4. - 12. júní 2024 (9 dagar)
Eire, eyjan græna Írland, býður upp á svo ótal margt sem gleður, fallegt landslag, áhugaverða sögu, söngva, sagnir og skemmtilegt kráarlíf. Flogið verður til Dublin og þaðan ekið vestur á bóginn. Á leiðinni til Galway sýslu verður komið við í Clonmacnois klaustrinu við ána Shannon þar sem varðveittar eru merkar minjar frá frumkristni. Farið verður um Connemara skagann þar sem við njótum einstaks landslags en þaðan koma steinarnir sem prýða marga írska skartgripi. Í Kylemore skoðum við frægan klausturskóla í afar fögru umhverfi. Ekið verður um Burren svæðið og úti við strönd Atlantshafs skoðum við hina stórbrotnu og þverhníptu Moher kletta, ásamt því að taka ferju yfir Shannon fljótið til Tralee. Kerry hringurinn margfrægi verður ekinn og á vegi okkar verða litskrúðug sjávarþorp, fornar byggingar og í Waterville komumst við að raun um hvers vegna Charlie Chaplin dvaldi þar mörg sumur. Farið verður um hrjóstrugan Dingle skaga þar sem finna má merkar og fjölbreyttar fornleifar og falleg lítil þorp en þar skellum við okkur einnig á afar áhugaverða fálkasýningu. Við ökum að hafnarbænum Cobh sem verður að eilífu tengdur nafni Titanic, þaðan sem skipið hélt í sína hinstu för. Eigum dag í borginni Cork þar sem við göngum um steinlagðar götur miðbæjarins og njótum þess að upplifa þennan líflega bæ. Ferðinni lýkur með dvöl í Dublin þar sem við munum skoða okkur stuttlega um og fara á írskt skemmtikvöld áður en haldið er heim á leið.