Vorgleði í Prag & Brno

Tékkland er yndislegt að vori þegar gróðurinn er að vakna af dvala eftir veturinn. Hér verður farið í skemmtilega ferð til gullborgarinnar Prag og keisaraborgarinnar Brno sem eru tvær af áhugaverðustu og fegurstu borgum Tékklands, hvor með sinn sjarma. Við hefjum ferðina í Brno sem er í dag með virtari háskólaborgum landsins, einkar lífleg og skemmtileg. Þessi önnur stærsta borg Tékklands er sannkallaður falinn gimsteinn enda ekki eins þekkt og höfuðborgin Prag en engu að síður stútfull af sögulegum byggingum í bland við nútímaarkitektúr frá fyrri hluta 20. aldar. Við förum í skoðunarferð um borgina og sjáum helstu kennileiti hennar. Einnig heimsækjum við Capuchin munkana og fræðumst um afar áhugaverðar greftrunaraðferðir þeirra og snæðum hádegisverð í nunnuklaustri. Eftir góða daga í Brno verður haldið til Prag en með viðkomu í miðaldabænum Kutná Hora sem þrátt fyrir að vera í dag lítill bær keppti fyrr á öldum við Prag í stórfengleika og yfirburðum. Í Prag setja menning, listir og dulúð miðalda svip sinn á borgina sem iðar af mannlífi og einkennist af glæstum byggingum, Karlsbrúnni, Hradcanykastalanum, ráðhúsinu með stjörnuúrinu, kirkjum, listasöfnum, kristal og litskrúðugum verslunum. 

Verð á mann í tvíbýli 319.800 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 78.200 kr.

Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Sex kvöldverðir á hótelum.
  • Einn kvöldverður á veitingastað í Prag.
  • Hádegisverður í nunnuklaustri í Brno.
  • Heimsókn í vínkjallara í Kutná Hora.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir aðrir en talið er upp undir innifalið.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Gyðingasafnið í Prag u.þ.b. € 6.
  • Sigling ásamt einum drykk á ánni Moldá í Prag u.þ.b. € 15.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

11. apríl | Flug til Prag

Brottför frá Keflavík kl. 7:20, mæting í Leifsstöð um 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Prag kl. 13:05 að staðartíma. Ekið verður beint til Brno í Tékklandi þar sem gist verður í þrjár nætur í miðbænum. Til gamans má geta að þetta er heimaborg fararstjórans, hans Pavels.

12. apríl | Capuchin munkaklaustrið, dómkirkjan og hádegismatur hjá nunnum

Brno er önnur stærsta borg Tékklands á eftir Prag en þessi vinalega borg er stútfull af sögulegum byggingum í bland við eftirtektarverðan nútímaarkitektúr frá fyrri hluta 20. aldarinnar. Við höldum til Capuchin munkanna en þeir komu fyrst til Brno árið 1604 og hafa rekið þar klaustur síðan. Við fræðumst meðal annars um greftrunaraðferðir munkanna sem eru afar áhugaverðar. Dómkirkjan í Brno á rætur sínar að rekja til 11. og 12. aldar en frá háum turnum hennar er fallegt útsýni yfir Brno og nágrenni.
Við ljúkum dagskrá dagsins með því að snæða saman hádegisverð í nunnuklaustri. Að honum loknum gefst hverjum og einum frjáls tími til að rölta um borgina á eigin vegum og njóta þess afslappaðs andrúmslofts sem í henni ríkir.

13. apríl | Skoðunarferð um Brno

Í dag verður farið í skoðunarferð um Brno, þetta er gömlu keisaraborg sem í dag er með virtari háskólaborgum landsins, einkar lífleg og skemmtileg. Við sjáum meðal annars gamla ráðhúsið og þjóðarleikhúsið sem nefnt er eftir tékkneska tónskáldinu Leoš Janáček.Við endum skoðunarferðina á aðaltorgi bæjarins og þá gefst frjáls tími þar sem hægt er að skoða sig um á eigin vegum.

Opna allt

14. apríl | Kutná Hora & Prag

Nú verður ferðinni haldið til gullborgarinnar Prag. Á leiðinni verður komið við í miðaldabænum Kutná Hora, sem þrátt fyrir að vera lítill bær í dag, keppti fyrr á öldum við Prag í stórfengleika og yfirburðum. Við förum í stutta skoðunarferð um bæinn og sjáum m.a. dómkirkju heilagrar Barböru og hina skuggalegu beinakirkju, Sedlec Ossuary, sem er svo sannarlega ekki hefðbundinn ferðamannastaður. Miðbær Kutná Hora er einstaklega fallegur en hann komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Hér verður tími til að fá sér hádegishressingu en við munum einnig koma við í vínkjallara þar sem við brögðum á framleiðslu svæðisins. Þessu næst verður haldið áfram til Prag þar sem gist verður í fjórar nætur á góðu hóteli.

15. apríl | Skoðunarferð um Prag & frjáls tími

Við hefjum daginn á skoðunarferð um þessa glæsilegu höfuðborg Tékklands sem hefur verið ein helsta menningarmiðstöð Evrópu um aldir. Farið verður að Karlsbrúnni, ráðhúsinu og Wenzel torginu svo eitthvað sé nefnt. Snæðum sameiginlegan hádegisverð á veitingastað frá 13. öld við ráðhústurninn en ein af frægustu stjörnuklukkum veraldar prýðir turninn. Eftir hádegi gætu áhugasamir til dæmis skoðað Gyðingahverfið en einnig er gaman að rölta um og láta borgina hreinlega leiða sig áfram.

16. apríl | Hallarsvæðið Hradčany

Fyrri part dags verður farið í skoðunarferð um Hradčany kastala sem hefur verið bústaður forseta lýðveldisins síðan 1918. Á 9. öld hófst uppbygging á fursta- og biskupsdæminu í Prag. Svæðið er einn merkilegasti og áhugaverðasti hluti Prag og þar má njóta glæsilegs útsýnis frá hallarsvæðinu yfir borgina. Eftir hádegi er frjáls tími til að skoða sig um í borginni. Fyrir áhugasama er hægt að fara í siglingu á ánni Vltava sem er lengsta á Tékklands. Um kvöldið verður sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.

17. apríl | Frjáls dagur í Prag

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri til að skoða sig betur um í Prag en ótal margt er að sjá og skoða í þessari glæsilegu borg. Hér væri til dæmis hægt að skoða klaustur heilagrar Agnesar frá 13. öld og jafnvel fara í siglingu þar sem snæddur er hádegisverður um borð.

18. apríl | Heimferð frá Prag

Komið er að heimferð eftir viðburðaríka daga. Við höldum út á flugvöll þaðan sem flogið verður kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 3 nætur – Brno – Hotel International
  • 4 nætur – Prag – Century Hotel Prague Old Town

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Pavel Manásek

Pavel Manasek hóf píanónám sex ára gamall. Hann lagði stund á orgelleik í Konservatoríinu í Kromeris og síðan í Prag-akademíunni. Pavel starfaði sem organisti og söngstjóri við Háteigskirkju 1993-1999 og á árunum 1991-1993 sem organisti og skólastjóri Tónlistarskólans á Djúpavogi. Jafnframt var hann undirleikari og hjá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti