Vordagar í Dublin

9. – 13. maí 2018 (5 dagar)

Hér er boðið upp á spennandi ferð til Dublin á Írlandi. Flogið árla dags til höfuðborgar eyjunnar grænu og þar gist í fjórar nætur á glænýju hóteli í hjarta borgarinnar. Boðið er upp á dagsferðir um næsta nágrenni borgarinnar og auðvitað verður borginni sjálfri gerð góð skil. Við förum í dagsferð suður af borginni, skoðum Wicklow fjöllin, smábæinn Avoca og kastalaþorpið Glendalough. Þorp þetta á uppruna sinn á 6. öld þegar kristnir völdu stað fyrir klaustur. Þarna er ótrúlega margt að skoða. Við heimsækjum bæinn Waterford og margfrægar kristalverksmiðjur og ökum um einstaklega falleg héruð. Í Dublin verður skoðunarferð og m.a. ekið hjá pósthúsinu við O´Connell stræti, þar sem páskauppreisnin hófst árið 1916, St. Patrick´s Cathedral verður skoðuð og við sjáum Trinity háskólann. Það er svo indælt að heimsækja St. Stephen´s Green garðinn, hverfa út í guðsgræna náttúruna inn í miðri borg. Rölta um götur miðbæjarins, kíkja í kaffi – eða veitingahús og heimsækja kaupmenn.

Verð á mann í tvíbýli 139.800 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 54.900 kr.

Innifalið

 • 5 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður á hótelinu.
 • Kvöldverður fyrsta kvöldið á hótelinu.
 • Allar skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir og aðrir kvöldverðir fyrir utan fyrsta kvöldið sem er innifalið.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Kvöldverður með írskri skemmtidagskrá 11. maí, 5.900 kr. (Taka verður fram þátttöku við bókun í ferðina).
 • St. Patrick ca. € 6.
 • Trinity háskólinn ca. € 10.
 • Glendalough ca. € 5.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

9. maí | Keflavík – Dublin

Brottför frá Keflavík kl. 7:30 með Icelandair. Mæting í Leifsstöð amk 2 klst fyrir brottför. Lent á Dublin flugvelli kl. 10:50 að staðartíma. Við byrjum ferðina á heimsókn í einn elsta og sögufrægasta kastala Írlands, Malahide Castle. Saga hans nær aftur á 12. öld þegar Richard Talbot kom til Írlands og fékk umráð yfir svæði þessu og höfninni sem því tilheyrði. Við skoðum kastalann, fræðumst frekar um sögu hans og ættarinnar sem hér bjó öldum saman. Umhverfis kastalann er fallegur garður sem gaman er að skoða. Hér er hægt að fá sér hressingu áður en áfram verður haldið inn í borg á hótel. Komum okkur fyrir á herbergjum og síðan er frjáls tími það sem eftir er dagsins. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

10. maí | Dagsferð til Waterford og Glendalough

Í þessari dagsferð byrjum við á að aka til Waterford suður af Dublin. Þetta er elsta borg Írlands með um 54 þúsund íbúa. Bærinn er á fögrum stað og er þekktur fyrir kristalframleiðslu. Við heimsækjum verksmiðju og skoðum safn. Hádegisverður snæddur áður en ekið er til Avoca, lítils þorps en hér búa innan við eitt þúsund manns. Forðum tengdist bærinn einkum koparvinnslu en í dag er þetta vinsæll bær hjá kvikmyndagerðarmönnum. Áfram er svo ekið og næst komum við til Glendalough sem er sögufrægur staður og vagga kristinnar trúar á Írlandi frá 6.öld. Klaustur var reist og unnu munkar störf sín í sátt og samlyndi við aðra íbúa dals þessa. Hér finnast rústir gamalla bygginga, turna og auðvitað líka fornir kirkjugarðar. Þetta er einstaklega friðsæll staður sem enn í dag nýtur mikilla vinsælda jafnt heimamanna sem erlendra gesta. Við endum þessa dagsferð í  Wicklow Mountains þjóðgarðinum og komu til baka á hótel undir kvöld.

11. maí | Skoðunarferð í Dublin

Farið verður í skemmtilega skoðunarferð um Dublin fyrri hluta dags, m.a. fram hjá frægum byggingum svo sem pósthúsinu við O´Connell stræti þar sem páskauppreisnin hófst árið 1916, gamla þinghúsinu, Trinity háskólanum, Kirkju heilags Patreks og skoðum stærsta garð innan borgarmarka í Evrópu. Ferðinni lýkur í miðbænum þar sem þeir sem vilja geta skoðað sig um, sest á bekk og notið vorsins í St. Stephen´s Green garðinum eða rölt um miðbæinn og fylgst með götulistamönnunum. Og auðvitað eru verslanir á hverju strái. Þeir sem kjósa geta farið í Trinity háskólann og skoðað hið fræga guðspjallahandrit og þjóðargersemi Íra Book of Kells ásamt mikilfenglegu bókasafni skólans, The Long Room. Írskt kvöld verður svo í Belvedere hótelinu í Dublin kl. 19:00 þetta kvöld með kvöldverði, dansi og söng. 

Opna allt

12. maí | Frjáls dagur

Þennan dag gefst tækifæri til að njóta alls þess sem þessi dásamlega borg hefur upp á að bjóða á eigin vegum. Í skoðunarferð gærdagsins bar margt fyrir augu sem jafnvel er vert að gefa meiri gaum í dag. Áhugasamir um söfn ættu að byrja daginn á heimsókn á Írska Þjóðminjasafnið þar sem svo ótal margt er að sjá og skoða, rölta þaðan á listasafnið eða fornleifasafnið. Dublin kastali er staður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Kaupmenn hafa hreiðrað um sig á Grafton Stræti, þar er mikið úrval hvers kyns verslana, veitinga- og kaffihúsa. Í dag er laugardagur og því ljóst að mannlífið í miðbænum er fjörugt langt fram á kvöld. 

13. maí | Heimferðardagur

Það er komið að heimför. Brottför flugs Icelandair er kl. 11:45 og lending í Keflavík kl. 13:05 að íslenskum tíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði til milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir