldum við af stað til baka á hjólunum til Bregenz. Við förum m.a. fram hjá náttúruverndarsvæði Eriskircher Ried, fallegt svæði ósnortins dýralífs og gróðurs. Hjólum fram hjá ýmsum fallegum og sögulegum byggingum, í gegnum ótal eplaræktunarsvæði og bæinn Nonnenhorn þar sem er áhugaverð vínpressa rétt við hjólastíginn. Þá í gegnum Wasserburg, einstaklega fallegan bæ og útsýnið niður við vatnið er eins og að horfa á málverk! Hjólum í gegnum Lindau og til baka til Bregenz.

 • Lengd: ca 35 km
 • Hækkun/lækkun: 21/23 m
 • Erfiðleikastig: miðlungs

Dagleið 4 | Kláfur og hjól - Pfänder hringurinn

Í dag förum við með kláfi upp á Pfänder, staðarfjall Bodensee vatnsins og fáum notið dásamlegs útsýnis sem lætur engan ósnortinn. Hjólum svo í gegnum hæðir Bregenzer skógarins, í gegnum Leiblach dalinn og til baka niður að Bodensee og þaðan aftur til Bregenz. Hjólum í gegnum ýmis þorp og bæi og má t.a.m. nefna Möggers, Sigmarszell, Hörbranz, Unterhochsteg og Lochau.

 • Lengd: ca 30 km
 • Hækkun/lækkun: 223/830 m
 • Erfiðleikastig: létt

Dagleið 5 | Pfänder kláfurinn yfir Fluh og Kennelbach að Bregenzerach

Nú setjumst við aftur upp í kláfinn og förum upp á Pfänder. Þegar upp er komið hjólum við í áttina að Hirschberg og þaðan í áttina að Jungholz og Langen. Hjólum á skógarstígum áfram til Fluh og í gegnum skóginn í áttina að Kennelbach. Áfram í gegnum lítil fjallaþorp og í yndislegri náttúru niður á við, síðan með fram Bregenzerach ánni og eins og leið liggur á hótelið.

 • Lengd: ca 24 km
 • Hækkun/lækkun: 100/621 m
 • Erfiðleikastig: létt

Frídagur

Á frídegi okkar væri upplagt að heimsækja fallegu blómaeyjuna Mainau. Þá verður farið með ferju frá Bregenz og alla leið til Mainau. Komum þangað um hádegisbil og skoðum þessa yndislega fallegu blómaeyju. Blómadýrð eyjunnar dregur að 1,2 milljón gesta ár hvert og þarf engan að undra. Heimferð síðdegis með ferju. Á leiðinni virðum við fyrir okkur Meersburg, þar sem elsti miðaldakastali Þýskalands trónir. Einnig væri möguleiki að heimsækja dvergríkið Liechtenstein, þá er tekin lest og almenningsvagn til Vaduz en sú ferð tekur um 1,5 klst. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Hótel

Hotel Schwärzler

Gist verður í 7 nætur á 4* hótelinu Hotel Schwärzler. Morgunverðir og 3ja rétta kvöldverðir settir saman úr fyrsta flokks hráefni af Vorarlberg svæðinu. Á hótelinu er sána og líkamsræktaraðstaða. Herbergin eru öll búin skrifborði, flatskjá, þráðlausu interneti, míníbar, öryggishólfi, síma og hárþurrku. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir