Írland - eyjan græna

Eire, eyjan græna Írland, býður upp á svo ótal margt sem gleður, fallegt landslag, áhugaverða sögu, söngva, sagnir og skemmtilegt kráarlíf. Flogið verður til Dublin og þaðan ekið vestur á bóginn. Á leiðinni til Galway sýslu verður komið við í Clonmacnois klaustrinu við ána Shannon þar sem varðveittar eru merkar minjar frá frumkristni. Farið verður um Connemara skagann þar sem við njótum einstaks landslags en þaðan koma steinarnir sem prýða marga írska skartgripi. Í Kylemore skoðum við frægan klausturskóla í afar fögru umhverfi. Ekið verður um Burren svæðið og úti við strönd Atlantshafs skoðum við hina stórbrotnu og þverhníptu Moher kletta, ásamt því að taka ferju yfir Shannon fljótið til Tralee. Kerry hringurinn margfrægi verður ekinn og á vegi okkar verða litskrúðug sjávarþorp, fornar byggingar og í Waterville komumst við að raun um hvers vegna Charlie Chaplin dvaldi þar mörg sumur. Farið verður um hrjóstrugan Dingle skaga þar sem finna má merkar og fjölbreyttar fornleifar og falleg lítil þorp en þar skellum við okkur einnig á afar áhugaverða fálkasýningu. Við ökum að hafnarbænum Cobh sem verður að eilífu tengdur nafni Titanic, þaðan sem skipið hélt í sína hinstu för. Eigum dag í borginni Cork þar sem við göngum um steinlagðar götur miðbæjarins og njótum þess að upplifa þennan líflega bæ. Ferðinni lýkur með dvöl í Dublin þar sem við munum skoða okkur stuttlega um og fara á írskt skemmtikvöld áður en haldið er heim á leið.

Verð á mann 339.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 72.100 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hótelum.
  • Sjö kvöldverðir á hótelum.
  • Ferja frá Killimer til Tarbert.
  • Aðgangur í Moherkletta.
  • Aðgangur að viskísafninu í Midleton ásamt vískismökkun.
  • Aðgangur að Titanic safninu í Cobh.
  • Írskt skemmtikvöld með kvöldverði, dansi og söng.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. júní | Flug til Dublin & ekið til Athenry í Galway sýslu

Brottför frá Keflavík kl. 7:30 með Icelandair. Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2,5 klst. fyrir brottför. Lent á Dublin flugvelli kl. 11:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið þvert yfir Írland, um blómlegar sveitir og bæi. Á leiðinni verður litið við í klaustrinu Clonmacnoise sem stendur á einstaklega fallegum stað við bakka árinnar Shannon en þar eru merkar minjar frá frumkristni. Við höldum svo beinustu leið vestur í Galway sýslu út við vesturströndina og gistum í tvær nætur í þorpinu Athenry nálægt Galway.

5. júní | Connemara skaginn

Í dag verður farinn hringur norður um Connemara skagann þar sem við njótum einstaks landslags en þaðan koma Connemara steinarnir frægu sem notaðir eru í skartgripi og ýmsa nytjahluti. Svæðið einkennist af fjölda vatna og mýra, umkringt fjöllum. Ekið verður með fram Lough Corrib vatni, gegnum Oughterard þorpið og áfram til Kylemore þar sem hinn frægi klausturskóli er í afar fallegu umhverfi. Eftir það er komið við í hinum líflega bæ Galway þar sem við skoðum okkur aðeins um í litríkum miðbænum áður en haldið verður til baka á hótelið.

6. júní | Moher klettarnir & ferjusigling til Tralee

Eftir morgunverð leggjum við af stað til Tralee þar sem gist verður næstu þrjár nætur. Á leiðinni verður ekið í gegnum Burren landsvæðið sem einkennist af sprungnum grjóthellum sem eru mjög sérstakt gróður- og jarðfræðifyrirbæri. Úti við hafið skoðum við Moher klettana, stórbrotið bjarg sem er þverhnípt strandlengja, 200 metra há og 8 kílómetra löng. Bjargið er ein af perlum Írlands og þykir stórkostleg sýn en á góðum degi er útsýni til Aran eyjanna, sem peysurnar frægu eru kenndar við. Áfram er haldið til Killimer þar sem Shannonferjan er tekin yfir til Tarberte. Við endum þennan dag á hóteli í Tralee, sem er stærsti bær Kerry sýslunnar. Í frægu lagi er sungið um Maríu - rósina frá Tralee eða Seljadalsrósina eins og hún var nefnd í íslenskri þýðingu.

Opna allt

7. júní | Kerry hringurinn & sumardvalarstaður Charlie Chaplin

Í dag förum við svonefndan Kerry hring sem að ýmsu leyti má líkja við gullna hringinn hér heima því hann þykir ómissandi á ferðalagi um vesturhluta Írlands. Á leiðinni verða á vegi okkar hugguleg þorp eins og t.d. Milltown, Killorglin, Cahersiveen, Sneem og Waterville, uppáhalds sumardvalarstaður Charlie Chaplin. Farið verður yfir fjöllin, litið yfir landið frá útsýnisstaðnum Ladies view og haldið niður að Killarney vötnunum og samnefndum bæ en svæðið er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Írlands.

8. júní | Dingle skaginn & Dunmore Head

Þennan dag er förinni heitið út á hrjóstrugan og vogskorinn Dingle skagann. Sumir fornleifafræðingar halda því fram að fáir staðir í Vestur-Evrópu geymi eins merkar og fjölbreyttar fornminjar og hér finnast. Á þessum slóðum er mannlíf talið hafa þrifist í nærri 6000 ár. Við njótum þess að aka hring um skagann, skoða okkur um og staldra við í Dingle bænum eða á útsýnisstöðum. Förum einnig á afar áhugaverða fálkasýningu þar sem við sjáum m.a. hauka, uglur, erni og fálka leika listir sínar. Á Fahan svæðinu á vestanverðum skaganum finnast sérkennileg kúluhús úr steini sem flest eru talin vera frá 12. öld en eiga sér mun eldri fyrirmyndir. Við Dunmore höfða á vesturströndinni liggja í fjörunni leifar flaksins af Rangá sem missti vélarafl í miklum stormi árið 1982. Skipið var leiguskip Hafskipa og var í jómfrúarferðinni til Íslands frá Spáni. Suðvestast á nesinu er magnað útsýni yfir á Blasket eyjarnar. Frá Dingle höldum við aftur til Tralee.

9. júní | Cobh & Jameson viskísafnið í Midleton

Í dag er stefnan tekin á hafnarbæinn Cobh en þaðan héldu margir Írar á vit betra lífs í Vesturheimi þegar þrengdi að heima. Þaðan fór Titanic í sína hinstu för. Við höldum svo til Midleton og skoðum þar viskíverksmiðjuna þar sem Jameson er búið til ásamt fleiri viskítegundum. Saga viskígerðar á Írlandi er löng og merkileg og henni fáum við að kynnast í gömlu viskígerðinni sem nú er safn. Þeir sem vilja geta fengið að smakka á þessari heimsþekktu framleiðslu. Gistum í tvær nætur í Midleton sem er í Cork sýslu.

10. júní | Cork

Eftir morgunverð höldum við til Cork sem er næst stærsta borg Írlands. Við göngum saman um steinlagðar götur miðbæjarins en eftir það gefst frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum, líta á líflegt verslunarfólk og setjast á matsölustað eða krá. Gaman er að kíkja á Enska markaðinn sem hefur verið starfræktur frá árinu 1788 og staðið af sér eldsvoða, borgarastyrjöld og tilraunir til nafnabreytinga. Hér er tilvalið að smakka á hefðbundinni írskri matargerð. Seinnipart dags verður haldið til baka á hótel í Midleton.

11. júní | Dublin

Nú er stefnan tekin á Dublin þar sem gist verður í eina nótt. Við komuna til Dublin býður fararstjóri upp á gönguferð um borgina. Á vegi okkar verður fjöldi frægra bygginga, svo sem pósthúsið við O´Connell stræti þar sem páskauppreisnin hófst árið 1916, gamla þinghúsið, Trinity háskólinn og kirkja heilags Patreks. Um kvöldið verður boðið upp á írskt skemmtikvöld með kvöldverði, dansi og söng.

12. júní | Heimferðardagur

Það er komið að heimför. Brottför með Icelandair kl. 14:50 og lending í Keflavík kl. 16:35 að íslenskum tíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00




Póstlisti