Páskar í Stresa & Lerici

Glæsileiki, rómantík og ölduniður Lago Maggiore vatnsins undirstrika fegurð Ítalíu og ítölsku rivíerunnar þar sem heillandi umhverfi lætur engan ósnortinn. Ferðin hefst í blómlega bænum Stresa við Lago Maggiore vatn. Margar töfrandi skoðunarferðir standa til boða, svo sem sigling á Comovatni frá Lecco til yndislega bæjarins Bellagio sem liggur út á fögrum tanga og er sannkölluð perla við vatnið. Einnig verður farið í siglingu á Lago Maggiore vatni til eyjunnar Isola Bella sem er ein Borromeo eyjanna. Þar sjáum við glæsilega höll í miðjum lystigarði, einum þeim fegursta sunnan Alpafјalla. Ferðin heldur áfram frá fallega bænum Lerici við La Spezia flóann á Ítalíu en hann ber viðurnefnið Skáldaflóinn en á leiðinni þangað verður áð í Rapallo. Skemmtilegar dagsferðir eru í boði, m.a. ævintýraleg sigling úti fyrir brattri klettaströnd Cinque Terre með viðkomu í þorpunum Riomaggiore, Monterosso og Porto Venere. Komið er til gömlu virkisborgarinnar Lucca í Toskana héraði sem er fæðingarborg tónskáldsins Puccini. Þar um slóðir förum við í skemmtilega heimsókn til ólífu- og vínbónda. Endum þessa sæludaga á því að sækja Pisa í Toskana héraði heim, sem er magnaður staður, með sínum fræga skakka turni, basilíkukirkjunni og skírnarkapellunni.

Verð á mann í tvíbýli 319.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 92.900 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 11 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar, vínsmökkun, kláfar
 • Hádegisverðir
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling á Como vatni frá Lecco til Bellagio ca € 25
 • Sigling yfir á Isolo Bella eyjuna ca € 20.
 • Sigling Cinque Terre ca € 35.
 • Aðgangur inn í kirkjuna og skírnarkapelluna í Pisa ca € 12.
 • Hádegishressing hjá vínbónda ca € 23. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

11. apríl | Flug til Zürich & Stresa við Lago Maggiore vatn

Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til bæjarins Stresa, við vatnið Lago Maggiore, sem er umvafið fjallafegurð. Þetta er annað stærsta vatn Ítalíu en tæpur fimmtungur vatnsins tilheyrir Sviss. Frá 18. öld hefur fegurð og lega vatnsins dregið til sín baðgesti og ferðamenn hvaðanæva úr heiminum. Þar verður gist í 4 nætur á góðu hóteli í miðbæ Stresa sem býður upp á glæsilega aðstöðu m.a. inni- og útisundlaug og mjög fallegan garð með sólbekkjum, stólum og borðum. Einnig er heilsulind með saunu og tyrknesku baði.

12. apríl | Stutt ganga um Stresa & frjáls tími

Það er kærkomið að slaka á eftir ferðalagið. Eftir góðan morgunverð verður farið í stutta göngu um bæinn Stresa sem er einstaklega líflegur og skemmtilegur. Eftir það er frjáls tími og er því upplagt að nota glæsilega aðstöðu hótelsins, rölta um og kanna bæinn betur eða fara í skemmtilegan göngutúr með fram vatninu þar sem fjallafegurðin er dásamleg.

13. apríl | Lecco, sigling á Comovatni & Bellagio

Á dagskrá okkar í dag er töfrandi og skemmtilegur dagur. Nú verður ekin fögur leið til Lecco við Comovatn sem er rómað fyrir fegurð og er sama hvert litið er, fallegt landslag umlykur okkur, líkt og mynd á póstkorti. Farið verður í siglingu frá Lecco til Bellagio sem er á fagurgrænum tanga og ekki að ástæðulausu að bærinn er kallaður „perla Comovatns“. Litríkur og skemmtilegur bær með sínum hlykkjóttu mjóu götum og það er dásamlegt að njóta lífsins í kringum skemmtilegar, litlar verslanir og veitinga- og kaffihús.

Opna allt

14. apríl | Sigling Isola Bella, Borromeo höllin & lystigarðurinn

Dagurinn hefst á ljúfri siglingu yfir til Isola Bella sem er ein Borromeo eyjanna. Fegurð hennar er ólýsanleg en hún ber nafn Isabellu eiginkonu Carlo III. Borromeoættin byggði á eyjunni höll sem þekkt er fyrir að hafa verið gististaður Napóleons og eiginkonu hans, Jósefínu. Það er mjög skemmtilegt að skoða höllina, svo ekki sé talað um garðinn umhverfis hana, stórglæsilegur lystigarður á tíu hæðum. Eftir það verður siglt yfir til Stresa þar sem hægt er að njóta glæsilegrar aðstöðu hótelsins eða kanna bæinn Stresa betur.

15. apríl | Stresa, Rapallo & Lerici við Liguraströndina

Kveðjum Stresa og Lago Maggiore vatn eftir ljúfa daga og nú heldur sælan áfram því ekið verður til Lerici sem er yndislegur bær á austurhluta ítölsku rivíerunnar við La Spezia flóann. Hann er rómaður fyrir fegurð og ber flóinn viðurnefnið Skáldaflóinn. Þar verður gist í 5 nætur á góðu hóteli. Á leiðinni þangað verður stoppað í Rapallo við ítölsku riveruna en þar er upplagt að fá sér hádegishressingu áður en ekið verður á hótel í Lerici.

16. apríl | Gönguferð um Lerici & rólegheit

Rólegheit og slökun í dag í bænum Lerici. Upplagt að kanna umhverfið á göngu með fararstjóra en glæstar byggingar og kastalavirki frá veldi Pisa- og Genúabúa prýða borgina. Eftir það verður frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum og jafnvel fara í gönguferð með ströndinni en skutlur flytja fólk þangað frá hótelinu.

17. apríl | Sigling við Cinque Terre ströndina

Þessi dagur er heilt ævintýri því nú verður farið í ótrúlega siglingu úti fyrir brattri Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar þar sem litríkum húsunum er tyllt utan í klettana. Siglt verður til bæjanna Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað einhvers staðar til að fá sér hádegishressingu og við könnum líka líf bæjarbúa í nokkrum bæjum.

18. apríl | Pisa & Campo dei Miracoli torgið í Toskana

Nú verður ekin fögur leið til Pisa í Toskana héraði sem er þekktust fyrir skakka turninn á torginu, Piazza dei Miracoli. Bygging turnsins hófst árið 1173. Þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, var ætlað að standa lóðrétt, en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Turninn er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli eða Kraftaverkatorginu í Pisa. Eftir skoðunarferð verður gefin tími til að fá sér hressingu og njóta þess að vera á þessum magnaða stað. Eftir það verður ekið á hótelið okkar í Lerici þar sem gefst frjáls tími til að kanna umhverfið betur.

19. apríl | Virkisborgin Lucca í Toskana & hádegishressing hjá vínbónda

Í dag heimsækjum við gömlu virkisborgina Lucca í Toscanahéraði en á 13. og 14. öld var hún einhver valdamesta borg Evrópu. Í dag er borgin oft kölluð leynda perla Toskana héraðsins. Tilkomumiklir virkisveggir hennar standa enn frá því á miðri 17. öld, vitnisburður um glæsta tíma. Tónskáldið Puccini er fæddur í borginni og hefur fæðingarstaður hans verið gerður að áhugaverðu safni. Við höldum í stutta skoðunarferð um helstu staði og að henni lokinni gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum. Á leið aftur á hótel munum við heimsækja vínbónda í Montecarlo bænum í nágrenni Lucca, þar sem boðið verður upp á dæmigert ítalskt snarl og auðvitað fáum við að bragða á framleiðslu bóndans. Þangað er yndislegt að koma, þetta verður ógleymanlegur dagur.

20. apríl | Lerici & Zürich

Nú kveðjum við þennan sælureit og Ítalíu eftir yndislega daga. Ekin verður fögur leið norður um Ítalíu og inn í Sviss til Zürich, þar sem gist verður síðustu nóttina í nágrenni flugvallar.

21. apríl | Heimferð frá Zürich

Eftir góðan morgunverð og kveðjustund verður ekið út á flugvöll í Zürich. Brottför þaðan er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 15:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00