13. - 23. júní 2024 (11 dagar)
Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa skemmtilegu ferð. Flogið verður til Feneyja, sem stundum hafa verið kallaðar drottning Adríahafsins, þar sem gist verður í þrjár nætur í miðbænum. Farið verður í skemmtilega skoðunarferð og við Canal Grande gefur að líta einar 200 glæsilegar hallir og við Markúsartorgið stendur Markúsarkirkjan, ein merkilegasta kirkjubygging veraldar, sem byggð er í austrænum stíl og minnir helst á höllina úr ævintýrinu Þúsund og ein nótt. Listamannabærinn Rovinj í Króatíu tekur svo á móti okkur með suðrænum blæ en á leiðinni þangað skoðum við okkur um í hinum víðfrægu Postojna dropasteinshellum. Rovinj er litríkur bær sem iðar af mannlífi en þar mun fara vel um okkur og góður tími gefast til að skoða bæinn á eigin vegum. Við heimsækjum hinn einstaklega töfrandi bæ Poreč, einn elsta bæ Istríastrandarinnar, en þar er m.a. að finna hina áhugaverðu basilíku sem kennd er við himnaför Maríu. Á leið okkar til Poreč verður áð hjá Limski Kanal og endum við síðan þennan skemmtilega dag á að sækja vínbónda heim í bænum Pazin þar sem tekið verður á móti okkur með mat, drykk og skemmtilegheitum að hætti Istríubúa. Við förum í dásamlega siglingu út í eyjuna Brijuni og sunnarlega við Istríaströndina er hin merka borg Pula sem er lífleg og heillandi borg með ægifagra strönd og margar fornar og glæstar byggingar.