Meistarahópurinn í Seiser Alm

Kennslu- og æfingaferð á gönguskíðum í skemmtilegum félagsskap og fallegu umhverfi er sannkallaður draumur útivistarfólks. Hér er boðið upp á allt það besta til að gera ferðina að ógleymanlegu vetrarævintýri. Seiser Alm svæðið er einstaklega fallegt og útsýnið yfir Dólómítana stórkostlegt. Skíðabrautir svæðisins eru um 80 km langar, þær eru í 1.800 – 2.200 m hæð yfir sjávarmáli og henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Gist verður á góðu hóteli í bænum Seis am Schlern en þar er innifalið morgunverður, síðdegissnarl og kvöldverður. Á hótelinu er notaleg heilsulind með m.a. sauna, heitum potti og gufubaði. Flogið er með Play til Veróna og ekið sem leið liggur til Seiser Alm svæðisins. 

Þessi ferð er sérferð fyrir meistarahóp Einars Ólafssonar. Í ferðinni verða bæði fararstjóri og skíðakennarar. Skíðakennarar verða með æfingar og kennslu flesta daga, bæði fyrir og eftir hádegi. Því er upplagt að nýta sér kennsluna hálfan daginn og æfa sig sjálfur hálfan daginn. Kennslan verður fjölbreytt og skipt er í hópa eftir getu. Þeir sem vilja frekar taka því rólega og njóta þess að skíða á sínum eigin forsendum í dásamlegu umhverfi gera það. Markmiðið er að allir njóti sín við bestu mögulegu aðstöðu.

Fararstjórn: Guðrún Helga Jónasdóttir

Skíðakennarar: Einar Ólafsson, Jakob E. Jakobsson & Snorri Einarsson

Verð á mann í tvíbýli 359.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 80.400 kr.


Innifalið

  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í Veróna og hótelsins í Seis am Schlern.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli.
  • Morgunverðarhlaðborð.
  • Síðdegishressing.
  • Vel útilátinn kvöldmatur ásamt salat- og forréttahlaðborði.
  • Aðgangur að heilsulindinni.
  • Frítt South Tyrol Guest Pass sem hægt er að nýta í strætó og skíðarútur á svæðinu.
  • Íslensk fararstjórn og skíðakennsla.

Ekki innifalið

  • Aukagjald fyrir skíði í flug, 4.700 kr. á fluglegg.
  • Aðgangur í skíðagöngubrautir, vikukort u.þ.b. € 45.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Skíðasvæðið

Tignarlegir tindar Dólómítanna taka á móti okkur í Alpaþorpinu Seis am Schlern í Suður-Tíról á Ítalíu. Þorpið stendur við rætur hins 2563 metra háa fjalls Schlern og Seiser Alm hásléttunnar. Seiser Alm svæðið er í um 1800-2200 m hæð og þar eru um 80 km af skíðagöngubrautum sem allar eru tvö- eða fjórfaldar. Svæðið hentar bæði byrjendum og lengra komnum og eins bæði fyrir klassískan og skauta stíl. Seiser Alm skíðagöngusvæðið er vinsælt æfingasvæði meðal atvinnuskíðagöngufólks, meðal annars hjá norska, sænska, rússneska og bandaríska landsliðinu auk þess ítalska. Hér eru fjölmargir fjallaskálar þar sem hægt er að hvíla lúin bein og njóta staðbundinnar matargerðar svæðisins. Suður-Tírólsk matargerð sameinar matarhefðir Alpanna og Miðjarðarhafssvæðisins sem þýðir að hér verður örugglega eitthvað sem hentar öllum. Hér má skoða vefsíðu Seiser Alm svæðisins.  

Flugið

Flogið verður með Play til Veróna þann 27. janúar. Brottför frá Keflavík kl. 9:10 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Veróna kl. 14:20 að staðartíma. Frá flugvellinum í Veróna eru um 185 km til Seiser Alm. Á brottfarardegi leggjum við snemma af stað út á flugvöll og síðan er flogið heim kl. 15:20 frá Veróna. Lending á Íslandi kl. 18:55. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Einar Ólafsson

Einar Ólafsson er tvöfaldur Ólympíufari í skíðagöngu, margfaldur Íslandsmeistari og heldur utan um alla kennslu hjá skíðagöngufélaginu Ulli. Einar hefur einnig tekið þátt í fjölda almenningsganga bæði í Evrópu og Norður-Ameríku og býr yfir mikilli reynslu í fræðunum.

Jakob E. Jakobsson

Jakob var í landsliði Íslands í skíðagöngu á árunum 2000-2006. Þá bjó hann og æfði í Lillehammer og Geilo í Noregi og keppti mikið í Noregi og Skandinavíu. Á þessum sama tíma stúderaði hann almenna íþróttafræði og sálfræði við Háskólann í Lillehammer. Jakob keppti þrisvar sinnum á HM unglinga og árið 2005 keppti hann einnig á HM fullorðinna í Oberstdorf í Þýskalandi.

Eftir að skíðin fóru á hilluna lauk Jakob BS prófi í Sport Management frá Íþróttaháskólanum í Osló og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Jakob starfar í dag sem eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar veitingahúss í Reykjavík.

Guðrún Helga Jónasdóttir

Guðrún er mikið náttúrubarn og reynir að nýta frítímann sinn sem mest upp á fjöllum gangandi eða skíðandi. Hún hefur stundað svigskíði frá barnsaldri en tók ástfóstri við gönguskíðin á sama tíma og leiðir hennar og mannsins hennar, Einars, lágu saman. Hún hefur verið í skíðaferðum á vegum Bændaferða síðastliðin sjö ár og þekkir mjög vel til þeirra. Guðrún bjó á Ítalíu í sjö ár og talar tungumálið reiprennandi auk fjölda annarra tungumála þar sem tungumál liggja vel fyrir henni. Henni finnst gaman að umgangast fólk og finnst mannleg samskipti vera ein af hennar sterku hliðum. Hún er lærður leiðsegjandi frá leiðsöguskólanum á Íslandi og starfaði töluvert við ferðamennsku á yngri árum. 

Snorri Einarsson

Snorri hefur keppt á heimsbikarmóti á gönguskíðum síðustu 13 ár og var í 15. sæti á síðasta HM í Planica í Slóveníu í 50 km hefðbundinni skíðagöngu. Hann hefur mikla reynslu af því að þjálfa bæði börn og fullorðna síðustu 20 árin og er í dag að þjálfa 10 ára og eldri hjá Skíðafélagi Ísfirðinga.

Hótel

Parc Hotel Florian

Gist verður allar næturnar á Parc Hotel Florian í Alpaþorpinu Seis am Schlern sem stendur við rætur Schlern fjallsins. Hótelið er í 1000 metra hæð og þar er víðáttumikið útsýni. Innifalið er vel útilátið morgunverðarhlaðborð, síðdegissnarl og margrétta kvöldverður með litríku salat- og forréttahlaðborði. Á hótelinu er heilsulind með sauna, gufubaði, heitum potti og innrauðum hitaklefa. Herbergin eru notaleg með baði/sturtu, hárþurrku, sjónvarpi, öryggishólfi, baðslopp og snyrtivörum. Ókeypis þráðlaust net er á hótelinu. Sjá nánar á vefsíðu hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti