Aðventuveisla í Washington
4. - 9. desember 2024 (5 dagar)
Spennandi ferð til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, þar sem við kynnumst áhugaverðri sögu og njótum þess að skoða okkur um í jólaljósum borgarinnar. Washington var stofnuð árið 1790 og stendur á bökkum ánna Potomac og Anacostia. Hún er nefnd eftir einum stofnanda hennar, George Washington, sem valdi henni einnig stað. Við skoðum þjóðardómkirkjuna sem er sjötta stærsta dómkirkja í heiminum og kynnumst einum elsta hluta borgarinnar, Georgetown. Þar er mikil saga sem nær aftur fyrir stofnun höfuðborgarinnar sjálfrar og þar hafa margar merkar persónur búið. Í Georgetown er iðandi mannlíf og mikið úrval verslana. Þar er einnig skemmtilegt hafnarsvæði og almenningsgarður. Við erum einstaklega vel staðsett í nágrenni Hvíta hússins, bústað forseta Bandaríkjanna, og munum virða það fyrir okkur bæði frá Lafayette torgi sem og frá syðri enda forsetagarðsins þar sem jólatré Washington búa stendur einnig í Ellipse garði. Hér munum við njóta jólaljósa borgarinnar og þess anda sem þar ríkir í aðdraganda jóla. Við skoðum helstu mannvirki borgarinnar sem reist hafa verið í minningu einstaklinga og atburða sem hafa haft áhrif á sögu landsins. Komum við í nýju og fallegu bryggjuhverfi við bakka Potomac, The Wharf, þar sem gaman er að staldra við og njóta góðra veitinga og fallegs umhverfis.