Páskar í Róm & á Amalfíströndinni
13. -25. apríl 2025 (13 dagar)
Róm, Sorrento, Amalfíströndin og eyjan Caprí eru sannkallaðar draumaperlur Ítalíu en kyngimögnuð fegurð þessara staða umvefur okkur í þessari glæsilegu ferð. Hún hefst í hinni einstöku Róm sem var fyrsta borg heimsins til að ná einni milljón íbúa. Engin borg í heiminum er eins rík af fornminjum og Róm og hér verða margir áhugaverðir staðir skoðaðir, m.a. Kapítólhæðin, Forum Romanum, Pantheon og Colosseum. Við upplifum iðandi mannlíf Rómarbúa hjá Trevi gosbrunninum, við Spænsku tröppurnar og Piazza Navona torgið og sækjum Vatíkanið og Péturskirkjuna heim. Því næst bíður hinn dásamlegi Napólíflói sem er einn fallegasti flói landsins og þar er einnig Sorrento, eftirsóttasti ferðamannabær hans, þar sem við njótum ljúfra daga. Boðið verður upp siglingu til sæbrattrar klettaeyjunnar Caprí þar sem siglt verður fram hjá Bláa hellinum og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar, Monte Solaro. Komið verður í hrífandi gömlu konungsborgina Napólí sem er höfuðborg Campania héraðs við Napólíflóa. Við siglum bæði og ökum með Amalfíströndinni, sem er ein fallegasta strönd Ítalíu, með viðkomu í bæjunum Amalfí og Positano. Við skoðum okkur einnig um í Pompei þar sem finna má eina af frægustu fornminjum veraldar.