Vordagar í Madríd & Valencia
4. - 12. apríl 2025 (9 dagar)
Í þessari fróðlegu og skemmtilegu ferð heimsækjum við glæsilegar og einstaklega áhugaverðar spænskar borgir, heimsborgina Madríd og hina undurfögru Valencia. Við förum einnig í skemmtilegar dagsferðir á áhugaverða staði í nágrenni Valencia. För okkar hefst í höfuðborginni Madríd sem tekur á móti okkur með sínum grænu görðum og margbreytilegri menningu. Hún er heimsborg en hefur samt skemmtilegan þorpssjarma með litlum snotrum kaffihúsum, menningarminjum og miðborgarkjarna. Við skoðum okkur um í borginni og lítum á helstu kennileiti. Á leið til Valencia verður komið við í fornu borginni Toledo en hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin Valencia er ein fegursta borg Spánar, borg paellunnar, þekktasta rétts spænskrar matargerðar. Við förum í siglingu um náttúruþjóðgarðinn Albufera og skoðum bæinn Sagunto þar sem áhrifa gætir frá Íberíumönnum og Rómverjum. Við förum einnig í magnaða siglingu í San Josep hellinum þar sem við ferðumst eftir neðanjarðará og upplifum ævaforn hellamálverk í bland við dropasteina. Ekki má svo gleyma heimsókn í fjallaþorpið Guadalest sem stofnað var af Márum á 8. öld. Við stöldrum einnig við í einu af þekktustu vínhéruðum landsins þar sem við fræðumst um vínrækt og smökkum afurðirnar.