Brasilía & Argentína

Það er draumi líkast að ferðast til Brasilíu og Argentínu. Þessi ævintýraferð er blanda af stórfenglegri náttúru, mikilfenglegum fossum og tveimur af fallegustu borgum veraldar. Buenos Aires er fyrsti áfangastaðurinn en þar svífur andi sögunnar yfir vötnum.

Við skoðum Casa Rosada, þar sem Eva Perón, betur þekkt sem Evita, talaði til tryggra stuðningsmanna sinna. Við förum á tangósýningu í þessum heimabæ dansins, sem með sinni fáguðu blöndu af drama, glæsileika og munúð hefur heillað fólk allt frá 19. öld. Skemmtileg sigling á fljótabáti um óshólma Paraná bíður okkar auk spennandi dagsferðar til bæjarins Colonia del Sacramento í Úrúgvæ. Í Iguazú þjóðgarðinum upplifum við eitt stórbrotnasta landslag veraldar með breiðasta fossi jarðar ásamt hinum stórfenglega fossi Garganta del Diablo eða Gini djöfulsins. Í Rio de Janeiro skoðum við eitt af sjö undrum veraldar, hina þekktu Kristsstyttu, ásamt því að njóta útsýnis yfir fallegan Guanabara flóann. Borgin er afar falleg og iðar af lífi. Hér er um að ræða ógleymanlega ferð sem skilur eftir ljúfar og litskrúðugar minningar. 

Verð á mann 669.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 108.800 kr.


Innifalið

 • Áætlunarflug með British Airways: Keflavík – London – Buenos Aires.
 • Innanlandsflug: Buenos Aires - Iguazu – Rio de Janeiro.
 • Áætlunarflug með British Airways: Rio de Janeiro – London.
 • Áætlunarflug með Icelandair: London – Keflavík.
 • Flugvallarskattar fyrir alla ferðina.
 • Akstur til og frá flugvelli í Buenos Aires, Iguazú og Rio de Janeiro.
 • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Aðgangur að fuglagarðinum í Iguazú.
 • Gisting í 11 nætur í tveggja manna herbergjum á góðum 4* hótelum samkvæmt landsmælikvarða.
 • Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar.
 • Staðarleiðsögn.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

 • Þjórfé fyrir erlendan staðarleiðsögumann og rútubílstjóra.
 • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

6. október | Brottför frá Keflavík

Brottför frá Keflavík kl. 10:45 og lending í London kl. 14:55 að staðartíma. Þaðan verður flogið til Buenos Aires í næturflugi, brottför kl. 22:25 og lending í Buenos Aires kl. 8:20 að staðartíma þann 7. október.

Næturflugið tekur 13 klst. og 55 mín.

7. október | Lending í Buenos Aires

Eftir lendingu í Buenos Aires að morgni verður haldið á hótelið þar sem gefst tækifæri til að hvíla sig eftir langt flug. Eftir hvíldina mun argentínska ævintýrið okkar hefjast fyrir alvöru þegar við leggjum af stað í stutta skoðunarferð um Buenos Aires og á næstu dögum heimsækjum við marga af merkustu stöðum borgarinnar.

Í skoðunarferð dagsins heimsækjum við Recoleta og Palermo hverfin. Recoleta er eitt af fínni hverfum borgarinnar með glæsilegum húsum byggðum í frönskum stíl og þar búa margir af vel stæðari íbúum Buenos Aires. Í Recoleta kirkjugarðinum er að finna grafreiti allra helstu fyrirmanna borgarinnar, þar á meðal Evitu Peron sem liggur í fjölskyldugrafreitnum. Rétt norðan við Recoleta er Palermo, stærsta hverfi Buenos Aires og munum við leggja leið okkar þangað áður en við snæðum sameiginlegan kvöldverð í Buenos Aires.

Gist á hóteli í Buenos Aires í 4 nætur. 

 • Kvöldverður

8. október | Skoðunarferð um Buenos Aires

Morgunverður snæddur á hótelinu og síðan haldið í skoðunarferð um borgina þar sem við upplifum fjölbreytileika hennar. Í miðbænum sjáum við Obelisk minnisvarðann og Colón leikhúsið sem er heimsþekkt fyrir einstaklega fagran hljómburð sinn. Það er sérstök upplifun að heimsækja torgið Plaza de Mayo sem er vettvangur afar þýðingarmikilla atburða í sögu Argentínu. Við enda torgsins stendur forsetahöllin sem kölluð hefur verið Casa Rosada eða Ljósrauða húsið. Það var einmitt frá svölum Casa Rosada sem Eva Perón, betur þekkt sem Evita, talaði til tryggra stuðningsmanna sinna meðal margra af fátækustu íbúa landsins.

La Boca hverfið verður heimsótt en það er undir  sterkum áhrifum ítalskra innflytjenda sem hugðust freista gæfunnar í argentínsku höfuðborginni á 19. öld. Í  þessum borgarhluta heldur íþróttafélagið Boca Juniors til og þrátt fyrir að fjöldinn allur af framúrskarandi knattspyrnumönnum hafi spilað fyrir félagið í gegnum árin, þá er það knattspyrnuhetjan Diego Maradona sem er þeirra þekktastur. Einnig leggjum við leið okkar í San Telmo sem er með elstu hverfum Buenos Aires og heimsækjum auk þess eitt nútímalegasta hverfi Buenos Aires, Puerto Madero. Hádegisverður snæddur í borginni og að skoðunarferð lokinni eigum við frjálsan tíma til að skoða okkur um á eigin vegum eða taka það rólega. Áhugasamir geta heimsótt safn Evu Perón sem geymir margt áhugaverðra muna sem tengjast þessari þekktu kjarnakonu. 

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
Opna allt

9. október | Óshólmar fljótsins Paraná – Tigre

Í dag ökum við frá Buenos Aires til bæjarins Tigre þar sem skemmtileg sigling bíður okkar. Á leið okkar út úr Buenos Aires förum við í gegnum glæsileg úthverfi í norðurhluta borgarinnar. Í Tigre stígum við um borð í fljótabát sem siglir með okkur um óshólma Paraná. Paraná fljótið er næstlengsta fljót Suður-Ameríku (á eftir Amazon fljótinu) og er upptök þess að finna í Brasilíu. Hér má sjá hundruð eyja með þéttum hitabeltisgróðri sem eru hluti af einstöku vistkerfi svæðisins. Eftir notalega siglingu ökum við til baka til Buenos Aires þar sem við njótum tangósýningar og kvöldverðar á einu af veitingahúsum borgarinnar.  

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

10. október | Colonia del Sacramento í Úrúgvæ

Eftir morgunverð á hótelinu liggur leið okkar með ferju eftir ánni Rio de la Plata til eins elsta bæjar í Úrúgvæ, Colonia del Sacramento. Bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO en tilheyrði fyrst í stað Spáni en síðar Portúgal og því er byggingarstíll bæjarins undir áhrifum beggja landa. Við förum í skoðunarferð um bæinn og borðum hádegisverð þar. Um eftirmiðdaginn tökum við ferjuna aftur til Buenos Aires. 

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

11. október | Iguazú þjóðgarðurinn – Argentínu megin

Við höldum út á flugvöll snemma um morguninn þaðan sem við fljúgum til Puerto Iguazú. Við heimsækjum Iguazú þjóðgarðinn, Argentínu megin fossanna. Í þjóðgarðinum má sjá litrík fiðrildi og fugla flögra um á milli stórra trjánna, vínviðarins og burknanna, en öll eru þau hluti af fjölbreyttu gróður- og dýralífi garðsins. Garðurinn varð hluti af heimsminjaskrá UNESCO árið 1984 vegna fegurðar sinnar og líffræðilegs fjölbreytileika. Þjóðgarðinum tilheyra um 200 fossar sem eru allt að 80 metrar á hæð og mynda það sem kallað hefur verið einu nafni Iguazú fossar. Við hefjum heimsóknina í gestastofunni en höldum þaðan í gönguferð um þjóðgarðinn með útsýni yfir stórkostlega fossana. Farið verður með lítilli lest langleiðina upp að Garganta del Diablo eða Gini djöfulsins og gengin um 1 km löng leið eftir göngubrúm út að fossinum þar sem þú upplifir gríðarlegan kraft hans. Hádegiverður snæddur í þjóðgarðinum.

Gist á hóteli í Iguazú í 2 nætur.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

12. október | Iguazú þjóðgarðurinn – Brasilíu megin

Um morguninn verður farið í skoðunarferð Brasilíu megin þjóðgarðsins. Undursamleg fegurð og fjölbreytt lífríki tekur á móti okkur þegar komið er inn í garðinn og er um að gera að njóta umhverfisins á meðan á göngunni stendur. Þar sem stærsti hluti fossanna er Argentínu megin þjóðgarðsins, þá er einungis einn göngustígur hér, um 1 km langur. Frá honum höfum við stórkostlegt útsýni yfir fossa beggja landa. Við enda göngustígsins er lyfta en úr henni er frábært útsýni yfir brasilíska hluta þjóðgarðsins og Floreano fossinn. Eftir göngu um garðinn heimsækjum við fuglagarð þar sem má sjá hundruð litríkra og framandi fugla auk fiðrilda, eðla og slangna.

Um kvöldið snæðum við saman kvöldverð í Iguazú.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

13. október | Flug til Rio de Janeiro

Eftir morgunverð verður haldið út á flugvöll og flogið til Rio de Janeiro kl. 11:05. Þessi stórfenglega borg stendur við Atlantshafið á austurströnd Brasilíu og setur iðandi líf og glaðværð íbúanna svip sinn á hana. Borgin státar af fallegri, náttúrulegri höfn, umlukin grænum, skógi vöxnum klettum, stóru hafi og löngum ströndum.

Gist verður á hóteli í Rio de Janeiro í 5 nætur.

 • Morgunverður

14. október | Kristsstyttan – Tijuca skógurinn

Eftir morgunverðinn ökum við fallega leið eftir Rodrigo de Freitas lóninu í áttina að Corcovado fjalli. Þar er að finna hina frægu Kristsstyttu sem stendur í um 710 metra hæð yfir sjávarmáli og var nýlega valin ein af sjö nútímalegu undrum veraldar. Við tökum litla lest upp á fjallið og njótum stórbrotins útsýnis yfir Rio de Janeiro. Eftir ferðina upp á Corcovado fjall skoðum við Tijuca skóginn sem er talinn einn stærsti þéttbýlisskógur heims.

Eftir hádegi gefst frjáls tími í Rio de Janeiro.

 • Morgunverður

15. október | Sykurtoppurinn

Í dag skoðum við Sykurtoppinn eða Sugar Loaf Mountain sem er eitt helsta kennileiti Rio de Janeiro. Farið verður með kláfi upp á hina 215 m háu Urca hæð áður en annar kláfur er tekinn upp á Sykurtoppinn sem er í 395 m hæð yfir sjávarmáli. Í heiðskýru veðri er frábært útsýni til allra átta frá Sykurtoppnum en þaðan má sjá stóran hluta Rio de Janeiro, m.a. Copacabana ströndina, Corcovado fjallið og miðbæinn.

Eftir ferðina á Sykurtoppinn verður farið í skoðunarferð um borgina og merkustu staðir hennar heimsóttir.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

16. október | Dagsferð til Petrópolis

Að loknum morgunverði höldum við í dagsferð til borgarinnar Petrópolis sem einnig er nefnd Keisaraborgin en hún ber nafn síðasta keisara Brasilíu, Pedro II, honum til heiðurs. Borgin var sumardvalarstaður keisara og aristókrata Brasilíu á 19. öld og varð fyrsta höfuðborg Rio de Janeiro fylkisins í sjálfstæðisbaráttu Brasilíu. Hér skoðum við bæinn og fræðumst um sögu hans, lítum á merkilegar byggingar, s.s. safnið Imperial sem var áður sumarhöll keisarans og förum í heimsókn í brugghúsið Bohemian sem bruggar einn besta bjór Brasilíu.

Snæðum saman hádegisverð og höldum aftur til Rio þegar við höfum skoðað nægju okkar. Kvöldið er frjálst.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

17. október | Fjáls dagur í Rio de Janeiro

Í dag eigum við frjálsan dag í þessari litríku borg. Hægt er að fara í gönguferð eftir Copacabana eða Ipanema ströndunum, heimsækja eitt af strandkaffihúsum borgarinnar eða kíkja í verslanir. Þá gæti verið tilvalið að fara í skoðunarferð til Angra dos Reis sem er í um 1,5 klst. akstursfjarlægð frá borginni. Á svæðinu er að finna fjöldann allan af fallegum eyjum og ströndum og í skoðunarferðinni er farið í bátsferð um eyjarnar. Jafnvel væri hægt að athuga hvort hægt væri að fá miða á fótboltaleik, ef áhugi er fyrir því.

Um kvöldið snæðum við sameiginlegan kveðjukvöldverð í borginni.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

18. október | Rio de Janeiro – Frjáls dagur - Heimferð

Nú er runninn upp síðasti dagurinn okkar í Rio. Heimferðin er ekki fyrr en í kvöld svo hægt er að nýta daginn í síðustu innkaup, skoðunarferðir eða afslöppun. Skila þarf  herbergjum að morgni en hægt er að geyma farangur á hótelinu.

Flogið verður með næturflugi frá Brasilíu til London. Brottför er kl. 21:50 að staðartíma og flugið tekur 11 klukkustundir og 20 mínútur.

 • Morgunverður

19. október | Flug til Íslands

Áætluð lending í London er kl. 13:10 að staðartíma. Brottför frá London kl. 21:25 að staðartíma og áætluð lending í Keflavík kl. 23:40 að kvöldi 19. október. 

Myndir úr ferðinni

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína
Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína
Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína
Mynd úr ljósmyndasamkeppni Bændaferða 2019 - Brasilía & Argentína

Fararstjórn

Steingrímur Gunnarsson

Steingrímur Gunnarsson er einn af okkar reynsluboltum í fararstjórn, enda hefur hann ferðast og dvalið langdvölum í ólíkum löndum, eins og t.d. Austurríki, Kína, Bólivíu, Giunea-Bissasu, Noregi og Spáni. Löndin sem hann hefur heimsótt erum komin yfir 80 talsins og því má segja að hér sé maður með mikla reynslu í farteskinu þegar að ferðalögum kemur. Tungumál, saga og mismundandi landshættir hafa alltaf heillað hann og hafði töluverð áhrif á námsval hans en Steingrímur er með cand.mag í tungumálum og bókmenntum frá Háskólanum í Osló ásamt mastersgráðu í alþjóðastjórnmálum frá University of Salford og Celta nám frá University of Cambridge. Einnig má nefna kennsluréttindi frá Háskóla Íslands ásamt réttindum sem leiðsögumaður á Íslandi. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir