31. maí - 7. júní 2025 (8 dagar)
Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa skemmtilegu ferð þar sem við dveljum í Rósahöfninni í Slóveníu eða Portorož, en hún stendur á fallegum stað við strönd Adríahafsins. Hér er heillandi umhverfi, líflegt andrúmsloft og næg tækifæri til þess að slaka á og njóta, enda er Portorož þekkt fyrir ríka heilsulindar menningu með góðum aðgangi að jarðvarma og salti. Hér ríkir milt miðjarðarhafsloftslag og í því dafnar gróðurinn vel, runnar, pálmar og rósir. Héðan förum við í margar skemmtilegar dagsferðir. Við skoðum okkur um í hinum víðfrægu Postojna dropasteinshellum en umhverfi hellanna er mjög fallegt. Við höldum m.a. í siglingu til þorpanna Izola og Piran, sem eru tvær af perlum Istríastrandarinnar. Í Piran skoðum við minnismerki um fiðluleikarann og tónskáldið Tartini og lítum á Georgskirkjuna sem stendur tignarleg á fallegum stað á ströndinni. Umhverfi Rovinj er dásamlegt en á leið okkar þangað verður áð fyrir ofan Limski skurðinn sem iðulega er talinn vera fallegasti fjörður Króatíu. Við heimsækjum vínbónda í Pazin þar sem við snæðum léttan málsverð. Einnig verður komið til Poreč sem er einstaklega töfrandi og með elstu bæjunum við ströndina, en þar er m.a. að finna hina áhugaverðu Euphrasius basilíku frá 6. öld sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Í þessari dásamlegu ferð njótum við okkar í fallegum strandbæjum Istríuskagans við Adríahaf.