11. - 18. apríl 2025 (8 dagar)
Tékkland er yndislegt að vori þegar gróðurinn er að vakna af dvala eftir veturinn. Hér verður farið í skemmtilega ferð til gullborgarinnar Prag og keisaraborgarinnar Brno sem eru tvær af áhugaverðustu og fegurstu borgum Tékklands, hvor með sinn sjarma. Við hefjum ferðina í Brno sem er í dag með virtari háskólaborgum landsins, einkar lífleg og skemmtileg. Þessi önnur stærsta borg Tékklands er sannkallaður falinn gimsteinn enda ekki eins þekkt og höfuðborgin Prag en engu að síður stútfull af sögulegum byggingum í bland við nútímaarkitektúr frá fyrri hluta 20. aldar. Við förum í skoðunarferð um borgina og sjáum helstu kennileiti hennar. Einnig heimsækjum við Capuchin munkana og fræðumst um afar áhugaverðar greftrunaraðferðir þeirra og snæðum hádegisverð í nunnuklaustri. Eftir góða daga í Brno verður haldið til Prag en með viðkomu í miðaldabænum Kutná Hora sem þrátt fyrir að vera í dag lítill bær keppti fyrr á öldum við Prag í stórfengleika og yfirburðum. Í Prag setja menning, listir og dulúð miðalda svip sinn á borgina sem iðar af mannlífi og einkennist af glæstum byggingum, Karlsbrúnni, Hradcanykastalanum, ráðhúsinu með stjörnuúrinu, kirkjum, listasöfnum, kristal og litskrúðugum verslunum.